Laugardagur, 21. desember 2019
Líkið mjólkað
Fiskeldi á Íslandi er taprekstur og jafnvel skattaskjól fyrir auðug norsk stórfyrirtæki. Þau kaupa hér leyfi fyrir brotabrot af norska verðinu og forða öllum arði úr landinu. Eftir stendur tapið, mengunin og nokkur láglaunastörf.
Þetta lík á nú að kreista ofan í ríkissjóð.
Nú þegar er sjávarútvegur skattlagður mun meira en aðrar atvinnugreinar.
Á meðan er samið um smíði á mengandi verksmiðjum með skattaafsláttum og undanþágum.
Hver er eiginlega atvinnustefna stjórnvalda? Að drepa allt sem vel gengur og niðurgreiða hitt? Alþingismenn hafa alltof mikið að segja um hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja. Í stað þess að leggja á jafna, hóflega og einfalda skatta er gert allt mögulegt annað. Niðurstaðan er rýrara hagkerfi en annars gæti verið raunin og þar með verri skattheimtur ofan í botnlausa ríkishítina.
Ónefnt er svo réttmæti hins svonefnda auðlindagjalds sem nær þó ekki til krækiberjabænda, sauðfjárbænda, vatnsveita, hitaveita og annarra sem breyta náttúru í verðmæti. Það er eins og að menn geri ráð fyrir að hið opinbera eigi allt á milli himins og jarðar og þeim mun neðar og að landsmenn og fyrirtæki þeirra séu einfaldir leigutakar. Er það svo? Og ef það er svo hvaða hömlur eru þá á hinu opinbera að skattleggja andrúmsloftið, rigninguna og útsýnið yfir fjörðinn?
Innheimta auðlindagjald af fiskeldi frá áramótum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Með fullri virðingu Geir, hefur nokkra hugmynd um hvað þú ert að tala um núna??
Hefur þú komið og séð hvernig þessa meinta arðrænda af vondum útlendingum hefur leikið plássin þar??
Heitasta helvítis skelfing, fólk hefur vinnu og hús seljast.
Þú hlýtur alveg að vera miður þín, en hvað er sósíalistinn Geir að gera á síðu frjálshyggjumannsins Geirs??
Bara spyr.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2019 kl. 15:57
Ég hef enga sérstaka afstöðu til fiskeldis, per say. Þar er samt margt sem lyktar af stjórnmálum, eins og minkaeldið á sínum tíma.
Geir Ágústsson, 21.12.2019 kl. 16:59
Ég held meira að planið sé að fæla fiskeldið burt.
En það gæti verið rangt, rakhnífur Hanlons, og allt það.
Ásgrímur Hartmannsson, 21.12.2019 kl. 18:50
Sem eiginlega segir mér að þú þekkir litt til raunveruleikans í dag Geir, og vissir ef þú kynntir þér hann, að þetta er ekki alveg rétt lýsing.
Útboð á gæðum er svo önnur ella.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2019 kl. 18:57
Það eiga allir að sitja við sama borð þegar kemur að aðgangi að auðlindum okkar. Það er spilling að gera upp á milli aðila.
Með gjaldfrjálsum aðgangi verður eftirspurnin oft meiri en auðlindirnar þola. Þá er nauðsynlegt að láta jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar ráða gjaldinu. Gjald fyrir fiskveiðiheimildir yrði þá miklu hærra en nú tíðkast.
Ég kannast ekki við að krækiberja- eða beitarsvæði í eigu ríkisins séu auðlind þar sem gert er upp á milli aðila.
Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 21.12.2019 kl. 19:10
Ómar,
Ég er mjög litaður af kunningjaskap við mann í laxveiðigeiranum. Hann bendir á margt sem lítið er rætt og stangast á við byggðapólitík.
Ásmundur,
Auðlindagjald er rökstutt á fljótandi forsendum með óljósum túlkunum. Hver er næstur?
Geir Ágústsson, 21.12.2019 kl. 20:51
Hér er grunnvandinn sá að það er enginn sem lætur sig varða áhrif fiskeldisins á lífíki sjávar og á laxastofnana. Hvers vegna? Annars vegar vegna þess að hafið er almenningur. Hins vegar vegna þess að stjórnmálamenn, sem eiga að gæta almenninga, gera það ekki.
Þorsteinn Siglaugsson, 21.12.2019 kl. 23:48
Hefur þér ekki dottið í hug Geir að hann sé að testa þig Geir???;
"Fiskeldi á Íslandi er taprekstur og jafnvel skattaskjól fyrir auðug norsk stórfyrirtæki. Þau kaupa hér leyfi fyrir brotabrot af norska verðinu og forða öllum arði úr landinu. Eftir stendur tapið, mengunin og nokkur láglaunastörf.".
Það hefði hvaða kommi sem er orðið stoltur af þessari klausu, inniheldur fordóma, minimalar fjölda starfa, lítillækkar eðli þeirra, og andskotast út í erlent eignarhald.
Kannski er hann að skoða trúgirni þína, eða athuga hvort þú sért ekki bara laumusossi inn við beinið.
Hvað veit ég, en ekkert af þessu passar við raunveruleikann, nema hugsanlega þetta með arðinn.
En í fyrsta lagi þá er hið vestræna kerfi svona, arður er fluttur úr landi. Það sem reynir á eru innlendar skattareglur. Og í öðru lagi þá er það dýrt að reyna endalaust að finna upp hjólið, innlend fyrirtæki hafa reynt með mjög lélegum árangri. Líklegast vegna þess að þau voru að finna upp hjólið.
Vissulega er það ekki gæfulegt ef allt atvinnulíf sé í erlendri eigu, en það er ekki mikið gæfulegra ef það er alfarið í innlendri eigu, í þessu eins og svo mörgu öðru þarf að finna góða blöndu líkt og með malt og appelsín.
Það má síðan ræða umhverfissjónarmið og áhrif á lífríki laxveiðiáa. En sjávarþorgin njóta lítt góðs af laxveiðiauðlindinni, erlendir auðkýfingar hafa fyrir löngu bolað þorpurum úr veiðiánum, svo samúðin er lítil.
Samt er í þessu eins og svo mörgu öðru hægt að framkvæma hlutina fyrir aftan óæðri endann, eða reyna gera sitt besta út frá nýjustu tækni. Hvort það dugar, er svo spurning, en þróunin er allavega í þá átt að gera greinina örugga. Það mikil þróun að það er broslegt að lesa gífuryrði byggð á fortíð, svona líkt og að skammast út í álverið á Reyðarfirði út frá stóriðju 5. áratugarins, eða sovésku stóriðjunni.
Það eru ekki rök að segja epli vönd þó þér þyki appelsína vera súr.
Það er nú bara svo.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2019 kl. 11:35
Það má líklegast sleppa tvítekningunni, en Geir er gott nafn, annar tvíbura minna heitir Geir og ég er Geirsson, en samt nóg að segja einu sinni Geir í setningunni.
Með ekki síðri kveðju.
Ómar Geirsson, 22.12.2019 kl. 11:38
Mér finnst öll þessi umræða og athugasemdir vera ákaflega áhugavert.
Upphaflegi punktur minn var nú bara sá að fiskeldi á Íslandi er ekki nein peningauppspretta sem má við enn meiri skattheimtu. Miklu frekar er um að ræða iðnað sem á í vök að verjast, er að hluta haldið uppi af byggðapólitík og er kannski að komast upp með meira en gildir um aðrar greinar (mengun, erfðablöndun á villtum stofnum).
Ef atvinnurekstur á að eiga sér viðreisnar von er bara um skammvinnan ávinning að vera upp á náð og miskunn stjórnmála háður. Einu sinni var álver vinsælt og fékk skattaafslætti og niðurgreitt rafmagn. Svo varð hann það ekki og fær núna í hausinn aukna skatta, hærra raforkuverð og jafnvel allskyns græna skatta sem duga þó ekki til annars en að fjármagna meiri skriffinnsku og fleiri opinbera embættismenn.
Geir Ágústsson, 22.12.2019 kl. 19:45
Jæja, ekki skal ég rífast um það, það er alltí lagi að leyfa kálfinum að vaxa áður en hann er mjólkaður, þetta gæti þess vegna verið naut en ekki mjólkurkú.
En ég veit að frændi minn á Djúpavogi hefði flengt þig fyrir næstum því allt sem þú sagðir í kommainngangi þínum.
Sjónarmið Þorsteins eru líka hárrétt, þetta er vanfundið jafnvægi og ákaflega mörg vítin að varast.
En við í frændgarði Bjarts frá Sumarhúsum erum lítt hrifnir af ofurskattlagningu, þekkjum alveg lyktina af arðráni þó skepnan sé skýrð upp á nýtt.
Verður að einskonar andskattlagningu þar sem allur þróttur er kæfður i fæðingu.
Þess vegna fannst mér síðasti pistill þinn einnig þarfur, fyrir utan náttúrulega að vera góður.
En nóg af tuði, núna er það jólakveðjan.
Að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2019 kl. 21:20
Óþarfi er að efast um að arður laxeldisfyrirtækja sé/verði fluttur úr landi, jafnvel frá fyrirtækjum sem rammíslensk eru. Hitt er svo annað, hvert hið svonefnda auðlindagjald rennur. Hverjar eru auðlindirnar? Jú, það eru firðir eystra og vestra sem fóstra fremur veikburða byggðir. Auðlindagjaldið, svo maður komi að því aftur, ætti í raun að fara til þeirra byggðarlaga sem auðlindin liggur að. En verður það þannig? Eða mun gjaldið fara í póstnúmer í Reykjavík og innkomunni útdeilt útfrá höfuðborgísku sjónarhorni? Auðlindir eru ýmiskonar. Auðlindir Reykjavíkur eru t.d. sjúkrahús í þjóðareigu en gjöldin af byggingunum renna til borgarinnar. Það nefndi einhver berjalönd. Ef sveitarfélag sem ætti berjaland vildi selja tínsluleyfi fengi sveitarfélagið gjaldið. Ég tel mig vita það rétt að sveitarfélög sem liggja að sjóeldisauðlind þurfi að samþykkja sjóeldi í auðlindinni svo hún verði að veruleika og ættu þess vegna fá til sín það auðlindagjald.
Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.12.2019 kl. 11:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.