Mánudagur, 1. mars 2021
Á meðan í Danmörku
Veirutímar í Danmörku eru að taka á sig furðulega ásýnd. Fyrir jól var lokað á meira og minna allt og síðan þá er enn lokað á ýmislegt og verður fram yfir páska, svo sem að fara í klippingu sem hefur ekki verið rakið til eins einasta smits.
En skítt með það. Hárprúðir geta snoðað sig eða safnað í eitthvað hippalegt.
Það eru þeir sem deyja vegna óbeinna afleiðinga sóttvarnaraðgerða eða missa lífsviðurværi sitt sem eru hin raunverulegu fórnarlömb.
Danski fjölmiðillinn BT er með tvær nýlegar fréttir um þessar hliðar hins (nánast) veirulausa samfélags.
Í fréttinni Kræftpatient rystet over statsministeren: "Jeg er stiktosset" (krabbameinssjúklingur hneykslaður á forsætisráðherra: "Ég er brjáluð") er sagt frá nokkrum einstaklingum sem sitja nú við dauðans dyr, eða skriðnir yfir þær, því veiran lokaði á aðgang þeirra að heilbrigðiskerfinu. Það var ekki áætlun yfirvalda, auðvitað, en bara framkvæmdin.
Þeirra örlög rata ekki inn í "smit" línuritin, sem virðast vera eina stjórntækið.
Í fréttinni Mette Frederiksen til 37-årige Edel: "Jeg beklager det er ikke godt nok" (MF segir til hinnar 37 ára gömlu Edel: "Afsakið - þetta er ekki nógu gott") er sagt frá sjálfstæðum atvinnurekanda, hárgreiðslukonu, sem er búinn að steypa sér í djúpar persónulegar skuldir og komin í þrot vegna sviksemi yfirvalda í greiðslum á bótum vegna þvingaðra lokana. Þetta var ekki áætlun yfirvalda, auðvitað, en bara framkvæmdin.
Þeirra örlög rata ekki inn í "smit" línuritin, sem virðast vera eina stjórntækið.
Er búið að rekja smit til veikra einstaklinga sem leita að læknisaðstoð vegna gruns um krabbamein og annað slíkt, sem drepur utan við tölfræði veirunnar?
Er búið að rekja smit til klippinga?
Og úr því ég er að spyrja spurninga:
- Var ekki ætlunin að koma í veg fyrir yfirhlaðið heilbrigðiskerfi frekar en að gera það alveg veirulaust?
- Var ekki ætlunin að halda út í nokkrar vikur frekar en heilt ár og jafnvel annað til?
- Var ekki ætlunin að verja ákveðna hópa, en ekki skola námsfólki úr námi og heilbrigt fólk úr störfum sínum?
- Var ekki lagt upp með allt þetta ævintýri á forsendum sem hafa verið traðkaðar í svaðið?
- Er "betra" að horfa upp á aðstandanda deyja hægum dauðdaga vegna seinkunar á krabbameinsskimun og -meðferð en vegna loftborinnar veiru sem fyrir langflesta hópa er skaðminni en flensan?
Þetta glapræði verður að stoppa. Kannski borgaraleg óhlýðni sé orðið eina úrræðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.