Á vappi með veiruna

Í svolítilli frétt á visir.is segir af ungu íslensku pari sem er nýflutt til Kaupmannahafnar. Fréttin er góð samantekt á öllu því sem er að í sóttvarnarmálum almennt og sérstaklega á Íslandi.

Hið unga par greindist nýlega með COVID-19 og fékk einhver ruglingsleg símtöl frá yfirvöldum en að lokum réttar upplýsingar og situr nú í sóttkví samkvæmt leiðbeiningum yfirvalda. Sem betur fer, því „ef við hefðum ekki fengið þetta seinna sím­tal sem kom fyrir slysni þá værum við bara á vappi um göturnar held ég,“ með veirueinkenni, að sögn hins unga manns.

Það þurfti sem sagt símtal frá yfirvöldum til að halda hinu unga pari innandyra á meðan það er lasið.

Mér var kennt sem krakka að maður eigi ekki að labba um með hósta og hor og mæta í skóla eða vinnu og smita út frá sér. Gildir það um kvef og flensu og er auðveldlega heimfært upp á aðrar bakteríur og veirur. Það á ekki að þurfa símtal frá ríkisvaldinu til að segja fólki að halda sér heima ef það veit af veikindum í andadrætti sínum. En svona er búið að heilaþvo okkur. Flensa? Ekkert mál, ég skelli mér í búðina því yfirvöld eru ekki búin að hringja í mig. En ef ríkisvaldið hringir í mig og biður mig um að jafna mig á veikindum þá fer ég auðvitað ekkert. Þá hef ég vit á því að halda mér heima. Eða réttara sagt: Þá er búið að hafa vit fyrir mér.

Síðan segir í fréttinni:

Hér á Ís­landi er líka mun betra eftir­lit með fólki í ein­angrun; það er reglu­lega hringt í þá sem eru smitaðir af læknum Co­vid-göngu­deildarinnar og til að losna úr ein­angrun þarf við­komandi að hafa verið út­skrifaður úr henni með sím­tali frá lækni.

Er skrýtið að spítalinn sé hreinlega að drukkna úr álagi þegar honum er gert að hringja í fullorðið fólk frá morgni til kvölds og athuga hvort það sé nú nokkuð á vappi utandyra? Nú fyrir utan að vel er fylgst með viðkomandi af nágrönnunum sem siga lögregluna á þessa bansettu sóttkvíardólga, ekki satt? Nema lögreglan ákveði auðvitað upp á sitt einsdæmi að kíkja inn um gluggann hjá þér.

Loks vil ég nú meina að Íslendingar ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur af ástandinu í Danmörku. Það er bara nokkuð gott. Í kringum 1000 smit á dag síðan í vor (sem svarar til um 65 smita á dag miðað við íslenska höfðatölu) og ekkert að gera á sjúkrahúsunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband