Miðvikudagur, 25. september 2019
Fóstruríkið
Ímyndaðu þér barn á ungbarnaleikskóla.
Allt innandyra er öruggt, handföngin eru hátt uppi og engin hvöss horn eru á borðum. Sérhæfðir starfsmenn elta krakkana allan daginn og grípa þá ef þeir detta.
Viljum við að allt samfélagið sé innréttað á sama hátt?
Allt sem er hugsanlega hættulegt er þá bannað. Allt sem gæti leitt okkur á ófyrirsjáanlegar brautir er lokað.
Þú færð ekki að smíða skúr því þú gætir meitt þig. Nei, fáðu til þess iðnaðarmann sem notar þykka hanska.
Þetta er slæm þróun en um leið ein meginástæða þess að eftirlitsbáknið þenst út á Íslandi, með ærnum tilkostnaði en vafasöfum ávinningi.
Helgi í Góu sagði einu sinni í viðtali orð sem hafa fengið mig til að sjá samfélagið öðruvísi allar götur síðan:
"Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin."
Maðurinn var sem sagt að opna stað sem djúpsteikir kjúkling samkvæmt eldgamalli hefð sem hann er með mikla reynslu í að framkvæma.
Sjálfur hef ég orðið vitni að því hvernig eftirlitsbáknið knésetta litla fiskbúð sem kom sér aldrei á flug eftir að hafa eytt stórfé í breytingar að tillögum hinna ýmsu eftirlitsstofnana (stundum mótsagnarkenndum).
Sem betur fer hefur aðeins borið á umræðu um eftirlitsbáknið undanfarið. Það hefur vaxið risaskrefum seinustu árin og má hæglega trappa niður aftur án neikvæðra afleiðinga.
Svo má ekki gleyma því að það sem er ekki bannað eða er ekki leyfisskylt þarf ekki opinbert eftirlit. Að afnema boð og bönn er því fljótleg leið til að minnka eftirlitsbáknið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í lang flestum tilfellum er verið að passa að þú skaðir ekki aðra. Þér er bannað að selja barnaleikföng með litlum lausum hlutum sem gætu skaðað börnin en það er ekkert sem bannar þér að berja þig í hausinn með hamri. Þú mátt sjóða þér úldna rottu í skólpi en færð ekki að selja öðrum matvæli nema gæta fyllsta hreinlætis.
Vagn (IP-tala skráð) 25.9.2019 kl. 08:09
Vagn,
Þú bregst mér aldrei.
Í fyrsta lagi er viðmiðið "má ekki selja það sem skaða aðra". Hvar ætlar þú að draga mörkin? Við hið margrannsakaða og skaðlausa virka efni í marijuana? Við harða dýrafitu? Við hnetur? Það sem er slæmt fyrir einn er það ekki endilega fyrir annan. Marijuana veitir sumum vímu, sumum syfju og öðrum aukna matarlyst.
Í öðru lagi varstu í fyrri þræði að tala fyrir áfengisbanni og vímuefnabanni. Áfengi er rækilega merkt og áhrifin eru afskaplega fyrirsjáanleg. Er betra að fólki bruggi spíra í eigin klósetti en kaupa hreina framleiðsluvöru?
Í þriðja lagi er ég viss um að Helgi í Góu hafi gætt alveg jafnmikils hreinlætis á tímum gamla fyrirkomulagsins (menn opna og sæta eftirliti) og hins nýja (ekkert má opna fyrr en báknið hefur fengið leyfin sín). Kannski hlær samt að þessu, því dýr startkostnaður heldur samkeppni í skefjum við hans keðjur.
Í fjórða lagi virðist bara alls ekki vera í lagi að eitra fyrir sjálfum sér. Eða hvar eru kannabisplöntur íslensku neytendanna? Eða ópíumplönturnar? Eða kókaínlaufin? Þvert á móti er svarti markaðurinn einráður á svo mörgum sviðum að það blasir við að ekkert sé leyft nema vera sérstaklega löglegt.
Í fimmta lagi ertu hér að tala fyrir fóstruríkinu: Að það sé eitthvað bákn (sem þú treystir í blindni á) sem getur girt fyrir allar holur. Er blindur neytandi betri en sá sem er vakandi? Eða kíkir þú aldrei á dagsetningar á mjólkurfernum, svona til öryggis?
Geir Ágústsson, 25.9.2019 kl. 09:21
" Marijuana veitir sumum vímu, sumum syfju og öðrum aukna matarlyst. " En eykur hættu á heilsu og geð tengdum sjúkdómum og fjölgar hættulegu fólki í umferðinni. Samt er ekkert sem bannar þér að vera í vímu.
" Er betra að fólki bruggi spíra í eigin klósetti en kaupa hreina framleiðsluvöru? " Já, þeir eru færri sem skaðast en ef ekkert bann væri. Það er eitt af því sem bannárin sönnuðu. Við bönnum hraðaakstur, ekki vegna þess að við höldum að allir aki þá eins og hraðareglur segja heldur vegna þess að þeir fáu sem þá aka eins og fífl valda minni skaða en ef allir ækju eins og fífl.
Traust þitt á hreinlæti Helga í Góu verður seint grundvöllur fyrir afnámi heilsuverndarreglna. Það er nokkuð seint að ætla að krefjast lagfæringa þegar 100 manns eru lagstir inn á sjúkrahús með matareitrun. Slóðar og sóðar eru nógu margir til að kjörnir fulltrúar fólksins settu skoðun fyrir sölu til almennings í lög.
"Eða hvar eru kannabisplöntur íslensku neytendanna? Eða ópíumplönturnar? Eða kókaínlaufin?" Það mætti sennilega slaka þar á fyrir einbúa sem ekki umgangast annað fólk og tryggt er að enginn annar en eigandinn hafi aðgang að afurðunum. En þjóðfélagið, almenningur, hefur ekki sýnt því neinn áhuga og í lýðræðisríkjum færð þú ekki að haga þér eins og þú sért einn í heiminum.
"Eða kíkir þú aldrei á dagsetningar á mjólkurfernum, svona til öryggis?" Jú, og vegna eftirlits og reglna þá treysti ég því að dagsetningin sé rétt og að ekki sé berklasmit í mjólkinni. En kúamjólk var ein helsta smitleið berkla fyrir tilkomu eftirlits með heilsu kúa. Bændur seldu mjólkina þó kýrnar væru svo veikar að þær stóðu ekki. Það eru ekki allir Helgi í Góu.
Vagn (IP-tala skráð) 25.9.2019 kl. 10:31
Sem betur fer ertu ekki að lýsa raunveruleikanum. Ég leyfi þér því að eiga þínar hræðslusögur og líf í ótta í friði.
Geir Ágústsson, 25.9.2019 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.