Miðvikudagur, 3. apríl 2019
Íslendingur í Danmörku
Íslendingar láta ýmislegt yfir sig ganga á meðan þeir eru á Íslandi. Þeir virðast líka vera hlynntir því. Þeir vilja láta stjórnmálamenn girða sig inni og skammta sér hitt og þetta. Íslendingar virðast vilja borga ofan í botnlausa hít sem ræður ekki við verkefni sín. Grunnskólar og heilbrigðisþjónusta Íslendinga eru meðal dýrustu slíkra stofnana í heimi en afköstin oftar en ekki vonbrigði.
En svo kemur Íslendingurinn til útlanda og kemst tímabundið út fyrir girðingarnar á Íslandi. Það er oft kátleg sjón. Íslendingur sem stígur út úr flugvél á Kaupmannahafnarflugvelli er eins og krakki í nammibúð og æðir í næstu sjoppu til að kaupa sér bjór.
"Vá, það má selja bjór í búðum! En þægilegt!"
Íslendingurinn drekkur sig fullan og klárar sitt frí, sest í flugvél, lendir á Íslandi, "kaupir tollinn" og gengur aftur inn í girðingar hins opinbera þar sem hann verður meðhöndlaður eins og ofvaxið smábarn, og er fullkomlega sáttur við það.
Það eru til trúarbrögð sem boða að lífið eigi að vera þjáningar. Sé það of auðvelt er það um leið orðið syndsamlegt en sé það erfitt þá bíði gott framhaldslíf eftir dauðann. Kannski hafa Íslendingar þróað með sér svipað hugarfar sem segir að ef lífið á Íslandi er kvöl og pína þá verði fríið í útlöndum þeim mun betra?
Costco efnir til verðstríðs á bjórmarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvað ætli myndi gerast ef ný tilskipun kæmi frá ESB um samkeppni á áfengismarkaði? Leggja yrði ÁTVR niður og leyfa fólki að opna vínbúðir?
Jú, SDG færi í pontu (eins og hann gerði í gær út af hinu hræðilega útlenska eitraða kjöti) og segði: "Hér er um fullveldismál að ræða. Og í fullveldismálum lúffar maður ekki".
Maður hefur stundum á tilfinningunni að í huga sumra manna snúist fullveldi um "fullveldi" stjórnmálamanna yfir almenningi, en ekki "fullveldi" einstaklinganna yfir sjálfum sér.
Og á bak við allan vaðalinn vakir hin endanlega röksemd fyrir boðum og bönnum (aðallega bönnum) eins og hlakkandi hrægammur yfir hálfdauðu einstaklingsfrelsinu - LÝÐHEILSAN sjálf í öllu sínu veldi!
Þorsteinn Siglaugsson, 3.4.2019 kl. 15:59
Það hefur margoft komið fram í könnunum að Íslendingar vilja halda í einokun ÁTVR. Þar er því ekki um neitt ofríki stjórnmálamanna að ræða. Þvert á móti reyna þeir á hverju ári að koma áfengi i búðir án árangurs.
Þessi afstaða meirihluta Íslendinga byggir á skynsemi. Reynsla erlendis frá sýnir að betra aðgengi að áfengi eykur neysluna og þar með áfengisvandann. Það hefur i för með sér mikið böl og gríðarlegan kostnað fyrir þjóðarbúið.
Engin rök eru fyrir því að fella niður ríkiseinokunina. Rökin um aðgengi að hvítvíni með humrinum á sunnudagskvöldi er hægt að leysa með breytingu á opnunartíma ÁTVR ef það er talið brýnt.
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.4.2019 kl. 17:50
Það er ofríki stjórnmálamanna þegar þeir meina fólki að aðhafast það sem það sjálft kýs. Og ofríkið er engu betra þótt aðrir styðji það. Frelsi er frelsi einstaklingsins til athafna. Ekki frelsi annarra til að banna honum þessar athafnir.
Þorsteinn Siglaugsson, 5.4.2019 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.