Föstudagur, 29. nóvember 2019
Hagfræði boða og banna
Ég er að lesa svolitla bók þessa dagana sem mér finnst vera gríðarlega áhugaverð: The Economics of Prohibition.
Í henni reynir hagfræðingurinn, Mark Thornton, að útskýra hvað gerist þegar hið opinbera setur á bann (algjört eða að hluta til). Í stuttu máli má segja að boð og bönn geri það sama og allt annað sem hefur áhrif á framboð og eftirspurn: Hvatar verða til.
Hvað gerist til dæmis þegar hveitiuppskera bregst? Verð hækkar auðvitað en á sama tíma byrja markaðsaðilar að leita að lausnum, t.d. ódýrari valkostum.
Þegar hið opinbera hóf herferð sína gegn kannabis hækkaði verðið auðvitað og áhættan jókst. Það myndaði hvata, meðal annars þann að fara út í kynræktun til að auka styrkleika virku vímuefnanna í kannabisplöntunni. Þegar kókaín lenti á bannlistanum urðu til hvatar til að finna aðra valkosti, gjarnan sterkari vímuefni til að minnka flutningskostnað og áhættu vegna framleiðslu, flutninga og sölu.
Nú þegar ég er kominn nokkuð áleiðis í bókinni eru ýmsar fréttir fjölmiðla farnar að blasa öðruvísi við mér. Ég sé fiska að synda á móti sterkum straum, og eftir því sem þeir synda ákveðnar eykst straumhraðinn. Áfangastað verður aldrei náð en fyrirhöfnin fer að taka meira og meira á og fer jafnvel að valda meiri skaða en ef fiskarnir hefðu sparað sér ferðalagið.
Það er hagfræði boða og banna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:47 | Facebook
Athugasemdir
Það má oft sjá hvort röksemd standist með því að nota hana á eitthvað annað. Til dæmis ef sagt er að epli sem losnar af grein detti til jarðar þá má prufa að setja appelsínu í staðinn og sjá hvort það sama eigi við. Augljóslega stenst það því sama hvort það er epli, appelsína, tómatur eða laufblað, ef það losnar af grein þá fellur það til jarðar. Ef sagt væri að það sem fellur af grein verði rautt og epli sanni það þá fær sú röksemdarfærsla falleinkunn þegar appelsína er sett í staðinn.
Nú er nokkuð augljóst að bann við innbrotum og morðum varð ekki til þess að kúbein og morðvopn þróuðust og urðu afkastameiri. Og bannið hefur ekki skapað faraldur morða og innbrota eins og ætti að vera samkvæmt þessari hagfræði. Hagfræði boða og banna fær því falleinkunn. Sú hagfræði byggir á röngum fullyrðingum, tengingum sem ekki eru til staðar, engum óhrekjanlegum staðreyndum og engri hagfræði. Enda sett fram í pólitískum tilgangi til að blekkja og afvegleiða. Það virkar vel í þá sem eru á sömu pólitísku línu og þá sem eru fáfróðir og grunnhyggnir. Réttara væri að kalla þetta Verklega sálfræði lýðskrums og múgsefjunar frekar en Hagfræði boða og banna, ef setja þarf einhvern fræðastimpil á svona bull.
Vagn (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 03:59
Vagn,
Hagfræði boða og banna er auðvitað bara tilgáta til að útskýra gögnin sem segja:
- Vímuefni sem eru bönnuð eiga það til að verða sterkari
- Boð og bönn á vímuefnum breytir neyslumynstri fólks, t.d. minnkar neyslu á bjór og eykur á sterku áfengi
Þú getur auðvitað hafnað skýringum höfundar á þessum fyrirbærum en getur kannski boðið upp á aðrar í staðinn.
Kannski hegðar framboð og eftirspurn eftir morðum sér öðruvísi en það eftir bjór nema í ákveðnum lokuðum hópum, t.d. mafíunni eða ákveðnum frumbyggjasamfélögum. Það gæti orðið athyglisverð rannsókn.
Geir Ágústsson, 30.11.2019 kl. 06:38
Það er reyndar grundvallarmunur á vímuefnum og morðun, að bera þetta saman er eins og að bera saman innbrot og appelsínur finnst mér.
Alexander Smári Gjöveraa (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 13:43
Það fjölgar stöðugt fólki sem telur sig vera með umboð til að setja öðru fólki alls konar óþarfa reglur. Eftir töluverða rannsóknarvinnu af minni hálfu þá tók ég ákvörðun að kaupa CBD olíu á netinu. Viti menn, ég fékk póst frá póstinum um að ég væri að flytja inn ólöglegt efni og gáfu mér tvo valkosti.
1. Endursenda efnið.
2. Farga efninu.
Þetta efni hefur að því er virðist mikinn lækningamátt,er ekki vímuefni,engin fráhvarfseinkenni. En það er einhver ólafur læknir í VG sem telur sig ekki vita nægjanlega mikið um efnið til að ég fái að flytja það inn. (Ég er á sjötugsaldri). Er þetta í lagi?
Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 13:50
Fólk leitar valda og einfaldra "lausna."
Og fólk er svo einfalt að það ofureinfaldar allt þar til hvað sem viðfangsefnið er er orðið óþekkjanlegt.
Svo leggur það af stað við að ráðskast með eitthvað út frá klröngum forsendum, og tekur ekki í mál að nokkuð sé rangt við það sem þa gerir.
Svo á maður ekki að rífast við ríkisstarfsmenn. Í ríkið ráðast bara þeir sem falla á Turing-prófinu. Maður *smyglar.* Hvort sem efnið er löglegt eða ekki. Hvatinn er bara ekki fyrir hendi að fara rétta boðleið með nokkuð lengur.
Sjá það sém ég skrifaði að ofan.
Ásgrímur Hartmannsson, 30.11.2019 kl. 13:58
- Vímuefni sem eru bönnuð eiga það til að verða sterkari
- Boð og bönn á vímuefnum breytir neyslumynstri fólks, t.d. minnkar neyslu á bjór og eykur á sterku áfengi
Það að flestar vörur þróist bendir til þess að bann þurfi ekki til. Lyf, bílar, flugvélar, plastefni, tölvur, o.s.frv. hafa þróast meira og hraðar en hin bönnuðu vímuefni. Miðað við aðrar vörur er því ekki að sjá að bann hafi hraðað þróun vímuefna. Sterkustu og þróuðustu vímuefnin hafa verið afgreidd í apótekum en ekki húsasundum.
Tilgangurinn með boðum og bönnum á vímuefnum er að breyta neyslumynstri fólks og boð og bönn á vímuefnum breytir neyslumynstri fólks, t.d. minnkar áfengisbann neyslu á bjór, vínum og sterku áfengi. Verð breytist og framboð breytist og áfram verða samt einhverjir sem ekki hætta neyslu. Þeir sem ætla þrátt fyrir bann að verða fullir drekka frekar sterkara áfengi. En þeir sem vilja bjór með pizzunni eða rauðvín með steikinni fá sér ekki spíra.
Framboð og eftirspurn eftir morðum hegðar sér eins og annað. Bann minnkar framboð og eftirspurn. Bann útilokar ekki að morð séu framin, meira er reynt til að fela morðin og kostnaður við rannsóknir á þeim er margfaldur. Það gerir bannið samt ekki tilgangslaust eða skaðlegt.
Vagn (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 17:24
Vagn,
Þú ert greinilega að - eins og það kallast á fínu máli - að tala út um rassgatið á þér.
Geir Ágústsson, 30.11.2019 kl. 17:56
Það þarf víst ekki meira til að rústa rökum, útskýringum og annarri snilli sem þú setur á þína síðu. Og mitt rassgat mundi skammast sín mikið ef úr því kæmi eitthvað í sama gæðaflokki og kemur úr heila þínum.
Vagn (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 19:03
Vagn,
Hefur bann á efni í för með sér breytingar á hvötum?
Ef já: Hafa þær hvatir leitt til betri eða verri niðurstöðu fyrir samfélagið?
Geir Ágústsson, 30.11.2019 kl. 19:49
Bann á efnum er yfirleitt sett til að lágmarka skaða. Bannið hefur þau áhrif og leiðir til betri niðurstöðu fyrir samfélagið. Afleiðingin er minni skaði þó ekki sé fullkomlega komið í veg fyrir allan skaða.
Hvatir eru tilfinningar og langanir. Þú þarft ekki að láta undan öllum hvötum og bönn koma ekki í veg fyrir hvatir. Þú pissar ekki þar sem þú stendur þó þér sé mál. Og þó þig langi til að setja bílinn í 200 þá veist þú að það er bannað og þú sleppir því. Bannið hefur ekki breytt hvötunum en það kemur oftast í veg fyrir að þú látir undan þeim eins og skynlaus skepna. Samfélag þar sem þú pissar ekki um öll gólf og ekur ekki eins og þú sért einn í heiminum er betra samfélag. En hvatirnar sjálfar hafa hvorki leitt til betri eða verri niðurstöðu fyrir samfélagið. Samfélaginu er alveg sama um það hvort þig langi til að gera eitthvað.
Vagn (IP-tala skráð) 30.11.2019 kl. 23:02
Vagn,
Núna skil ég betur þína sýn á samfélagið og stjórnmál. Takk fyrir það.
Geir Ágústsson, 1.12.2019 kl. 05:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.