Fimmtudagur, 10. september 2020
Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum
Orkuskipti í samgöngum eru forsenda þess að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum samkvæmt Parísarsamningunum. Markmið stjórnvalda miða að því að minnka útblástur frá samgöngum á landi um 37%, miðað við árið 2018, fyrir árið 2030.
Og hvernig á að gera það?
Kannski með sama hætti og mannkynið hefur alltaf unnið, þegar hvatarnir eru til staðar: Fyrst þarf bara orku - einhverja orku. Svo þarf hún að menga minna. Um leið þarf hún að verða hagkvæm og skilvirk. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að endalaus orkuskipti hafa átt sér stað seinustu aldir, og eiga sér stað í sífellu: Mykju- og móbruni verður trjábruni sem verður kolabruni og loks gas- og olíubruni, hreinsibúnaðurinn batnar og nýtnin eykst.
Með þessum hætti hefur t.d. íslenska útgerðin stórminnkað útblástur sinn seinustu áratugi, og það án alþjóðlegra skuldbindinga á herðar skattgreiðenda, því hún hefur einfaldlega stefnt að aukinni hagkvæmni. Og bílaflotinn heldur í raun áfram að blása minna og brenna betur, jafnvel þótt bílaeign hafi aukist, þökk sé kröfuhörðum neytendum sem halda framleiðendum bifreiða við efnið (hér eru Danmörk og Ísland sennilega ekki á sömu vegferð, því Danir ríghalda í ofurskattlögðu bílana sína eins lengi og þeir geta á meðan Íslendingar vilja helst vera á nýjum eða nýlegum bílum).
Útblástur frá bílum er líka ósköp lítil stærð í hinu stóra samhengi, sé útblástur á annað borð talinn áhugaverð stærð, og ef ótalin er svo mismununin í skattkerfinu sem bitnar fyrst og fremst á ökumönnum. Með því að þröngva einhverjum orkuskiptum þar í gegn er verið að eyða stórfé. Nú fyrir utan að yfirvöld hafa með engum hætti útskýrt hvernig skattkerfið sem á að fjármagna vegagerð á að breytast þegar skattfrjáls batterí koma í stað brennsluvéla. Eða jú, með fleiri sköttum!
Rafmagnsbílar og rafmagnstæki af öllu tagi eru krúttlegar græjur og nothæfar í mörgu samhengi. Ég þekki marga sem þeytast nú um á rafskútum um götur borgarinnar og láta bílinn bíða heima. Græjufíklar vilja auðvitað eiga flotta Teslu. Í stórborgum erlendis eru rafmagnsbílar sniðug leið til að færa útblásturinn frá þéttbýlinu og út í sveit eða til annarra ríkja (rafmagnsbílar í Þýskalandi draga mjög á orkuframleiðslu kolavera í Austur-Evrópu). Og það er ljóst að bílaframleiðendur eru að vinna að ýmsum nýjungum, neytendum til hagsbóta. Sem dæmi má nefna hugmyndir Hyundai um að smíða vetnisbíla sem keyra á vetni framleitt með sól og vind (nú eða bara gasi, ef því er að skipta). Það þarf mun færri afríska námuverkamenn í Afríku í slíka hugmyndafræði, sé miðað við batterísblætið.
Nú fyrir utan alla talnaleikfimina sem er notuð til að réttlæta framgang batterísins. Þar lifa margar goðsagnir um ágæti hinna og þessara svokölluðu grænu orkugjafa.
En menn virðast ætla grafa skotgrafir: Annaðhvort olía eða batterí. Annaðhvort brennsla eða hleðsla. Það er óþarfi. Og það ættu allir að hafa varann á þegar stjórnmálamenn valsa um með milljarða af fé skattgreiðenda og lofa bjartri framtíð. Allir.
Orkuskipti í samgöngum forsendan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:53 | Facebook
Athugasemdir
CO2 er ekki eini útblásturinn sem bílar gefa frá sér. Þetta sjáum við t.d. þegar við lítum út á sundin við Reykjavík á lygnum og björtum vetrardögum. Er það þó bara smáræði hjá menguninnni sem kemur frá bílaumferð í erlndum stórborgum og veldur alvarlegu heilsutjóni hjá milljónum manna.
Ekki er ég viss um að notkun rafmagnsbíla auki svo mjög brennslu á kolum, a.m.k. er áætlað að hætta allri kolabrennslu í Þýskalandi innan fárra áratuga. Batteríin hafa þann kost að þau má hlaða þegar annað álag á rafmagn er lítið, einnig er hentugt að hlaða þau með vindorku eða sólarsellum. Ókosturinn við batteríin er sá að þau eru mjög þung, en á móti kemur, að nokkru leyti, að orkunýtingin er miklu betri heldur en í bensín- eða dísilvélum.
Satt er það, framleiðsla Li-battería skapar umhverfisvandamál, einkum vinnsla á litíni. Kóbalt er líka notað í þessi batterí, það kemur víst frá Kongó en þar er það unnið, ásamt kopar, við ömurlegar aðstæður. Ástandið í koparnámunum mun víst lítið breytast þó að kóbaltvinnslan minnki. Það þarf víst öðruvísi úrbætur til þess að bæta hag verkafólksins sem þar vinnur.
Batterí í rafmagnsbíla eru sögð munu endast í tíu ár. Eftir það mætti nota þau til annara hluta í tíu ár til viðbótar, áður en þau verða endurnýtt, en auðvitað er ekki enn komin reynsla á það.
Geymsla á rafmagni hefur alltaf verið vandamál sem stöðugt er unnið við að reyna að leysa. Li-batteríin voru mikil framför. Vonandi tekst að finna upp enn þá betri og vistvænni rafgeyma í framtíðinni.
Hörður Þormar, 10.9.2020 kl. 17:50
Hörður,
Utblásturslaus umferð er vissulega aðlaðandi, en lækningin má ekki vera verri en sjúkdómurinn. Og að veðja á einn hest, í gegnum stjórnmálamenn, er galin hugmynd.
Geir Ágústsson, 10.9.2020 kl. 18:11
Geir.
Þú verður að afsaka tregan skilning minn, en ég sé ekki þennan eina hest. Er það ekki bara heilt hestastóð?
Við erum nú þegar farin að sjá margs konar farartæki, knúin batteríi með einföldum rafmótor. Þessum farartækjum á eftir að stórfjölga og fjölbreytnin að aukast. Umferðin mun gjörbreytast í næstu framtíð, göturnar munu fyllast af rafmagnsfarartækjum af ótal gerðum.
Og það kemur stjórnmálamönnum ekkert við.
þ
Hörður Þormar, 11.9.2020 kl. 00:06
Hörður,
Rafmótorar eru frábærir og eftir því sem þeir verða öflugri og ódýrari mun þeim bara fjölga. Hérna í Danmörku hef ég sé slíkan mýgrút af rafknúnum farartækjum að ég verð oft steinhissa.
Sjáðu til dæmis þetta:
http://www.urbanmotion.se/urbanmotion-elhjul.html
En rafbíll? Rafmagnsstrætó? Rafmagnsflugvél! Það þarf langa keðjuverkun af skattaafsláttum, umhverfisspjöllum í vanþróuðum ríkjum, niðurgreiðslum og opinberum styrkjum til að koma slíkum tækjum í hendur notenda. Ég sá í rafknúnum strætisvagni einu sinni að rafhlaðan í honum væri 3000 kg! Hvað er hægt að smíða marga farsíma fyrir það magn? Eða rafmagnshlaupahjól?
Ég las einu sinni að ef Bretar einir færu 100% í rafbíla þá kostaði það rúmlega allar auðlindir jarðar af einhverju hráefninu.
En rafbílar skal það heita og öllum árum róið að því: Fjölbýlishús skulu hafa hleðslustöðvar. Skattaafslættir. Áróður ofan á áróður. Það má vel vera að í tilviki Íslands sé svo hægt að hlaða þessi batterí á ónýttri vatnsfallsorku en það breytir því ekki að rafhlöður eru eldgömul uppfinning sem átti aldrei að hleypa upp í þessar stærðir sem við sjáum í dag.
Og greyið slökkviliðið. Þar er nú gripið til örþrifaráða til að bregðast við þessum rúllandi sprengjum.
Menn eru að veðja á einn hest til að draga allt hlassið: Rafhlöður.
Vetnishestarnir, metanhestarnir, kjarnorkuhestarnir og aðrir eru varla nefndir.
Og samhliða öllu þessu eru lagðar hindranir fyrir fyrirtæki eins og Uber og Lyft, sem gætu nýtt innviðina miklu betur með frumlegum lausnum. Flóran er endalaus.
Umferðartafir eru verkfræðilegt viðfangsefni en það krefst þess að menn hugsi í lausnum, öðrum en að bara hækka skatta og niðurgreiða eina tækni á kostnað annarrar.
Geir Ágústsson, 11.9.2020 kl. 06:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.