Ekkert er ókeypis nema eftirfarandi ráð

Stundum er sagt að ekkert í lífinu sé ókeypis. Vissulega á þetta við um nýja Apple-síma, demantshringa og glansandi bifreiðar en margt í lífinu er vissulega ókeypis. Andadrátturinn er það, ferska loftið, hugsanir þínar, gamlar bækur og margt fleira.

Og líka eftirfarandi ráð með mínu orðalagi.

Mörg þeirra má kaupa fyrir tugi þúsunda á námskeiðum en ég gef þau. Gjörið svo vel!

Markaðssetning: Viltu slá í gegn í markaðsstarfi? Þá skaltu eyða svimandi fjárhæðum í það og hafa einhvern boðskap. Það er ekki lengur nóg að ráða Pétur Jóhann til að grínast. Þú þarft að segja í hrífandi máli frá vörunni og af hverju hún er peninga neytenda virði. Helst þarftu að hafa eitthvað gott til sölu sem fyrstu kaupendur tala vel um við næstu. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Skilvirkni: Viltu bæta skilvirkni þína í starfi? Þá þarftu að gera tvennt: Ná einbeitingu (t.d. með því að slökkva á hljóðum í símanum) og vera undirbúinn. Þú þarft að vita hvað þú ert að gera og læra svo að sinna starfinu hraðar og hraðar. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Hraðlestur: Taktu texta sem þú þekkir vel og notaðu puttann til að fylgja honum þegar þú lest. Æfðu þig nokkrum sinnum á sama textanum og finndu leshraðann aukast. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Lestur frétta: Flestar fréttir eru lítið annað en blússandi áróður öflugra þrýstihópa sem vilja skattleggja þig um seinustu krónu þína í nafni velferðarkerfisins, umhverfisins og loftslagsins. Ekki trúa þessu þvaðri. Finndu manneskju sem þú berð virðingu fyrir og þefaðu uppi hennar skrif og viðhorf. Þú færð áfall þegar þú sérð hvað hefðbundnar fréttir eru mikið rusl í samanburðinum. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Síþreyta: Þjáist þú af síþreytu? Þá þjáist þú annaðhvort af líkamlegri eða andlegri vannæringu. Taktu vítamín og lýsi, borðaðu hollar, kúplaði þig frá hversdagsleikanum, farðu í göngutúra og ræddu sálarflækjur þínar við einhvern. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Markþjálfun: Áttu erfitt með að ná markmiðum þínum? Ertu alltaf að fara af sporinu? Endist þú ekki í ræktinni? Skrifaðu niður á blað hvað þú vilt gera og brjóttu svo leiðina að þeim markmiðum niður í raunhæfa bita, helst svo smáa að þú getur náð þeim fyrsta á einum degi. Finndu einhvern til að deila með þér markmiði og þið hvetjið hvort annað áfram. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Ég vona að námskeiðshaldarar landsins verði ekki brjálaðir út í mig nú þegar ég er búinn að þurrka út milljónavirði af viðskiptum en þeir jafna sig og reyna bara að gera betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá viðbót í sama anda og jafn árangursrík til frelsunar frá dýrum námskeiðum.

Ökunám: Lestu leiðbeiningarbæklinginn með bílnum svo þú vitir hvar gírskipting er, ljósarofar og sett í gang. Settu svo í gang og aktu út í umferðina. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Námskeið: Ef það kostar, ekki fara. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Sparnaður: Spara má háar upphæðir með því að heimsækja vini og ættingja á matmálstímum, horfa á sjónvarp og fara á netið hjá þeim. Og oft er hægt með lítilli fyrirhöfn að fá þá til að skutla sér og gefa gamlar bækur, föt og smáhluti. Þegar svo örlæti nær tökum á þér skalt þú gefa góð ráð sem engum gagnast og vísdómsorð af veggjum almenningssalerna, kallaðu það milljóna virði og klappaðu þér á bakið. Spurðu farþega í strætó eða sæktu ráðleggingar og lausnir á netið frekar en að borga fagaðilum þegar sálarflækjur og sjúkdómar hrjá þig. Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Blogg: Skrifaðu langa pistla um hluti sem þér eru framandi, ekki láta fáfræði stöðva þig. Notaðu fullyrðingar sem hljóma eins og þú vitir eitthvað um það sem þú skrifar, sannleiksgildið er aukaatriði. Láttu eins og ímyndaður heimur þinn sé til í raunveruleikanum. Snertur af ofsóknarbrjálæði, skattahatri, fordómum og afdalamennsku lætur þig svo virðast mann fólksins, einn af skýtugum fjöldanum, ólæsa gáfumennið sem bara ef... Árangur tryggður! Óþarfi að sækja dýr námskeið!

Vagn (IP-tala skráð) 7.1.2020 kl. 23:22

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Ég var búinn að sakna þín. Hvað fannst þér um seinustu blaðagrein mína?

Geir Ágústsson, 8.1.2020 kl. 05:37

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars er kannski rétt að taka fram, til að forðast allan misskilning:

Auðvitað geta menn sótt námskeið í hverju sem er. Fyrir mismunandi námskeiðsefni getur mismunandi form hentað mörgum. Sumir lesa bækur og prófa sig áfram og aðrir vilja frekar taka við leiðbeiningum og læra undir handleiðslu einhvers sérsfræðings. Þannig býð ég upp á námskeið og hef sótt slík.

Og auðvitað eiga menn að fá að velja sjálfir þá aðila sem þeir taka við leiðbeiningum frá og bera auðvitað fulla ábyrgð á slíku vali, hvort sem það er bankaráðgjafi, næringarfræðingur eða reynslubolti í markaðsmálum.

Til dæmis geta menn valið að heimsækja þessa síðu til innblásturs, upplýsinga eða afþreyingar en geta líka valið að sleppa því. Hér er stefnu RÚV í efnistökum kannski ekki fylgt og menn geta látið það angra sig eða gleðja, en allir ættu að fagna fjölbreytileikanum.

Geir Ágústsson, 8.1.2020 kl. 07:55

4 identicon

Seinast blaðagrein þín? Ron Paul? Það kemur ekki á óvart að í heimi þar sem embætti, hlutverk og aðgerðir Qasem Soleimani eru vel þekkt skulir þú skipa þér í hóp efasemdarmanna. Hópar fólks sem efast og heimta sannanir telja jörðina flata, tungllendinguna tilbúning, CIA hafa sprengt Tvíburaturnana, Soros standa fyrir flóttamannavandanum og bólusetningar orsaka einhverfu. Háværustu klikkhausar samtímans nærast á efa, vantrausti og samsæriskenningum, og telja sig vera að veita innblástur og upplýsingar.  

Vagn (IP-tala skráð) 8.1.2020 kl. 10:08

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Meinti ekki bloggfærsluna um Ron Paul heldur blaðagrein um skoðanaflótta stjórnmálamanna, en álit þitt á Ron Paul er mjög upplýsandi. Maðurinn er vel á minnst læknir og raunvísindamaður. Þér er samt velkomið að hafa hvaða skoðun á honum sem þér sýnist.

Geir Ágústsson, 8.1.2020 kl. 11:05

6 identicon

Greinin um skoðanaflótta stjórnmálamanna, sjá liðinn Blogg hér að ofan.

Vagn (IP-tala skráð) 8.1.2020 kl. 19:38

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Mjög gott. Ég fékk eftirfarandi í tölvupósti sem viðbrögð við þeirri grein, sem mér fannst gaman:

Takk fyrir hressandi og skýra grein í Mbl. í dag. Sem gamall kerfiskarl þá finnst mér  þú hitta naglann á höfuðið þegar kemur að sjálfhverfri sýn kerfisins á málefnin. Hreint ótrúlegt hvernig kerfið byrjar á því að verja sig sjálft þegar kemur að umræðu um úrbætur. Fáir virðast viðurkenna þennan veruleika

Geir Ágústsson, 8.1.2020 kl. 20:14

8 identicon

Já, "Fáir virðast viðurkenna þennan veruleika" fáir, mjög fáir, því þetta er ekki neinn veruleiki. Jafnvel gamlir kerfiskarlar geta lifað í ímynduðum heimi ranghugmynda og fáfræði.

P.s. Gaman að sjá að Ron þessi Paul skuli vera læknir eins og Dagur B. Átti það að gefa orðum hans eitthvað meira gildi?

Vagn (IP-tala skráð) 8.1.2020 kl. 21:53

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það blasir við að þeir sem sjá hlutina öðruvísi en þú eru rugludallar, ímyndunarveikir og samsæriskenningasmiðir. En auðvitað ekki þú.

Geir Ágústsson, 9.1.2020 kl. 05:46

10 identicon

Það má vel vera að það sé rangt hjá mér, en ég tel fólk sem telur jörðina flata, tungllendinguna tilbúning, CIA hafa sprengt Tvíburaturnana, Soros standa fyrir flóttamannavandanum og bólusetningar orsaka einhverfu rugludalla, en ég efast um að það sé rangt hjá mér.

Vagn (IP-tala skráð) 9.1.2020 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband