Eru sígarettur kannski bara bestar?

Ég man vel eftir því þegar sígarettureykingar voru Stóra Vandamálið. Margir reyktu, sérstaklega á djamminu, og reyktu hvar sem er: Á heimilum, skemmtistöðum, veitingastöðum. Þetta þótti ekki nógu gott. Valkostirnir voru hræðilegir: Plástrar og bragðvont tyggjó. Þeir voru líka rándýrir.

Svo fór að draga úr þessu af ýmsum ástæðum og menn fögnuðu í augnablik, en nei bíddu nú við - nú er unga fólkið bara að troða í vörina í staðinn! Eins og Svíarnir! Og rafsígarettur senda röng skilaboð! 

Þá komu nikótínpúðarnir fram. Enn dró úr reykingum. Þessir púðar eru æði: Bragðgóðir, litlir og nettir. Ég nota þá reglulega - kannski 3-4 poka á dag, og rafsígarettuna þess á milli. Ég þekki þónokkra kvenmenn sem reyktu áður en nota púða núna, og auðvitað enn fleiri karlmenn. Ég sakna þess alls ekki að reykja sígarettur af mörgum ástæðum: Fjárhagslegum, heilsufarslegum og svo er auðvitað gott að vera laus við lyktina af fötunum og á puttunum.

Auðvitað er ég háður nikótíni en hvað með það? Er það verra en að sækjast í beikon og smjör, eða kók og sælgæti? Kannski miklu betra, t.d. fyrir gigtarsjúklinga. Ef nikótín væri ekki ávanabindandi væri búið að framleiða fjölda lyfja úr efninu því það hefur víst mörg heilsubætandi áhrif, ef einhverjum finnst það vera huggun í harmi.

Blaðamaður er á öðru máli. Honum tókst á einhvern undraverðan hátt að finna fullorðinn karlmann sem kvartar eins og ungabarn yfir gríðarlegri notkun sinni á nikótínpúðum. Sennilega á það að vekja upp einhver hughrif. Púðarnir verða samt að vera aðgengilegir á hógværi verði. Annars leitar fólk bara í aðrar leiðir til að fá sitt nikótín, t.d. sígarettur. Er það betra? Eða eru menn búnir að gleyma sigurvímunni þegar þeir sem reyktu daglega urðu færri en 20% þjóðarinnar? Var það ekki sigurinn - tjörueitrun á lungum fólks? Á að tapa honum niður?

Eða er ætlunin að færa glæpamönnum þennan markað?

Látið rafretturnar og púðana í friði, kæru stjórnmálamenn.


mbl.is Rosaleg fráhvörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband