Opinbert eftirlit

Hvað gerist þegar hið opinbera treystir ekki borgurunum?

Hvað gerist þegar menn reyna að gera aðhald neytanda óþarft með því að blástimpla allt með opinberum leyfisbréfum?

Það sem gerist er að heiðarlegt fólk þjáist.

Það flækist í regluverkinu, missir lífsviðurværið og leitar á náðir bótakerfis. Það hættir að taka áhættu og því að vonast eftir verðlaunum neytenda og fer að feta þröngt einstigi regluverksins.

Sem dæmi má nefna raunir eiganda Microbar keyrir nú á bráðabirgðaleyfi eftir að hafa ekki fengið rekstrarleyfi vegna vanræktrar úttektar á 18 ára gömlum framkvæmdum sem enginn getur sagt frá lengur.

En eflaust eru dæmi fleiri. Og raunar veit ég af dæmum um slíkt, t.d. um fiskbúð sem fæddist andvana eftir að hafa dregist inn á milli tveggja og þriggja opinberra leyfisveitenda sem sugu allt stofnféð út úr fyrirtækinu.

Einn íslenskur athafnamaður orðaði róttækar breytingar á regluverkinu seinustu áratugi svohljóðandi:

Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.

Þetta er róttæk breyting. Hún er líka órökstudd. Íslensku bankarnir fóru lóðbeint á hausinn árið 2008 þrátt fyrir að hafa öll tilskilin leyfi og hafa staðist öll opinber próf. Opinber leyfi tryggja ekki gegnsoðinn kjúkling og hrein klósett. Slíkt tryggja neytendur frá degi til dags. Hið opinbera gæti sinnt eftirliti og tryggt að landslögum sé fylgt en opinber rekstrarleyfi eru gagnslaus pappír. Þetta vissu menn kannski betur einu sinni, en ekki lengur. Og opinberir starfsmenn vita að því fleiri sem eyðublöðin eru, því meira er starfsöryggi þeirra sjálfra.

En Microbar er opinn í bili þrátt fyrir vöntun á úttekt á 18 ára framkvæmdum sem enginn kannast við nema á pappír. Skál fyrir því!


mbl.is Fann ekki til sektar og hélt rekstrinum áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við Íslendingar búum í lýðræðisríki, þar sem lög eru sett af Alþingi, sem er kosið af íslensku þjóðinni, íslenskum ríkisborgurum, hvort sem þeir búa hér á Íslandi eða erlendis. cool

Reglugerðir verða að eiga sér stoð í lögum og ráðherrar verða að hafa stuðning meirihluta Alþingis.

En öfgahægrikarlarnir sætta sig ekki við lýðræðið og fátt fellur að þeirra hugmyndaheimi, þannig að þeir eru sífellt óánægðir með nánast hvaðeina.

Fjölmargir voru sakfelldir vegna brota á lögum íslenska ríkisins fyrir Hrunið hér haustið 2008 og þúsundir Íslendinga urðu gjaldþrota vegna þessara lögbrota, sem nær eingöngu voru framin af mörlenskum hægrimönnum. cool

Skuldir íslenska ríkisins, fyrirtækja og heimila stórjukust vegna frjálshyggjunnar hér á Íslandi á árunum fyrir 2009, meðal annars vegna þess að frjálshyggjumaður var forstjóri Fjármálaeftirlitsins og því lítið eftirlit með íslensku viðskiptabönkunum.

Þar að auki átti Seðlabanki Íslands lítinn gjaldeyrisforða og aðalbankastjórinn fyrir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008 var Davíð Oddsson, sem hefur ekki vit á peningum frekar en aðrir mörlenskir hægrimenn, enda urðu bæði íslensku viðskiptabankarnir og Seðlabankinn gjaldþrota og var bjargað af ríkjum í Evrópusambandinu, til að mynda Danmörku. cool

Þorsteinn Briem, 16.8.2020 kl. 18:15

2 identicon

Íslensku bankarnir fóru lóðbeint á hausinn árið 2008 þrátt fyrir að hafa öll tilskilin leyfi og hafa staðist öll opinber próf. Enda búið að draga tennurnar úr öllu regluverki og opinberu eftirliti og gera þær eftirlitstofnanir gagnslausar. Það eina sem var eftir var að senda símadömuna heim og tilkynna lokun. Markaðurinn, neytendur og samkeppnin áttu að nægja sem eftirlit sögðu bankarnir. Já, Íslensku bankarnir fóru lóðbeint á hausinn árið 2008 og afsönnuðu með því kenninguna um að eftirlit neytenda væri nóg.

Þetta er vissulega nýr tími, hér áður gátu menn opnað búllu og selt salmonellukjúklinga í saurgerlum og svo var farið yfir þetta þegar tóm gafst til. En nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin, skolplagnir lokaðar, áfengismælar ekki í undirstærð, loftræsting ekki full af ryki og skít og brunaútgangar greiðfærir.

En Microbar er opinn í bili þrátt fyrir vöntun á úttekt. Open for business, lets make some money! Skál fyrir því! Vonandi hrynur loftið ekki yfir viðskiptavinina eða einangrun í veggjum gefi ekki frá sér banvænar lofttegundir ef kviknar í. Þá munu neytendur kvarta yfir slöku eftirliti og heimta að það verði eflt og komið í veg fyrir að svona staðir fái að opna á einhverju bráðabirgðaleyfi og undanþágum. Almenningi þykir það nefnilega verra ef neytendur þurfa að
þjáist, missa starfsgetu og leita á náðir bótakerfis frekar en rekstraraðilinn.

Vagn (IP-tala skráð) 16.8.2020 kl. 19:07

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Hvað gerist þegar hið opinbera treystir ekki borgurunum?"

Við lifum það á hverjum degi.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.8.2020 kl. 20:36

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Korteri eftir færslu er Þorsteinn Briem & Vagn tvíeykið mætt. Sem er gott. Það er fylgst með.

En þeir félagar benda ekki á eitt einasta dæmi um að "hér er kerfisbundinn galli á ferð, sem þarf að grípa fyrir með breyttu regluverki".

Sem kemur ekki á óvart. Regluverkið er að breytast því það vill fylla meira. Ekki af því fólk er að æla út úr sér lungunum á illa steiktu kjöti eða drepast í bremsulausum bílum.

Geir Ágústsson, 16.8.2020 kl. 20:47

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Já, vissulega, sem er einkennilegt. Þegar vestræn ríki voru að skrifa sínar stjórnarskrár fyrir um 100 árum var andi þeirra sá að takmarka völd ríkisins. Menn höfðu í sæmilega fersku minni brjálaða konunga sem tóku sér öll völd í hendur og reyndu að skrifa sig frá slíku fyrirkomulagi. Nú áttu borgararnir að hafa eftirlit með yfirvöldum, ekki öfugt.

En svo líður tíminn og þrýstingurinn er alltaf sá að hið opinbera eykur völd sín, og röksemdafærslurnar verða frumlegri og frumlegri þar til regluverkið nær nýjum hæðum í fáránleika.

Geir Ágústsson, 17.8.2020 kl. 06:56

6 identicon

Dæmi um að "hér er kerfisbundinn galli á ferð, sem þarf að grípa fyrir með breyttu regluverki" gæti verið breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki atvinnuleysistrygginga, aðstoðar við fyrirtæki, skimanir, sóttkví og einangrun o.fl. vegna covid.

Regluverkið er að breytast. Ekki af því að fólk sé núna að æla út úr sér lungunum á salmonellusýktu kjöti eða drepa vegfarendur með bremsulausum bílum, heldur vegna þess að núna á fólk á hættu að missa vinnuna, heimili, heilsu og lífið vegna farsóttar. Og fari fjöldi fólks að æla út úr sér lungunum á salmonellusýktu kjöti eða drepa vegfarendur með bremsulausum bílum verða reglur sennilega hertar og eftirlit aukið.

"Hvað gerist þegar hið opinbera treystir ekki borgurunum?" Við lifum það á hverjum degi. En spurningin ætti frekar að vera: hvers vegna treystir hið opinbera ekki borgurunum? Á hið opinbera að treysta þeim sem við treystum ekki?

Þegar vestræn ríki voru að skrifa sínar stjórnarskrár fyrir um 100 árum var aðeins eitt ríki sem gerði borgurunum að hafa eftirlit með yfirvöldum. Þar var borgurunum tryggður réttur til að vopnast svo verjast mætti yfirvöldum færu þau að kúga þegnana. Enda eru þar völd forseta, sem ekki er kosinn beinum kosningum af þegnunum, ein þau mestu í vestrænum ríkjum og koma mjög nærri þeim völdum sem brjáluðu konungarnir höfðu.

Önnur vestræn ríki voru ekki með neinar þannig áhyggjur og settu frekar ákvæði sem komu í veg fyrir kúgun stjórnvalda með því að tvístra valdinu sem kóngarnir höfðu haft í sjálfstæða dómstóla, löggjafa og framkvæmdavald. Stjórnvöldum var einnig gert að tryggja öryggi, eignarrétt, trúfrelsi, og önnur réttindi borgaranna frekar en vopnaburð þeirra.

Vagn (IP-tala skráð) 17.8.2020 kl. 10:09

7 Smámynd: Geir Ágústsson

"Frá því að hagræðingartillögurnar 111 voru kynntar árið 2013 til og með 2018 hefur stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgað um 6%, eða rúmlega 2.100 störf (sjá Mynd 1). Hafa þau ekki verið fleiri frá því að Viðskiptaráð hóf samantekt á tölum um opinbera starfsmenn sem byggir á upplýsingum frá Fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Tölur þessara aðila fyrir árið 2019 liggja ekki fyrir. Hins vegar liggja fyrir tölur Hagstofunnar um fjölda starfandi árið 2019, sem sýna að opinberum starfsmönnum fjölgaði um liðlega 4,2% á því eina ári 2019, eða um tæplega 2.300 manns, á sama tíma og störfum á einkamarkaði fækkaði um 2,6% eða tæplega 3.900 manns."

Sameiningin sem endaði ofan í skúffu

Geir Ágústsson, 17.8.2020 kl. 12:26

8 Smámynd: Geir Ágústsson

"Ekki er deilt um nauðsyn þess að setja ákveðnar leikreglur og að skynsamlegt sé að hafa eftirlit með að þeim reglum sé fylgt (og það er ekki náttúrulögmál að allt slíkt eftirlit sé á vegum opinberrar stofnunar – ekki frekar en skoðun bifreiða). En að eftirlitsbáknið sogi til sín ígildi 240 þúsund króna frá hverri fjölskyldu á hverju einasta ári getur vart talist eðlilegt eða sanngjarnt – heldur merki um sjúkleika og sóun. Til að kóróna vitleysuna getur kerfið tekið heilu atvinnugreinarnar í gíslingu og kippt stoðunum undan rekstri."

Eftirlitsbákn sem lifir fyrir sig sjálft

Geir Ágústsson, 17.8.2020 kl. 12:56

9 Smámynd: Geir Ágústsson

"Öll viljum við að okkur sé treyst til að fara eftir lögum og reglum. Það sama gildir um fyrirtækin í landinu. Eftirlitsstofnanir mega ekki ganga út frá því að lögbrot séu eðlilegur þáttur í starfi vinnandi fólks og rekstri fyrirtækja. Þeir aðilar sem leita að vandamálum hafa nefnilega tilhneigingu til að sjá aðallega vandamál. Eftirlitsmenningin hefur litast svolítið af tortryggni en ætti miklu frekar að einkennast af trausti og gagnkvæmri virðingu fyrirtækja og stofnana. ... Kerfið ætti að vera hannað miðað við þarfir notenda þess en ekki kerfisins. Leggja ætti áherslu á samþættingu eftirlitsins, þ.e. allt sé á einum stað í stað þess að þurfa að eiga við marga ólíka aðila hins opinbera."

Eftirlitssamfélagið

Geir Ágústsson, 17.8.2020 kl. 13:16

10 identicon

Það er rétt að í lok hrunsins til og með 2018 hefur stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgað. En það er ekki það eina sem hefur breyst. Sprenging ferðamanna, gististaða, veitingastaða og afþreyingar fyrir ferðamenn ásamt mikilli fjölgun íbúa og erlendra verkamanna varð einnig á sama tíma. Og efnahagur margra sveitarfélaga sem illa fóru í hruninu batnaði og hægt var að veita meiri og betri þjónustu. 

Það er frekar billegur blekkingarleikur að setja hlutina ekki í samhengi og láta eins og ekkert annað hafi skeð. Þjóðfélagið 2018 er ekki hið sama og 2013, og fjölgun starfa hjá ríki og sveitarfélögum er hvorki eina né stærsta breytingin.

Og valdar copy/paste skoðanir einhverra gætu eins verið um það að jörðin sé flöt. Þær sanna bara að þú sækir þér skoðanir sem styðja fyrirfram innrætta skoðun frekar en að komast að niðurstöðu og mynda þér skoðun.

Vagn (IP-tala skráð) 17.8.2020 kl. 16:16

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það eru a.m.k. fleiri en ég haldnir meintum "ranghugmyndum" um útþenslu eftirlitsiðnaðar hins opinbera (dæmi: Allskyns samtök í atvinnulífinu, stjórnmálamenn, atvinnurekendur, fyrirtækjaeigendur og jafnvel venjulegt fólk sem vill byggja skúr á lóðinni sinni). Það að fleiri en einn séu á sama máli afsannar ekki málið né sannar, frekar en hitt að þótt það sé bara einn Galileo í herberginu, eða einn Peter Schiff á Youtube, þá þýðir það ekki að skoðanir viðkomandi séu rangar.

Geir Ágústsson, 17.8.2020 kl. 17:46

12 identicon

SA héldu því blákalt fram að atvinnuleysisbætur væru of háar og þ.a.l. góður kostur sem menn kepptust við að komast á. Það segir allt sem segja þarf um rökstuðningin úr þeirri áttinni! 

Karl (IP-tala skráð) 17.8.2020 kl. 23:48

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Karl,

Þetta sýna rannsóknir. Ekki skjóta sendiboðann.

Geir Ágústsson, 18.8.2020 kl. 05:10

14 identicon

 Rannsóknir Samherja sýna líka að þeir eru góðir gæjar. ;)

Karl (IP-tala skráð) 18.8.2020 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband