Hvað er ríkið sæi um skósölu?

Ímyndum okkur heim þar sem ríkisvaldið sér um að framleiða, dreifa og selja skó - niðurgreidda auðvitað enda má líta á skóeign sem einhvers konar mannréttindi. Hagkvæmnin væri vitaskuld í forgrunni til að sóa ekki verðmætum: Skór væru staðlaðir í útliti, litavali og efnisvali. Háskólamenntaðir skósalar kenndu fólki að aðlagast þessu einsleita vöruúrvali með ýmsu lesefni, fyrirlestrum og sérkennslu eftir þörfum. Fólk hefur vanist þessu fyrirkomulagi og því að hafa ekki um margt að velja. Það sem er í boði er nógu gott fyrir flesta. 

Þó finnast einhverjir sem sætta sig ekki við hið takmarkaða úrval og einsleitni. Þeir borga vissulega sína skatta í skiptum fyrir niðurgreidda skó en velja engu að síður að reiða enn meira fé af hendi til að fá aðgang að meira úrvali og öðrum tegundum skófatnaðar. Inn á milli hinna opinberu skóbúða spretta því "einkareknar" skóbúðir með allskyns furðulega sandala, leðurstígvél og hvaðeina.

Eðli málsins samkvæmt hafa ekki allir efni á bæði sköttunum og álagningu einkareknu skóbúðanna og því er aðsókn í þær búðir að jafnaði frekar dræm. Þó tekst einhverjum að laða til sín viðskiptavini.

En skyndilega verður ríkisvaldinu gert ljóst að ríkisúrvalið hentar ekki öllum. Hvað með þá með skakkar eða mislangar fætur? Þeir geta ekki gengið í skóm ríkisins. Svo eru það íþróttamennirnir - þeir vilja léttari skó sem anda betur. Ónefndir eru svo fjallgöngumenn, fólk sem svitnar mikið á fótunum og þeir sem vilja geta vaðið snjó án þess að frjósa á tánum.

Skýrslur eru skrifaðar og nefndir settar á legg. Málið er rætt í þaula á hinum ýmsu skrifstofum hins opinbera. Hvað á að gera til að mæta þörfum þessara vandræðagemsa sem geta ekki gengið í ríkisskónum?

Úr verður að setja í gang allskyns sérverkefni til að koma til móts við þessa minnihlutahópa sem geta ekki notaða hinu stöðluðu ríkisskó.

Allir sáttir, þar til einhver segir: Af hverju er hið opinbera að sjá um framleiðslu og dreifingu á skóm? Er engin eftirspurn sem kallar á framboð? Geta einkaaðilar ekki bara tekið yfir allan þennan markað?

Og í leiðinni skólastarfið?

Það vilja allir góða skó og góða menntun. Ríkið hefur hér ekkert hlutverk nema að flækjast fyrir.


mbl.is Styrkur fyrir íslenskt samfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og það er ekkert nema markaðslögmál framboðs og eftirspurnar sem stoppar þá sem vilja stofna einkaskóla á þessum skósölu grundvelli.

Vagn (IP-tala skráð) 28.5.2020 kl. 08:40

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, þeir sem eru á móti fjölmenningu vilja að allir séu eins. cool

Á bökkum Dónár í Búdapest voru gyðingar skotnir í hrönnum og líkin látin falla í ána.

En áður en þeir voru skotnir voru þeir látnir fara úr skónum, karlar, konur og börn.

Á árbakkanum við þinghúsið er nú minnismerki um þessa atburði, alls kyns skór í mismunandi stærðum.

Þorsteinn Briem, 28.5.2020 kl. 09:07

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

The memorial

Þorsteinn Briem, 28.5.2020 kl. 09:26

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef það væri nú svo vel að nefndirnar og starfshóparnir skiluðu af sér einhverjum lausnum. Ég hef aldrei orðið var við neitt slíkt, aðeins síendurtekin loforð, en engar efndir. Enda er tilgangur starfshópanna ekki að leysa mál, heldur að telja fólki trú um að það sé verið að leysa þau.

Það er svo sjálfstætt rannsóknarefni hvers vegna kjósendur láta sífellt blekkja sig aftur og aftur með sama fagurgalanum.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.5.2020 kl. 09:46

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég hef stundum samúð með þeim sem vilja miðstýrðan ríkisrekstur - beint í formi reksturs eða óbeint í formi allskyns opinberra kröfubálka. Það væri þá t.d. að í fjarveru góðgerðarstarfsemi þá þarf einhverja tryggingu fyrir því að sumir fámennir, ótryggðir, óvinnufærir og fjölskyldulausir einstaklingar komist í dýrar læknismeðferðir. 

En kennsla? Vegagerð? Sala áfengis? Þetta eru tiltölulega einföld fyrirbæri sem væri hægt að bjóða upp á með hagstæðum hætti á samkeppnismarkaði, án ríkisstyrkjanna og án ríkiskröfubálkanna. Í tilviki kennslu blasir þetta við: Fjölmörg einkafyrirtæki bjóða upp á stuðningskennslu við krakka sem finna sig ekki innan hinna stöðluðu veggja hinna opinberu skóla.

Og jú auðvitað er hægt að reyna keppa við ríkið með einkaskólum. Foreldrar þurfa þá yfirleitt að borga meira gegn því að fá aðeins öðruvísi nálgun á kennslu en námsskrá ríkisins gildir engu að síður. Og svo er auðvitað góð setning í lögunum sem segir (gr. 56 í lögum 1995 nr. 66 8. mars):

Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé.

Foreldrar geta sem sagt ekki átt von á skattaafslætti ef þeir velja að nýta sér þjónustu annarra en skattheimtuvaldsins. Þetta er það sem mætti kalla "tæknileg hindrun", svipuð þeirri hjá ESB sem heimilar innflutning á hnetum frá Afríku gegn því að svimandi dýrar kröfur um merkingar og umbúðir séu virtar.

Geir Ágústsson, 28.5.2020 kl. 10:03

6 identicon

Kannast einhver við "Viðtækjasölu ríkisins"?

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 28.5.2020 kl. 12:33

7 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Í Sovét Rússlandi var þetta skó-dæmi framkvæmt.  Þeir voru búnir að þjóðnýta skógerðina, og veittu þangað leðri og gúmmí til þess að búa til svo og svo marga skó fyrir alþýðuna.

Það sem gerðist var að skógerðin framleiddi umbeðið magn af skóm í minnsta númeri, og bjó svo til eitthvað gróðavænlegra fyrir restina af hráefnunum.

Bílaframleiðzla Sovétríkjanna var vandræðalegri, þvi hráefnin fóru öll í skriðdreka.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.5.2020 kl. 15:36

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Það væri gaman að hugleiða hvort eitthvað svipað eigi sér stað í ríkismiðstýrðum verkefnum nútímans. Það blasir t.d. við að kostnaður við grunnskóla er að þenjast út á meðan frammistöðupróf sýna dvínandi getu. 

Geir Ágústsson, 28.5.2020 kl. 17:54

9 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég veit að heilbrigðiskerfið er óttalegt disaster.

Til að spara pening er ríkið að draga þjónustu frá Vestmannaeyjum.  Sá sparnaður hefur nú falist í að leggja niður 200 milljón króna á ári skurðstofu/bráðamóttöku.  Í staðinn kom 500 milljón króna á ári þyrla.

Sparnaður!

Það er meira, en hef ekki mánuð til að tíunda það.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.5.2020 kl. 19:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband