Fimmtudagur, 3. júní 2021
Skoðanakönnun sem skilur eftir fleiri spurningar en svör
40% svarenda í nýrri könnun MMR leist mjög eða frekar vel á framkomnar hugmyndir um Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. 34% leist mjög eða frekar illa á þær. Jæja, lofar góðu fyrir talsmenn Borgarlínu, en bíddu nú við! 65 prósent svarenda sögðust mjög eða frekar andvíg fækkun akreina á Suðurlandsbraut fyrir bíla úr fjórum í tvær til að rýmka fyrir uppbyggingu Borgarlínunnar. Er það ekki eitt af aðalatriðum framkominna hugmynda um Borgarlínu? Jú, mikil ósköp.
Hérna hefði verið áhugavert að sjá hvort 40% hópurinn sé hlynntur fækkun akreina, andvígur eða hlutlaus.
Einnig hefði verið áhugavert að spyrja viðmælendur um bílaeign þeirra. Er 40% hópurinn bíllaus að megninu til eða hvað?
Eins kemur ekkert fram um hverfi viðmælenda. Meðaltalið 40% gæti þýtt 70% í miðbænum og 10% í úthverfunum. Skiptir það engu máli?
Ég tek fram að ég hef ekkert á móti hópferðarbílum sem keyra ákveðnar leiðir á ákveðnum tímum, hvort sem þær heita strætó, rútur, flugrútur, lestir eða sporvagnar (og þá helst á kostnað notenda þeirra en ekki annarra). Fátt er notalegra en að verða keyrður frá A til B og geta nýtt tímann í eitthvað annað en að skipta um gíra og reyna forðast dauðann.
En þetta er bara ekki val fyrir alla. Alls ekki. Og meðaltalið fyrir mörg ólík svæði segir nákvæmlega ekkert. Hæfileg sundurliðun er því miður dýrari í framkvæmd en já/nei spurningarnar og því sjaldgæf, en þegar hún er framkvæmd er hún mjög upplýsandi.
Takk fyrir viðleitnina, MMR, en þið þurfið því miður að prófa aftur.
![]() |
40% leist vel á Borgarlínuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:39 | Facebook
Athugasemdir
Oftast eru svona kannanir fyrir fram pantaðar og greiddar
af þeim sem vilja sjá útkomuna sín meginn.
MMR tekur það ekkert upp að sjálfu sér að gera svona
skoðanakönnun nema fá greitt fyrir.
Sigurður Kristján Hjaltested, 3.6.2021 kl. 09:50
Það má vel vera, en eftir stendur að þrátt fyrir lúðraþyt og endalausa umfjöllun, loforð um minni umferð og greiðari samgöngur, svimandi kostnaðaráætlanir og litríka bæklinga þá styður ekki einu sinni helmingur borgarbúa, að meðaltali, áformin, og sennilega er miklu minni stuðningur í úthverfunum en miðbænum.
Geir Ágústsson, 3.6.2021 kl. 10:22
Ég mundi ekki treysta mér til að svara svona könnun því ég veit ekki nákvæmlega hvað felst í þessari Borgarlínu
Fyrir síðustu kosning það var það Miklabraut í stokk strax - ekkert gerst.
Forgangsakreinar fyrir strætó virðast ekki skila fleirum í strætó þó þeir bruni þar farmhjá bílalestinni á margföldum hámarkshraða.
Grímur Kjartansson, 3.6.2021 kl. 10:52
Halldór endurbirtir grein sem var skrifuð í Moggann í dag um þessa könnun:
https://halldorjonsson.blog.is/blog/halldorjonsson/entry/2265504/
Þar kemur fram að meiri andstæða er í úthverfum og jafnvel ekki lengra en í Árbæ. Þar kemur líka fram að þeir sem eru hlyntir eru líklegri til að hjóla eða ganga í vinnu, svo spurningin er hvort þeir noti þessi línu yfir höfuð.
Grímur skortur á aukningu í strætó er að enginn spyr hvort strætó henti farþegum þangað sem þeir eru að fara. Sérakrein á miklubraut hjálpar ekki börnum í úthverfum að komast á æfingar (sem líklega verða keyrð vegna þess að strætó hentar ekki).
Rúnar Már Bragason, 3.6.2021 kl. 12:09
Rúnar,
Takk fyrir þessa ábendingu. Könnun áhugahópsins Samgöngur fyrir alla tók til greina aldur og búsetu og það styður bara við það sem ég hef sagt: Áhuginn er mismikill eftir ýmsum samfélagshópum.
Athyglisvert er hversu mikill munur er á tölunum "hlynntur/andvígur" eftir ekki lengri tíma á milli skoðanakannana. Orðavalið skiptir greinilega miklu máli og þeir kostir sem boðið er upp á. Eftir stendur að engum tekst að kreista út meirihlutastuðning við Borgarlínu, óháð orðalagi.
Geir Ágústsson, 3.6.2021 kl. 12:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.