Sunnudagur, 15. desember 2019
Sniðugar gjafir fyrir þá sem eiga allt
Uppskeruhátíð kapítalismans, afmælishátíð Jesú Krists, hátíð hækkandi sólar, hátíð ljóss og friðar en umfram allt jólin eru að ganga í garð.
Flestir í vestrænum samfélögum nota þennan árstíma til að drekkja sér í undirbúningsvinnu og gjafainnkaupum, samhliða vinnu og heimilisrekstri, og lyppast svo niður örmagna á aðfangadagskvöld til að borða flottan mat og skola niður með gosi eða víni á meðan krakkarnir stara á gjafafjallið undir jólatrénu og eru við það að springa úr eftirvæntingu ofan í sykurneysluna.
Ég elska jólin!
En það er þetta með gjafirnar sem vefst svolítið fyrir fólki.
Hér get ég boðið upp á skotheldar leiðbeiningar.
- Spyrja: Já, í stað þess að kaupa eitthvað út í bláinn er einfaldlega hægt að spyrja fólk hvað því vantar eða hvað það vill.
- Endurnýja: Gjafir má oft nota til að endurnýja slitna eða úr sér gengna hluti. Þú veist þá að viðkomandi notar viðkomandi hlut það mikið að hann er að hrynja undan álaginu og mun því pottþétt kunna vel að meta að viðkomandi hlutur er endurnýjaður eða uppfærður.
- Staðalímyndin: Ég veit að það er ekki í tísku að tala um menn og konur, að eitthvað sé strákalegt eða stelpulegt og allt það, en lífið er einfaldlega kynjaskipt. Ef þú þekkir mann sem vinnur með höndunum þá mun eitthvað kröftugt verkfæri alltaf slá í gegn, t.d. sleggja eða járnkarl. Ef þú þekkir kvenmann sem málar sig þá mun enn einn burstinn eða maskinn eða varaliturinn alltaf hitta í mark.
- Það sem má borða eða drekka: Amma mín heitin var í mörg ár búin að reyna stöðva jólagjafir til sín en þegar hún sá að það gekk ekki sagði hún að gjafirnar yrði að vera hægt að borða eða drekka. Það er sniðugt fyrir alla. Ég gaf einu sinni systur minni líter af vodka í jólagjöf þegar hún var orðin 18 ára og hann nýttist vel í bolluna í útskriftarpartýi hennar. Það sem má borða eða drekka er góð gjöf.
- Eitthvað fyndið: Ég fékk einu sinni drullusokk í afmælisgjöf frá félaga mínum og hann sagði að það væri af því ég væri algjör drullusokkur. Það var góð gjöf sem ég passaði vel upp á. Frá mér fékk hann svo bók um hvar samkynhneigðir karlmenn hittast í laumi til að stunda skyndikynni í hinum ýmsu borgum heimsins. Það fannst kærustunni hans fyndið. Góður húmor er góð gjöf.
Gleðileg jólagjafainnkaup!
Sniðugar gjafir fyrir þá sem eiga allt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:51 | Facebook
Athugasemdir
Og gálgahúmor getur verið gróf gjöf. Sniðugur pistill.
Magnús Sigurðsson, 15.12.2019 kl. 10:26
Börnin sem mæta á Föstudögum á Austurvöll væru glöð að fá einungis kolefniskvóta
Eða fær almenningur ekki að kaupa þann kvóta
Grímur (IP-tala skráð) 15.12.2019 kl. 10:39
Ég gaf alltaf bland í poka í afmælisgjöf. Var einfalt, og hentaði öllum. Þar til systkynin sögðu mér að láta af þeim sið.
Það hentar mér. Nú sitjum við og drekkum jólaöl meðan krakkarnir opna pakka.
Ásgrímur Hartmannsson, 15.12.2019 kl. 17:32
Það á að gefa fólki gjafir sem gæla við veikleika þess, enda jólin tíminn til að láta hluti eftir sér. Drykkjumönnum á að gefa brennivín, reykingamönnum vindla, börnum súkkulaði, dópistum dóp, innbrotsþjófum á að gefa kúbein og mathákum annaðhvort flesk eða matreiðslubækur.
Ekki gefa reykinga- eða drykkjumönnum sjálfshjálparbækur um hvernig þeir eigi að láta af ósiðum sínum - þær fara bara í ruslið. Ekki gefa börnum rósakál eða annað sem að þeirra mati er óþverri. Og feitabollum á ekki að gefa megrunarbækur.
Þorsteinn Siglaugsson, 15.12.2019 kl. 18:28
Þorsteinn,
Þú kitlar taug. Konan mín leyfir sér ekki allt sem freistar hennar en gjafalistar hennar innihalda margt af slíkum freistingum. Það er því auðsótt mál að kitla hennar veikleika fyrir hinu og þessu (þó ekki dópi, áfengi eða óhollustu).
Sjálfur er ég allof ferkantaður (að mati konunnar): Skrifa bara á lista hluti eins og húfu, verkfæri og annað slíkt.
Læt að gamni jólagjafalista minn flakka hér, og þeir sem vilja gefa geta sent mér tölvupóst og beðið um heimilisfang mitt:
Geir Ágústsson, 15.12.2019 kl. 19:56
Þú ert greinilega miklu hugmyndaríkari en ég þegar kemur að jólagjöfum. Það eina sem mér dettur í hug (ár eftir ár) er rúllukragapeysa. Hitt kaupi ég yfirleitt bara sjálfur (þó ekki keðjusagir).
Þorsteinn Siglaugsson, 15.12.2019 kl. 20:36
Góðir félagar.
Þú færð prik frá mér Þorsteinn fyrir þínar hugmyndir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.12.2019 kl. 08:17
Ég fæ venjulega beiðni frá konunni upp úr haustinu að hætta að kaupa mér hluti þótt mig vanti þá því annars verður ekkert eftir fyrir jólagjafalistann (og svo á ég afmæli í desember líka sem þarf að græja). En það er greinilegt að eftirspurnin eftir Eclipse-lampanum úr fréttinni er ekki gríðarleg meðal lesenda þessarar síðu!
Geir Ágústsson, 16.12.2019 kl. 08:27
Takk fyrir það Ómar.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2019 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.