Sunnudagur, 17. febrúar 2019
Hugleiðingar um neyslu og gróða
Nína Guðrún Geirsdóttir skrifar þarfar hugleiðingar um neyslu, nýtni og nægjusemi. Þær eru að mörgu leyti góðar. Það er rétt að margir kaupa meira en þeir þurfa, eða kaupa nánast til þess eins að kaupa. Mörg fyrirtæki eru rekin í kringum þá hugsun að við þurfum endalaust að vera endurnýja. Slíkt kostar auðlindir og leiðir oft til sóunar. Að hugsa málið aðeins og kaupa minna og velja betur er því alveg ágætt markmið, í sjálfu sér.
En þá kemur að hagfræðinni. Þar þurfa menn að vanda sig aðeins. Gróði, eða hagnaður, er ekki bara góður heldur beinlínis nauðsynlegur. Hagnaður segir fyrirtæki að það sé að sinna þörfum neytenda. Fyrirtæki sem skilar tapi er ekki að standa sig og sóar þar með fé eigenda sinna eða lánadrottna í vitleysu. Neytendur eru beinlínis ósammála fyrirtækinu í vali þess á framboði og þjónustu og slíku fyrirtæki þarf að loka.
En af hverju eyða neytendur í vitleysu og taka jafnvel lán fyrir slíkri eyðslu í stað þess að leggja fyrir, kaupa vandaðri hluti sem endast lengur og fjárfesta meira?
Neytendur eru drifnir áfram af því sama og drífur áfram allar lifandi verur: Hvötum. Hvatar geta breytt neytanda í fjárfesti, og öfugt. Ef það borgar sig betur að leggja fyrir og byggja upp sjóð en kaupa nýja en lélega ferðatölvu á hverju ári þá hefur það áhrif. Ef sá skuldsetti getur alltaf búist við því að verða bjargað af stjórnmálamönnum þegar skuldir hans verða óyfirstíganlegar þá heldur hann áfram að safna skuldum. Ef seðlabankar rýra í sífellu innistæður bankareikninga (t.d. með því að halda úti markmiði um ákveðna lágmarksverðbólgu) og halda vöxtum á sparifé lágu þá leggur fólk minna fyrir.
Við getum róleg huggað okkur við það að jörðin er ekki komin að einhverjum endimörkum. Um leið getum við velt því fyrir okkur hvaða langtímaafleiðingar fylgja því að verðlauna í sífellu neyslu og refsa fyrir ráðdeild. Er þá stærð ruslahauganna kannski meðal mildustu afleiðinganna.
Neysluhyggjupælingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.