Þetta með valdheimildir ríkisins

Ríkið má gera hvað sem er á meðan manni finnst það vera gera góða hluti, ekki satt?

Nei, aldeilis ekki. Þannig virka einræðisríki. Þannig virka alræðisríki einráðra konunga og harðstjóra og aðalritara kommúnistaflokka. Þannig virka ekki stjórnarskrárbundin lýðræðisríki. En á meðan okkur er sagt að ríkisvald með góðan ásetning megi ekki bara segja A og B án lagastoðar og heimilda í stjórnarskrá þá eru margir leynt og ljóst að dáðst að skilvirkni og framtakssemi einræðisherra.

Tvö nýleg dæmi minna okkur á að við ruglum saman góðum ásetningi og girðingum á valdheimildum hins opinbera.

Í frétt á visir.is er stórkostleg fyrirsögn: 

Hæsti­réttur bannar al­ríkinu að fyrir­skipa að­gerðir í um­hverfis­málum

Mér dettur varla í hug óheiðarlegri fyrirsögn.

Öllu heiðarlegri útdráttur á lagatæknilegu máli er að fá í fréttabréfi Oliprice.com, með tilvísun í frétt á sama miðli:

In a blow to US President Biden, the US Supreme Court ruled that the Environmental Protection Agency does not have authority to regulate greenhouse gas emissions from existing coal- and gas-fired power plants. 

Nei, bandaríska alríkinu er ekki bannað að fyrirskipa aðgerðir í umhverfismálum. Því er einfaldlega bannað að stíga út fyrir valdheimildir sínar og fyrirskipa einhvers konar losunartakmarkanir á lofttegund frá rekstri sem nú þegar er til staðar. Og nú er ekki víst að ég þekki allar hliðar málsins en hérna komst dómstóll að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin væru ekki undir stjórn einvaldskonungs auk hirðar. Er það alslæmt? Má ekki bara fagna slíku aðhaldi dómstóla óháð ótta við snefilefni í andrúmsloftinu?

Annað dæmi og öllu þekktara er nýlegur úrskurður hins bandaríska hæstarétts að það væri ekki stjórnarskrárvarinn réttur í Bandaríkjunum að geta farið í fóstureyðingu. Ljómandi vel útskýrt hér af lögmanni. Bandaríska alríkið hefur einfaldlega ekki slíkar valdheimildir. Meira að segja fólk sem vill að fóstureyðingar séu sem aðgengilegastar hafði áður sagt að dómur sem gaf alríkinu slík völd væri gallaður séð frá sjónarhóli lögfræðinnar. Bandaríska alríkið er ekki að banna fóstureyðingar. Það er ekki að heimila þær. Það hefur einfaldlega ekki lagaheimild til að geta sett lög um slíkt. Hérna komst dómstóll að þeirri niðurstöðu að ríki Bandaríkjanna væru ríki, ekki sveitarfélög, og fá að ráða sumum málum sjálf, rétt eins og ríki Evrópu jafnvel þótt þau hafi mörg hver framselt sumt af fullveldi sínu til Evrópusambandsins eða skyldra stofnana. Er það alslæmt?

Punkturinn hér er sá að ef við viljum girðingar á valdnotkun hins opinbera þá þurfum við annaðhvort að virða þær eða breyta þeim. Það gengur ekki í réttarríki að ríkisvaldinu sé bannað að skipta sér af einhverju og gerir það samt. Kannski allt í lagi fyrir suma sem styðja tímabundið ásetning yfirvalda um ákveðnar breytingar á samfélagi manna, en engum til lengri tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband