Þegar taxtinn ræður ríkjum

Verkalýðsfélög eru einkennilegt fyrirbæri í samfélaginu. Þau sjá um að semja um kaup og kjör fyrir hönd félagsmanna sinna með því að smíða taxta. Þessi taxtar geta verið flóknir en í grunninn ákvarðast laun af starfsaldri, menntun og stöðu. Þetta er ekki heppilegt fyrir alla, t.d. manninn sem afkastar tvöfalt meira en næsti maður með sama starfsaldur og menntun og í sömu stöðu. Maðurinn sem afkastar helmingi minna en meðalstarfsmaðurinn fær sömu laun og sá sem afkastar tvöfalt meira en meðalstarfsmaðurinn. Allir fá meðallaun.

Nema auðvitað með því að sækja eitthvað námskeið, krækja sér í gráðu sem kannski og kannski ekki nýtist í starfi, gerast yfirmaður eða einfaldlega með því að þrauka lengur en aðrir á vinnustaðnum og hækka í starfsaldri.

Ein ágæt kona sagði mér einu sinni að forstjóri hennar hefði hafnað ósk hennar um launahækkun þótt hann hafi verið allur af vilja gerður. Hún væri nú þegar í hæsta taxta miðað við starfsaldur, menntun og stöðu. Hann gæti ekkert gert.

Sjálfur var ég einu sinni í sumarstarfi á byggingalóð og bað um launahækkun. Yfirmaðurinn sagði að ég væri nú þegar í hæsta taxta og hann gæti ekkert gert. Einkennilegt svar fannst mér á sínum tíma en ekki lengur.

Ætli þetta eigi ekki við um marga aðra?

Taxtar verðlauna lélegasta starfsfólkið á kostnað þess besta. Kannski einhver hugsjón um jöfnuð ráði hér ríkjum en sú hugsjón er í beinni keppni við aðra og mikilvæga þætti, svo sem skilvirkni, arðbærni og samkeppnishæfni.

Íslendingar hafa enn sem komið er, með fáum undantekningum, ekki prófað sig mikið áfram þegar kemur að mismunandi fyrirkomulagi verkalýðshreyfinga, ólíkt t.d. Dönum. Yfirleitt þýðir aðild að íslensku verkalýðsfélagi himinhá iðgjöld í skiptum fyrir meðallaun og aðgang að sumarhúsum, og auðvitað kemur reglulega tímarit inn um lúguna og dettur beint í pappírstunnuna.

Væri ráð að hugsa í öðrum lausnum?


mbl.is „Bitur maður að kasta steinum úr glerhúsi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kauptaxtarnir eru lágmark og samningsréttur starfsmannsins er óskertur. Maðurinn sem afkastar tvöfalt meira en næsti maður með sama starfsaldur og menntun og í sömu stöðu getur samið um hærri laun og sanngjarnir atvinnurekendur borga þeim hærri laun.

Taxtar verðlauna ekki lélegasta starfsfólkið á kostnað þess besta. Taxtar tryggja öllum starfsmönnum viss lágmarks kjör. Ekkert stöðvar vinnuveitendur í því að verðlauna afkastameiri starfsmenn. Það er stundum kallað bónuskerfi.

Margir vinnuveitendur eru ekki til viðræðu um annað en taxtalaun. Leita allra leiða til að borga sem lægst laun og snuða þá sína bestu starfsmenn mest. Að draga tennurnar úr verkalýðsfélögunum breytir ekki eðli vinnuveitenda.

FLM veitir aðeins þriggja tíma lögfræðiaðstoð brjóti vinnuveitandi á félagsmanni, eftir það borgar félagsmaðurinn allan kostnað vegna málsins. Venjuleg verkalýðsfélög standa vörð um réttindi félagsmanna og borga allan lögfræðikostnað í málum gegn vinnuveitendum. FLM semur ekki um kaup félagsmanna. Um kaup félagsmanna FLM gildir það lágmark sem verkalýðsfélög sem starfa sem verkalýðsfélög hafa barist fyrir og samið um. Með öðrum orðum FLM starfar í skjóli sem verkalýðsfélögin skapa, FLM er sníkjudýr sem lætur verkalýðsfélögin og félagsmenn þeirra um kjarabaráttuna. 

Vagn (IP-tala skráð) 30.1.2020 kl. 20:34

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þið hafið báðir alveg hárrétt fyrir ykkur held ég.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.1.2020 kl. 00:00

3 identicon

Vagn þetta er rétt hjá þér varðandi almenna markaðinn en ekki þann opinbera. Þar er eingöngu greitt samkvæmt taxta.  Þá er svokölluð jafnlaunavottorð að setja skrýtinn vinkill á þetta. þeirra aðalforsenda er að allir eigi að fá sömu laun fyrir sama starf sem er náttúrulega klikkað.  Þá má líka benda á það ef t.d. ef að fyrirtæki borgi karli hærri laun en konu vegna þess að hann er mun betri starfsmaður á alltaf von á stefnu og að vera tekið af lífi í réttrúnaðar pólítísku umræðu samfélagsins.

Stefán (IP-tala skráð) 31.1.2020 kl. 09:06

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Úr því talað er um að það megi semja um laun umfram taxta: Í fréttinni segir:

"Bendir [Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, formaður VR] á að lífs­kjara­samn­ing­ur­inn hafi verið hugsaður til að auka jöfnuð og hækka lægstu laun og tel­ur hann að þar hafi for­yst­an sýnt ábyrgð og tekið það svig­rúm sem til staðar var."

Sem sagt, kjarasamningar voru þannig skrúfaðir saman að allt svigrúm atvinnulífsins til að greiða laun var leitt inn í taxtana. Það var samstaða við samningaborðið að svigrúmið væri ekki meira. Hvernig eiga fyrirtæki þá að hafa svigrúm til að verðlauna góða frammistöðu umfram meðalmennsku? Miðað við yfirlýsingar verkalýðshreyfingarinnar þá er það svigrúm einfaldlega ekki til staðar.

En auðvitað leysa fyrirtæki þetta með einum eða öðrum hætti, t.d. með því að senda störf úr landi ef það er mögulegt eða með því einfaldlega að hætta við ákveðna uppbyggingu innanlands. Kaupendur þjónustu geta líka leitað til erlendra aðila. Það er svigrúm en svigrúmið er ekki í betri launum fyrir þá sem skara fram úr. Óbein afleiðing þess er svo kannski sú að margar starfsgreinar þjást af nýliðaskorti og að ungt fólk leiti einfaldlega í aðrar greinar en þær umvafðar launatöxtum verkalýðsfélaganna.

Geir Ágústsson, 1.2.2020 kl. 14:02

5 identicon

Það er undarleg túlkun, og virðist frekar þvinguð til að passa við furðulega pólitíska hugmyndafræði og vanþekkingu á verkalýðsfélögum og atvinnurekendum, að orð eins formanns eins félags sé yfirlýsing verkalýðshreyfingarinnar. Og að orð eins formanns um hækkun lægstu launa lýsi hugmyndum atvinnurekenda um alla launaflokka og starfsgreinar, afkomu allra atvinnurekenda og útiloki afkastakvetjandi launakerfi.

Verkalýðsfélög semja fyrir háskólamenn, iðnaðarmenn og verkafólk. Það er því vandséð um hvaða greinar þú ert að segja:"... ungt fólk leiti einfaldlega í aðrar greinar en þær umvafðar launatöxtum verkalýðsfélaganna."

Vagn (IP-tala skráð) 1.2.2020 kl. 18:56

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Nú vandaði ég orðalagið og sagði að þetta væri kannski ástæðan fyrir nýliðavandamálum margra greina. Þú hlýtur að hafa heyrt eitthvað af slíku frá forkólfum einhverra starfsgreina. En auðvitað forðast ungt fólk sumar greinar af öðrum ástæðum en ósveigjanleika launakerfisins.

En já, ég hef sett formann VR á óþarflega háan stall þegar hann talar um störf VR og eins og þau störf séu einhvers konar fyrirmynd annarra verkalýðshreyfinga. Hann vill keyra að mörkum svigrúmsins við smíði launataxta. Önnur verkalýðsfélög eru kannski á annarri vegferð. 

Geir Ágústsson, 1.2.2020 kl. 19:42

7 identicon

Að kenna "ósveigjanleika launakerfisins" um nýliðunarvanda einstakra atvinnugreina er ekki rökrétt. Sá vandi ætti þá að hrjá allar greinar sem samið er fyrir. Og ef launakerfið væri ósveigjanlegt ættu yfirborganir og bónusar ekki að þekkjast. Það væri nær að kenna um ósveigjanleika hjá vinnuveitendum vissra stétta, enda nýliðunarvandinn þeirra vandamál og þeirra að leysa. Þeir sem ekki vilja víkja frá launatöxtum geta átt á hættu að fá ekki starfsfólk og missa starfsfólk til þeirra sem sjá launataxtana ekki sem takmark heldur sem lágmark.

Hvað formaður VR sagði um hækkanir lægstu launa segir ekkert um aðra launataxta, önnur stéttafélög og þol vinnuveitenda. Það er ekki svo að formaður VR geri bara einn samning um lægstu laun og hann gildi fyrir alla viðsemjendur og alla launaflokka.

Það virðist vera nánast sama hvað þú segir, það reynist við nánari skoðun vera hreinræktað bull.

Vagn (IP-tala skráð) 2.2.2020 kl. 02:28

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Auðvitað er allt sem fellur illa að stefnu Samfylkingarinnar bull í þínum eyrum. 

Annars ætla ég að taka undir orð þín um að margir vinnuveitendur geta einmitt ekki vikið frá töxtunum (þeir eru of íþyngjandi nú þegar) og eru að missa starfsfólk og getuna til að taka að sér viðskipti. Þá er tvennt í stöðunni: Færa starfsemina úr landi eða sætta sig við skertan hlut. 

Geir Ágústsson, 2.2.2020 kl. 08:43

9 identicon

Órökrétt þvæla og hugsunarlaust bull angrar mig, sama hver stefna Samfylkingarinnar er. En óvild þjóðernispopulista Norðurvígis á Samfylkingunni og tilhneiging til að kenna andstæðinga sína við hana bendir til þess að hún sé ekki alslæm.

Stærstur hluti þeirra vinnuveitenda sem ekki vilja víkja frá launatöxtum eru opinberir aðilar sem þurfa að höndla men skattfé borgaranna. Og þar er um ákvörðun að ræða sem ekki stjórnast af fjárhagsstöðu hjá viðkomandi stofnunum. Dagvistun barna verður ekki svo auðveldlega flutt úr landi. Kennsla, löggæsla og hjúkrun ekki heldur.

Flest störf eru þess eðlis að ekki er hægt að flytja þau úr landi. Og þó sum fyrirtæki þoli ekki hækkanir launa og önnur eru á mörkunum þá hafa flest áfram svigrúm til að greiða meira en taxtakaup, og mörg gera það. Fyrirtæki sem ekki geta greitt lágmarkið eiga engan tilverurétt.

Vagn (IP-tala skráð) 2.2.2020 kl. 16:08

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég leyfi mér að bæta aðeins við:

"Fyrirtæki sem ekki geta greitt lágmarkið eiga engan tilverurétt [á Íslandi, og þeir sem geta ekki framleitt verðmæti sem samsvara töxtunum eru best geymdir á bótum.]"

Geir Ágústsson, 2.2.2020 kl. 17:43

11 identicon

Þar sem þrælahald lagðist af hafa fyrirtæki sem ekki geta greitt lágmarkið ekki átt tilverurétt. Vissulega væri meira framleitt og fyrirtækin blómlegri ef ekki þyrfti að greiða starfsmönnum fyrir vinnuna. En sá draumur þinn fær ekki að rætast.

Vagn (IP-tala skráð) 2.2.2020 kl. 20:39

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta var furðuleg yfirlýsing. Er forritari á Íslandi þræll þar til hann fær sömu laun og forritari í Silicon Valley?

Eða á sá á Íslandi ekki að fá að hafa atvinnu af því að geta unnið fyrir lægri laun?

Geir Ágústsson, 2.2.2020 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband