Stórfrétt! Hið opinbera að hugsa í lausnum!

Háskóli Íslands hefur fallist á ósk heilbrigðisráðuneytisins um að flýta útgáfu brautskráningarskírteina þeirra nemenda í læknis-, hjúkrunar- og lyfjafræði sem útskrifast í vor. Útgáfa starfs­leyf­is frá embætti land­lækn­is tek­ur að jafnaði eina til tvær vik­ur frá því að um­sókn með próf­skír­teini hef­ur borist. Breyt­ing­in mun flýta því fyr­ir um tæp­an mánuð að hlutaðeig­andi geti ráðið sig til starfa með full­gild rétt­indi á heil­brigðis­stofn­un­um.

Þetta heitir að hugsa í lausnum og ég er satt að segja mjög undrandi á að það sé gert innan hins opinbera.

Mætti hugsa sér að heimagerð og auðleysanleg vandamál leynist annars staðar? Að svifaseint og þunglamalegt opinbert batterí standi víðar í vegi fyrir lausn vandamála eða því að rekstur geti hafist?

Já, auðvitað. Dæmin eru endalaus. Hið almenna viðhorf hins opinbera er að fyrst þurfi að biðja það um leyfi og síðan má hefjast handa. Þetta er breyting frá fyrri tímum, eða svo ég vitni í Helga í Góu sem sagði fyrir nokkrum árum:

"Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin."

Og þarna vildi reyndur veitingamaður einfaldlega fá að djúpsteikja kjúkling.

Ég sá lítið dæmi um daginn. Ef þú keyrir ferðamenn um og vísar þeim á veitingastað þá ertu bílstjóri. Ef þú hjálpar sama hóp við að finna sér gistingu þá ertu allt í einu orðinn ferðaþjónustuaðili og þarft að sækja um einhver leyfi. Til hvers? Hótelið er væntanlega með sín leyfi. Fólk bókar sér gistingu þar í gegnum leitarsíður og bókunarvélar. En segi bílstjórinn þinn þér hvar er gott að gista þá tekur við einhver annar veruleiki - eitthvað annað lagaumhverfi hreinlega. Einhver blýantsnagarinn fær vinnu út á þetta hringleikahús en allir aðrir tapa.

Annað dæmi sem mér barst til eyrna er að ef manneskja útskrifast með kandídatsgráðu í sálfræði frá dönskum háskóla þá þarf í starfsleyfisumsókn á Íslandi að koma fram einhver yfirlýsing frá dönsku fagráði um að sama nám uppfylli einhverja löggjöf Evrópusambandsins - nokkuð sem þetta fagráð telur skólann eiga að tjá sig um en hið íslenska ríkisvald því ósammála, og pattstaða komin upp. Og ég sem hélt að það væri skortur á sálfræðingum á Íslandi? Greinilega ekki ef menn telja sig geta verið án fólks með danskar gráður.

Ég legg til að hið opinbera á Íslandi boði á sinn fund reynda íslenska fagmenn í einkageiranum sem hafa rekið fyrirtæki í fjölbreyttum greinum og fái þá til að kveikja í ónauðsynlegum lögum og reglum og liðka aðeins fyrir atvinnulífinu. Einhverjir munu sjálfsagt gagnrýna slíkt og telja að verið sé að innleiða villta vestrið en það er bara kerfið að verja sjálft sig og er óhætt að hunsa.

Kunna fleiri ráðherrar en sá í heilbrigðisráðuneytinu að hugsa í lausnum? Vonum það!


mbl.is Fá starfsleyfi fyrr til að mæta manneklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eru komnar hringlur og skreytt ökklabönd inn í verklagsregluna?

Guðjón E. Hreinberg, 28.5.2022 kl. 00:57

2 identicon

Ætli Dr. Zoe D Katze, Ph.D., C.Ht., DAPA, hafi Danska gráðu eða fái að starfa innan Danska heilbrigðiskerfisins? Eruð þið ekki með gráður frá sama skóla? Hvað ætli verkfræðigráða kosti í dag með hraðpósti, það væri flott að geta byrjað að starfa sem verkfræðingur fyrir þjóðhátíðardaginn og sálfræðingur um verslunarmannahelgina.

Hefði kjúklingurinn verið kjúklingur, handlaugar á salerni starfsmanna og kælir fyrir kjötið ef ekki hefði þurft að sækja um leyfi og vera með hlutina í lagi fyrr en einhvern tíman eftir opnun?

Bílstjóri sem hjálpar hóp við að finna sér gistingu er ekki lengur bílstjóri. Hann er orðinn lagalega ábyrgur og ber einnig fjárhagslega ábyrgð sem tengist stjórnun bifreiðar ekki neitt og tryggingar bifreiðastjóra ná ekki yfir. Hann gæti allt eins boðið upp á tannviðgerðir.

Vagn (IP-tala skráð) 28.5.2022 kl. 03:28

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Skemmtilegt að þú tókst verkfræði sem dæmi. Þar virðist allt virka undravel þótt þrúgandi opinbert eftirlit með tilheyrandi sektagleði og töfum sé víðsfjarri.

Nú er ég með M.Sc. í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands en má samt ekki kalla mig verkfræðing á Íslandi nema hafa sótt um það, borgað einhverjum gjald fyrir að renna yfir útskriftarpappíra mína og fært nafn mitt á einhvern lista með hið fína heiti "skrá yfir þá sem fengið hafa löggildingu til að kalla sig verkfræðinga skv. lögum nr. 24 13. júní 1937, lögum nr. 44 3. apríl 1963, lögum nr. 73 9. október 1968, lögum nr. 62 5. september 1986 og lögum nr. 8 11. mars 1996" (já, þarna er vísað í heilar fimm lagagreinar). Ég spurði eitt sinn fulltrúa Verkfræðingafélags Íslands, sem þá hét, hvort það kæmi einhvern tímann fyrir að masters-gráða í verkfræði frá HÍ væri ekki talin duga til að komast á hinn fína lista. Hann sagði nei. 

Í Danmörku er enginn slíkur listi og ekkert sem kemur í veg fyrir að bakarinn kalli sig verkfræðing - brauðverkfræðing kannski? Sölufólk hef ég séð kallað "tender engineers" þótt það sé með viðskiptagráðu. Samt hanna Danir vegi og brýr og gasrör og orkuver. Hver veit - kannski það sé engin þörf á opinberum listum?

Svo má til gamans geta að ég sem verkfræðingur í Danmörku, ekki á neinum listum yfir verkfræðinga, hannaði nýjustu vatnsleiðsluna á milli Íslands og Vestmannaeyja á sínum tíma - mitt nafn á hönnunarskýrslunni og framleiðslulýsingunum og þess háttar. Ætli vatnsöryggi Vestmannaeyja sé núna í hættu? 

Geir Ágústsson, 28.5.2022 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband