Gamla fólkið

Yfirleitt, þegar veira fer á stjá, þá fer hún á flug. Enginn er með ónæmi og allir móttækilegir. Veiran er loftborin og hoppar á milli og nær til allra. Sem betur fer eru flestir samt hraustir og þeir sem eru það ekki fara til læknis. Sumir hafa farið í bólusetningu en það flýtir bara ferli sem annars hefði átt sér stað. Samfélagið byggir smátt og smátt upp ónæmi, með eða án bóluefnis. Veiran hættir að rekast á móttækileg fórnarlömb og deyr út. Aftur verður óhætt að heimsækja ömmu á elliheimilið. Þar á bæ var veirutímabilið tímabil færri heimsókna en ella.

Nú blasa aðrar aðstæður við.

Með takmörkunum er búið að hægja á útbreiðslu ónæmis. Eftir marga mánuði af veirutíma er veiran ennþá frekar auðveldlega að finna móttækilega einstaklinga. Varnarveggurinn á milli veiru og þeirra öldruðu er minni og stopulli en á hefðbundnu veirutímabili. Líkurnar á að veiran nái til þeirra eldri eru miklu meiri en venjulega. Veiran bíður róleg eftir tækifæri sínu. Hún ætlar sér inn á elliheimilin og henni hefur verið gert auðveldar fyrir.

Í stuttu máli: Vegna þess hvað er búið að ganga vel að fletja út ónæmi er hugsanlega verið að hámarka fjölda þeirra af elstu kynslóðunum sem munu fá í sig veiruna. Verið er að hámarka fjölda dauðsfalla vegna veiru með því að lágmarka fjölda þeirra sem smitast.

Um þetta eru til ritrýndar greinar sem ég mun finna og tengja á.

Nú þegar sóttvarnarlæknir talar um glapræði þá er rétt að benda á að það er glapræði að búa ekki til almennilegan varnarvegg sem skýlir okkar elstu meðborgurum frá veiru sem er hættuleg þeim en fæstum öðrum.


mbl.is Miklar tilslakanir núna væru „glapræði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Starfsfólk á Landakoti og stjórnendur spítalans fá að kenna á reiði almennings vegna hópsmitsins sem þar kom upp.

En í raun og veru er það þríeykið sem ber ábyrgðina. Það er nefnlega svo að þegar fókusinn er settur á það sem ekki skiptir máli líður það sem skiptir máli fyrir það. Hugsum okkur að fókusinn hefði frá upphafi verið á að verja viðkvæmustu hópana. Er ekki líklegt að þá hefði það fólk til dæmis ekki verið haft í húsnæði þar sem erfitt er að koma við sóttvörnum? Er ekki líklegt að þá hefði tíðum skimunum verið beitt á starfsmenn, samið við þá um að þeir störfuðu ekki utan spítalans í umhverfi þar sem smithætta er mikil og héldu sig til hlés í félagslífi, vitanlega gegn rausnarlegu álagi á laun? Er ekki líklegt að þá hefði þess verið gætt að hafa nóg af starfsfólki til að viðhafa mætti hólfaskiptingu? Er ekki líklegt að þá hefði verklag verið skýrt, til dæmis varðandi það að senda ekki smitaða sjúklinga á stofnanir úti á landi? Er ekki líklegt að þess hefði verið gætt vel og vandlega að smitaðir gestir færu ekki inn á stofnunina og þangað færi enginn nema með grímu og hanska?

Allt þetta og meira til hefði án vafa verið gert ef fókusinn hefði verið á réttum stað. Því fókus skiptir öllu máli. Ef hann er ekki til staðar er eiginlega tryggt að árangur næst ekki.

Ábyrgð hins dáða og orðum prýdda þríeykis er mikil.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2020 kl. 18:24

2 identicon

Yfirleitt, þegar veira fer á stjá, þá fer hún á flug ef ekkert er gert til að takmarka útbreiðslu hennar. Við sumum smitandi pestum er brugðist hratt við og útbreiðsla útilokuð, samanber svartadauðatilfellin sem eru nokkur á hverju ári, berklar, miltisbrandur, Ebóla, Marburg, SARS, MERS og bólusótt. Sé þekkt sjúkdómsvaldandi veira alvarlegri en kvef þá eru margir ónæmi vegna bólusetninga og flestir í viðkvæmum hópum hafa verið bólusettir. Þar að auki þá eru yfirleitt til lyf sem vinna á veirunni hjá þeim sem veikjast samt. Þannig er það yfirleitt. Enda fá alvarlegri vírusar en flensuvírusinn yfirleitt ekki að fara á flug.

Nú blasa aðrar aðstæður við.

Veiran óþekkt, bráðsmitandi og orðin útbreidd. Enginn er bólusettur, enginn var ónæmur og ekkert lyf er enn til sem vinnur á veirunni. Við það má bæta að veiran er banvænni en flestar veirurnar sem við þekkjum og berjumst yfirleitt við. Með takmörkunum, sem enn er eina vörn okkar, er búið að hægja á útbreiðslu veirunnar meðan varnir eins og lyf og bóluefni eru í þróun. Með takmörkunum er búið að koma í veg fyrir hundruð dauðsfalla hér.

Í stuttu máli: Vegna þess hvað er búið að ganga vel að takmarka útbreiðslu veirunnar er búið að hámarka fjölda þeirra af öllum kynslóðunum sem munu lifa það að sjá annað ár. Verið er að lágmarka fjölda dauðsfalla með því að lágmarka fjölda þeirra sem smitast meðan engar varnir eru til aðrar en sóttvarnaraðgerðir.

Nú þegar sóttvarnarlæknir talar um glapræði þá er rétt að benda á að það er ómögulegt að búa til almennilegan varnarvegg sem aðeins skýlir okkar elstu meðborgurum frá veiru sem er hættuleg öllum en þeim hættulegust. Við höfum enga aldurshópa eða starfsstéttir sem ekki geta smitað aðra. Við höfum enga eyju sem við getum smalað gamla fólkinu á. Engar einangrunarbúðir varðar gaddavír og jarðsprengjum, lokað og læst. Gamla fólkið þarf þjónustu, býr á ýmiskonar stofnunum, íbúðum þeim ætluðum, einbýli, fjölbýli, leiguhúsnæði og eigin húsnæði út um allt. Eina raunheima vörnin er takmörkun á útbreiðslu í öllum aldurshópum og lágmörkun á smithættu í þjóðfélaginu.

Vagn (IP-tala skráð) 28.11.2020 kl. 20:27

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er búið að halda veirunni í skefjum. Um leið er búið að snúa algerlega við þeirri þróun í átt frá sárafátækt sem staðið hafði árum saman. Það er búið að varpa á annað hundrað milljón manns niður fyrir hungurmörkin.

Af hverju er ómögulegt að skýla elstu borgurunum? Útskýrðu hvers vegna ekki er "hægt" að grípa til þeirra ráðstafana sem ég lýsi í athugasemd minni hér að ofan.

Því staðreyndin er að það er vel hægt. En þegar skynsamlegum ábendingum er mætt með þvermóðsku einni saman, lygum og undanbrögðum, líkt og þríeykið svonefnda beitir, þá er vitanlega ekkert hægt. Og hvað á þá að gera? Það er einfalt. Losa sig við óhæft starfsfólk og fá nýtt og betra starfsfólk sem ræður við verkefni sín en er ekki latt, hugmyndasnautt, heimskt og siðlaust.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.11.2020 kl. 20:53

4 identicon

Fjöldi hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma 2019 á öllu landinu voru 3807 en aldraðir um 50.000. Gamla fólkið, og aðrir í áhættuhópum, býr ekki allt á sama stað. Þetta er ekki lítill hópur sem hægt er að pakka saman með nokkrum starfsmönnum og einangra frá þjóðfélaginu. Í vor veiktist og dó gamalt fólk þó stofnanir væru lokaðar og smitlausar.

Síðan eru þeir sem lenda í sama áhættuhóp og aldraðir. Hjartveikir, fólk í yfirþyngd, fólk með astma, sykursýki, krabbamein og fólk með háan blóðþrýsting.  Líffæraþegar eru í áhættuhóp og meðganga setur konur í áhættuhóp. Þetta er heldur ekki lítill hópur og honum fylgja makar og börn.

Fjöldi hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrýma 2019 á öllu landinu voru 3807, hótelherbergi um 10.000 og hátt í 100.000 sem þyrfti að einangra eftir þinni uppskrift. Flestir sjá að dæmið er langt frá því að geta gengið upp.

Það er ekki ómögulegt að skýla þeim sem helst eru í hættu. En það er bara gert með öflugum sóttvörnum um allt þjóðfélagið, því þar eru hinir öldruðu og viðkvæmu.

Vagn (IP-tala skráð) 28.11.2020 kl. 22:10

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Skv. Hagstofu Íslands eru ALLS 35500 einstaklingar á Íslandi 70 ára og eldri. Er verið að halda því fram að vernd þessa fólks, eða þeirra meðal þessa fólks sem yfirleitt óska eftir því að vera sérstaklega verndaðir, sé ómöguleg án þess að framlengja veirutímabilið til eilífðar og fletja úr hagkerfið og samfélagið?

Geir Ágústsson, 29.11.2020 kl. 09:16

6 Smámynd: Grímur Kjartansson

Eru til einhverjar opinberar tölur um aukningu á sjálfsmorðum á Íslandi?

In Japan, more people died from suicide last month than from Covid in all of 2020 - CNN

Grímur Kjartansson, 29.11.2020 kl. 12:33

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Já, en þær ríma ekki allar saman.

"Alma Möller landlæknir hefur áhyggjur af tölum sem gefa til kynna fjölgun sjálfsvíga í kórónuveirufaldrinum. Þeim áhyggjum deilir hún með mörgum þeim stofnunum og samtökum sem vinna með sjálfsvíg og sjálfsskaða. ... Vísbendingar eru um að sjálfsvígstilfellum hér á landi hafi fjölgað um 67 prósent frá því í fyrra."

https://www.man.is/frettir/alma-hefur-ahyggjur-af-fjolgun-sjalfsviga-ymis-teikn-a-lofti-um-sorglega-stodu/

"Fjöldi sjálfsvíga fyrstu sex mánuði ársins 2020 var 18, eða 4,9 á hverja 100.000 íbúa. Þessar tölur samræmast tölum fyrri ára en meðalfjöldi sjálfsvíga fyrstu 6 mánuði áranna 2015-2019 var 18, eða 5,2 á hverja 100.000 íbúa. Ekki er heldur mikil breyting sé litið til tíu ára meðaltals áranna 2010-2019."

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item43681/sjalfsvig-januar-juni-2020

Svo á meðan landlæknir er áhyggjufullur og kallar til skyndifunda þá endar opinbera lesefnið á því að segja allt sé í ljómandi sóma.

Hér eru ekki öll kurl komin til grafar, og sérstaklega ekki eftir því skammdegið og atvinnuleysið magnast upp, samhliða áframhaldandi fletjun samfélagsins þar sem stefnir í að ástvinum verði frá fjölskyldum sínum yfir jólin. (Sem dæmi má nefna að mín stórfjölskylda í föðurætt þorir ekki að hittast á jóladag eins og undanfarna áratugi.)

Geir Ágústsson, 29.11.2020 kl. 13:58

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Raunar lyktar eitthvað af því hér að einhver sé að lesa einhver gögn vitlaust.

"Tölur lögreglunnar sýna að það hafa 30 einstaklingar svipt sig lífi á meðan þeir voru 18 talsins samkvæmt skráningu lögreglu á sama tíma í fyrra."

https://www.man.is/frettir/skelfilegar-tolur-fra-logreglu-sjalfsvigum-snarfjolgar-i-covid-faraldri/

"Fjöldi sjálfsvíga fyrstu sex mánuði ársins 2020 var 18 ..."

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item43681/sjalfsvig-januar-juni-2020

Var fjölda sjálfsvíga í bráðabirgðatölum lögreglu fyrir jan.-jún. oftaldur um heila 12 einstaklinga og endaði fyrir tilviljun á tölu ársins 2019?

Eða las embættismaður Landlæknis óvart jan.-jún. tölu 2019 og taldi gilda fyrir 2020?

Eða var blaðamaður úti á þekju?

Geir Ágústsson, 29.11.2020 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband