Sunnudagur, 27. september 2020
Milljón leiðir til að safna milljón
Þegar eignaréttur, samúð, viljinn til að láta gott af sér leiða og tæknin renna í sama spor gerast margir góðir hlutir.
Nýlega var mér t.d. bent á þjónustuna DonoreSee. Stutta útgáfan af söluræðunni er hér.
Okkur er sagt að við þurfum að hafa velferðarkerfi. Það kostar sitt, sérstaklega í stjórnsýslukostnaði. Er það ekki úrelt fyrirkomulag? Sé það rétt sem talsmenn velferðarkerfsins segja - að fólk vilji hjálpa þeim í neyð - þá er hægðarleikur að miðla þörfum og gjöfum. Það hefur verið hægðarleikur í áratugi (samanber SOS þorpin) en tæknin hefur gert það að enn auðveldara. Þú gætir jafnvel horft á lifandi myndband af viðtakanda taka við þínum dollar!
Kannski sumir séu enn á því að peningasendingar til íslensks stjórnmálamanns séu vænlegasta leiðin til að hjálpa fátækum nágranna eða hungruðu barni í öðru ríki. En ég er efnis.
89 ára pítsusendill fékk 1.6 milljón í þjórfé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er mjög göfugmannlegt þjóðfélagskerfi þegar ríkar fjölskyldur sjá um fátækari þegna landsins í staðinn fyrir ríkið. Það kallar nefnilega á innbyggða samúð, allt öðruvísi samúð en þessa þröngvuðu og skylduðu samúð sem við þekkjum í dag, að félagslegt taumhald hvíslar því að okkur að við séum ekki góða fólkið ef við ekki gerum hitt og þetta í anda jafnaðarþjóðfélagsins sem er heilög kýr nútímans víða.
Þegar menn tala digurbarkalega um góðmennsku nútímafólks gleymist að kóngar og ríkar ættir sáu um marga sem ekki gátu framfleytt sér hér áður. Þá var það að vísu algengara að fólki var hent útá guð og gaddinn. En áhugaverð pæling.
Ég held því alla vega fram að betra sé að fólk finni sjálft hjá sér hvötina til að halda uppi fátæklingum, og sérstaklega ef það er margfalt ríkara en þeir fátækustu. Það segir sig sjálft að ef ekkert ríki væri fyrir hendi yrðu forríkar fjölskyldur að taka að sér slíkar skyldur í samfélaginu.
Nútíminn hefur líka misst annað atriði úr jöfnunni, að þegar trúðar og skemmtikraftar unnu fyrir brauði sínu með list sinni við konungshirðirnar gáfu þeir eitthvað af sér. Í dag er búið að aftengja vinnuframlagið og hjálpina í mörgum tilfellum. Aldraðir og öryrkjar geta og vilja oft eitthvað vinna, bara mismikið.
Ég ólst upp á heimili þar sem kristna trúin kenndi að sælla væri að gefa en að þiggja. Trúleysingjarnir sem kallast góða fólkið setja sig í spor reiðra presta. Já, það er áhugaverð pæling hvort ekki megi hugsa margt uppá nýtt. Góðmennskan getur verið allskonar.
Ingólfur Sigurðsson, 28.9.2020 kl. 06:21
Ingólfur,
Takk fyrir hugleiðingar þínar.
Þú nefnir trú en hún getur skipt miklu máli við þróun samfélags. Við búum t.d. við "kristin, vestræn gildi" eða hvernig það er orðað, og þau eru frábrugðin t.d. íslömskum gildum, gildum hindúa og gildum frumbyggja í frumskógum Suður-Ameríku. Eru ein gildi betri en önnur? Það þarf hver að gera upp við sig, en þegar við ýtum hinum kristnu, vestrænu til hliðar, hvað kemur þá í staðinn? Eitthvað betra eða eitthvað verra?
En trúarsamfélög geta, þegar þau eru virk og virt, skipt miklu máli. Ég las t.d. um eitt slíkt einhvers staðar í Bandaríkjunum þar sem mikið kapp var lagt á að hjálpa þeim sem þurftu hjálp, en ekki lengur en nauðsynlegt krefðist og alltaf fyrir frjáls framlög safnaðarmeðlima. Að vera upp á aðra kominn að ástæðulausu er álitin skömm.
Þannig var það einu sinni á Íslandi. En kannski ekki lengur?
Geir Ágústsson, 28.9.2020 kl. 06:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.