Stjórnmál án hugsjóna

Viðskiptablaðið spyr góðrar spurningar:

Höfum það í huga að sá sem lagði fram frumvarp til laga um tryggingagjald árið 1990 var Ólafur Ragnar Grímsson. Í dag er gjaldið 70-80% hærra en það var þegar Ólafur lagði frumvarpið fram. Eins og einhverjir muna fékk Ólafur viðurnefnið Skattman. Hvað eigum við að kalla þá sem nú ráða?

Til gamans má benda á myndbandið um Skattmann sem birtist í Áramótaskaupinu 1989, hér.

En þótt spurning Viðskiptablaðsins sé góð þá er ekki víst að það sé til svar við henni. Það er ekki einu sinni víst að stjórnmálamenn sem hækka skatta ætli sér að hækka skatta. Prósentur leggjast jú á heildir sem breytast í stærð og skattheimta breytist þannig auðvitað með stærð skattstofnsins. Þannig hefur hagvöxtur gjarnan í för með sér aukna skattheimtu jafnvel þótt skatthlutföll lækki eitthvað. Skattafrádrættir fara að vega minna. Niðurstaðan verður því jafnvel sú að lækkandi skatthlutföll í umhverfi efnahagsuppgangs geti aukið þá hlutdeild í verðmætasköpun samfélags sem hið opinbera - ríki og sveitarfélög - gleypir í gin sitt.

En hvernig stendur á því að skattheimta virðist sífellt klífa upp á við, samhliða vaxandi ríkisafskiptum, án þess að það sé beinlínis stefna neins nema hörðustu vinstrimanna?

Í frægri bók, Our Enemy, the State, reynir höfundur, Albert Jay Nock, að svara því hvernig ríkisvaldið heldur áfram að þenjast út jafnvel þótt það sé ekki endilega sjálfstætt markmið neins. Hitler, Stalín, Mussolini og ýmsir stjórnmálaheimspekingar lýstu því yfir að ríkisvaldið væri æðsta valdið sem ætti að ráða. Þetta segir enginn í dag en samt virðist raunin vera sú, í vaxandi mæli. Hvað má skrifa þetta á?

Nock leggur það til að ástæðan sé kannski sú að enginn hafi neinar hugsjónir. Menn eru einfaldlega farþegar á bát sem lætur strauminn bera sig áfram. Enginn reynir að synda í hina áttina. Ríkisvaldið er jú bara samansafn sífjölgandi svokallaðra jákvæðra réttinda sem sé í eðli sínu allt annað ríkisvald en heimspekingar frjálslyndisstefnunnar á 18. og 19. öld töldu heillavænlegast - ríkisvald sem eingöngu framfylgir svokölluðum neikvæðum réttindum.

Þurfa stjórnmálamenn ekki á ný að byrja tileinka sér hugsjónir og hugleiða hvert hlutverk ríkisvaldins eigi í raun að vera, í stað þess að sigla bara eins og rekaldin á straumum tískunnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband