Sunnudagur, 22. maí 2022
Erum við búin að finna upp hið fullkomna samfélag?
Í svolítilli umfjöllun um kvikmyndina Top Gun er mikið fjallað um hvað myndin sé afsprengi tíðaranda síns sem sé ekki sá sami og í dag. Nokkrar setningar úr sömu umfjöllun:
Hún er svo uppfull af testósteróni að ekki verður komist hjá því að flissa. Það ansi margt í henni sem eldist ekki vel ...
Það er áhugavert að horfa á þetta með kynjagleraugunum og held ég að flestar konur myndu álíta Maverick lúða og hefðu enga þolinmæði fyrir svona náunga. En hann flýgur þotu sem fer rosa hratt, á mótorhjól sem segir vrúmm, er óheflaður, gefur yfirvaldinu puttann og klæðir sig í hvítan viðhafnarbúning flughersins á barnum. Top Gun skapar heim þar sem konur falla fyrir slíku, sérstaklega séu þær vel menntaðar og skynsamar. Eða er það ekki? ...
Höfundarnir gengu of langt með persónu Mavericks, hann er alltaf einum of mikið. ...
Það er áhugaverður leikur að skoða barsenuna og kynni Mavericks og Charlie við mökunarferli hænsfugla. ... Ég er ekki frá því að svona framsetning á tilhugalífi hafi gefið ungu fólki einhverskonar brenglaða hugmynd um hvernig karlmenn eigi að nálgast konur og fékk sennilega margan manninn til að halda að slíkar aðfarir virkuðu raunverulega á kvenfólk. ...
Því er það a.m.k. mín tilgáta að Top Gun sé í raun mjög toxic kvikmynd, sem gaf ungu fólki mjög furðulegar hugmyndir um karlmennsku og samskipti kynjanna. ... kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa gífurleg áhrif á tíðarandann og geta jafnvel haft áhrif á siðferðisvitund fólks. ...
Annað vafasamt við Top Gun er hvernig hún upphefur áhættusækni; förum hratt og skeytum ekki um annað fólk. ...
Það er auðvitað mjög auðvelt að gantast með eldri kvikmyndir sem eru skrifaðar inn einhvern tíðaranda sem er úr sér genginn. ...
Top Gun eldist ekki vel á menningarlegu stigi, hún upphefur eitraða hegðun á máta sem aðeins 100 milljón dollara 80´s Hollywood kvikmynd getur. ...
Nú horfði ég á Top Gun um daginn í fyrsta skipti í heilu lagi til að undirbúa mig undir framhaldsmyndina sem er að detta í kvikmyndahús og ég verð að viðurkenna: Þessi kynjagleraugu pistlahöfundar komu mér aldrei til hugar. Mér datt ekki í hug að setjast í hraðskreiðan bíl til að ganga í augun á einhverjum kvenmanni eða ryðjast inn á kvennaklósett. Þegar ég horfði ítrekað á Die Hard myndirnar á sínum tíma leit ég ekki á það sem leiðbeiningar um fataval eða tóbaksnotkun. Þegar ég horfði á Pulp Fiction aftur og aftur sem unglingur var ég ekki að taka niður glósur um hvernig ætti að krækja í kvenmann eins og Umu Thurman.
Auðvitað er allt framleitt í ákveðnum tíðaranda sem á að endurspegla óskir áhorfenda hverju sinni en fyrr má nú vera. Eitruð karlmennska í Top Gun? Ég er viss um að það finnist fjöldi kvenmanna sem sækir í tegundir eins og Maverick: Extróvert einstaklingar sem taka áhættu og láta vaða. Raunar telja ýmsir sálfræðingar að þess slags tegundir einstaklinga séu einmitt taldar eftirsóknarverðar af mörgum ástæðum (en síður að öðrum) og eigi auðvelt með að ná sér í maka.
Og hver erum við að dæma tíðaranda fyrri tíma? Hefur samfélag okkar þróast í stanslausum skrefum upp á við, nær og nær hinum heilaga sannleika? Samfélag sem í dag spýtir strákum ólæsum út úr skólakerfinu? Samfélag þar sem yfirgnæfandi fjöldi fanga og sjálfsmorða tilheyra karlkyninu? Samfélag þar sem karlmenn í forstjórastólum eru öfundaðir af laununum en ekki 70 tíma vinnuvikunum?
Ég veit ekki svarið. Ég kann vel við margt af því sem ég ólst upp við og upplifi sem betur fer töluvert af í kringum mig. Ég er að vinna með Maverick-tegund manneskju: Ungur og frakkur maður sem stundar allskyns áhættusamar íþróttir en er um leið opinn og hress og auðvelt að spjalla við og var kominn með nýja kærustu á nokkrum vikum eftir að sú gamla sagði bless. Ég held að pistlahöfundur hafi rangt fyrir sér - að Maverick sé einhvern veginn úreldur. Ég held að hann hafi aldrei verið vinsælli í raun þótt hann sé óvinsæll í umræðunni. Gefið, auðvitað, að hann haldi höndunum út af fyrir sig og ryðjist ekki inn í kvennaklefann - um það sjá víst aðrir á okkar upplýstu tímum hins nútímalega tíðaranda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Facebook
Athugasemdir
Þessi kvikmynd var öðrum þræði gerð til að auka áhuga ungra karlmanna á flughernum. Kvikmyndir eru söguform og endurspegla ekki raunveruleikann því hann er óspennandi. Alls konar staðreyndavillur fyrirfinnast í leiknum kvikmyndum, t.d. hefur aldrei verið til orustuþota sem kölluð er Mig-28 en hún leit út eins og hin bandaríska F5 í myndinni. Sömu rammarnir voru notaðir aftur og aftur þegar þotur af gerðinni Mig-28 voru hæfðar með tilheyrandi sprengingu. Leiknar kvikmyndir eru fake, líka þegar kemur að samskiptum kynjanna og flestir gera sér grein fyrir því.
Helgi Viðar Hilmarsson, 22.5.2022 kl. 17:47
Málið með þennan dúdda hjá vísir.is er að hann er ekki kvikmyndagagnrýnir heldur flækist hann sífellt í eigin hugsjónum þegar kemur að umfjöllun hans um kvikmymdir og sjónvarpsþætti. Innantómur gasprari sem er til lengdar frekar þreytandi fábjáni.
Bjarni (IP-tala skráð) 22.5.2022 kl. 18:35
"Top Gun" er ágæt ræma ef maður er 10 ára. Þegar maður eldist sér maður að "the Great Waldo Pepper" er miklu betri. Mæli líka með "the Blue Max."
Sýnist að kvikmindagagnrýnandi vísis sé í einhverri annarri vídd en við. Ekki viss um að hann myndi fíla "Waldo pepper."
Ásgrímur Hartmannsson, 22.5.2022 kl. 21:38
Top Gun var frábær kvikmynd á sínum tíma. Góð tónlist, kvikmyndataka, flottar senur, smá tilfinninga-rússibani, og flottar hátæknivélar. Myndin var afþreying og skemmtun.
Að setja upp kynja (og etv trans) gleraugu 2022 og dæma myndina (sem gerð var 1986) út frá því er sennilega bara kjánalegt. Er samfélag dagsins í dag eithvað betra en það var árið 1986? Hvernig myndi fólk frá þeim tíma dæma fólk í dag?
booboo , 23.5.2022 kl. 15:19
booboo,
Ég myndi segja að samfélagið í dag sé að mörgu leyti betra en að öðru leyti á leit til fjandans. Ég held að margir kvenmenn sakni gamla karlmannsins sem taldi hlutverk sitt í lífinu fyrst og fremst vera að sjá um, passa upp á og verja fjölskyldu sína, og svo eru það aðrir kvenmenn sem upplifðu að vera klipnar í rassinn, áreittar og niðurlægðar og sakna karlmennskunnar í þeirri minningu ekkert og fagna vitunarvakningu um slíka hegðun - nokkuð sem ég tek alveg undir á meðan sú vitungarvakning snýst ekki um það eitt að henda innistæðulausum ásökunum út í loftið og fá ógagnrýninn meðbyr með slíku.
Ég held að í Bandaríkjunum séu ungar keppnisstelpur í sundi ekkert sérstaklega ánægðar með að keppa við einstaklinga sem að öllu leyti eru líkamlegir karlmenn. Ég held að kvenkyns fangar séu ekki hrifnir af því að deila klefa með einstaklingum með reður sem nauðga og barna klefafélaga sína. Ég held að norskar konur séu ekkert alltof hrifnar af því að sjá typpi í kvennaklefanum. Ég held að það sé lítill ávinningur í því að fullorðinn maður geti "skilgreint" sig sem unga stelpu og fengið athygli og jafnvel pening út á það.
En hey, ekkert af þessu er nálægt mínu daglega lífi, sem betur fer. Ég er að vinna með ungum Maverick og kvenfólki sem bölvar umgengni karlmanna á ókyngreindu klósettunum á vinnustaðnum. Allt eins og það á að vera.
Geir Ágústsson, 23.5.2022 kl. 17:15
Já, ég er sammála að margt sé betra í dag en í den (1986). Til dæmis þessi ágengni karlmanna (sem var)held ég að sé að mestu leyti orðinn fortíð.
Ruglið í nútíma samfélagi er hinsvegar orðið svakalegt. Ef að fólk frá 1986 hefði getað horft í krystals-kúlu og séð allt sem er í dag þá held ég að þau myndu ekki trúa það væri í gangi.
Nokkur atriði: Transruglið, kyn"fræðsla" fyrir börn í skóla, propaganda af ýmsu tagi, ofurvöld lyfjaiðnaðarins,yfirtaka auðmanna á alþjóðastofnunum, hergagnaiðnaðurinn lifir góðu lífi, fólk í æðstu valdastöðum heimsins sem eru auðsjáanlega óhæf til starfanna, "háskóla"menntað fólk sem getur ekki hugsað gagnrýnið, ... þessi listi er alls ekki tæmandi.
booboo , 24.5.2022 kl. 11:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.