Gefum unglingunum áfengi

Íslenskir unglingar eru nánast hættir að drekka áfengi. Þessu hefur verið slegið upp í erlendum fjölmiðlum. Borgarstjóri hefur sagt frá því í viðtölum og jafnvel hreykt sér af þessu. Allskyns samtök hafa lýst yfir ánægju sinni.

Unglingadrykkja var jú algjört böl, er það ekki?

Unglingar í dag hreyfa sig meira, borða hollar, drekka minna og eru meira í skóla en jafnaldrar þeirra fyrir 20 árum síðan.

Um leið eru þeir einmana, daprir og þunglyndir. Og þeir sofa alltof lítið.

Þeir fara minna út úr húsi og einangra sig á svokölluðum samfélagsmiðlum.

Þeir mæta í skólann og á skipulagðar æfingar en gera lítið saman þess á milli. 

Það ætti kannski að gefa þessum heilbrigðu og edrú unglingum svolítið áfengi.

Þá halda þeir partý og hittast og kyssast og knúsast og rífast og kynnast á annan hátt en í gegnum textaskilaboð og táknasendingar. Þeir læra þá kannski að fara á trúnó og losa sig við eitthvað af einmanaleika sínum, þunglyndi og depurð.

Mörgum finnst frábært að unglingarnir hangi heima í skjá öll kvöld og sýni engan áhuga á áfengi og partýum. Sem stjúpfaðir 14 ára unglings sé ég alveg kostina í slíku. 

En kannski er þetta ömurlegt og óheilbrigt í raun. Kannski ætti ég að gefa stráknum sinn fyrsta bjór þegar hann verður 15 ára gamall (áfengiskaupaaldurinn í Danmörku) og keyra hann í partý.


mbl.is Foreldrar senda röng skilaboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Danir eru umkringdir flatneskju. Komast ekki á skíði eða í spennandi útilíf í bakgarðinum? Miklu skiptir fyrir fjölskyldu og unglinga að getað eytt frístundum saman. Vegna veðurs er það ekki alltaf hægt á Íslandi, en það reynist farsælt fyrir fjölskyldur að erfiða saman. Þáttur af bændasamfélagi sem nú er að hverfa vegna nýrra tækni.

Dönsk eða amerísk partýdrykkja held ég að sé ekki besta fyrirmyndin. Deyfa og djöflast?

Sigurður Antonsson, 13.1.2019 kl. 08:05

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Mín upplifun af Dönum er sú að þeir drekka oftar og minna í einu en Íslendingar. Við sérstök tækifæri sleppa þeir svo alveg að hætti Íslendinga (brúðkaup, julefrokost, stórafmæli).

Geir Ágústsson, 13.1.2019 kl. 11:24

3 identicon

Lausn þín er semsagt í gegnum áfengi. Öldum saman hafa menn haldið að þeir væru að leysa eitthvað með áfengi. Höfðu jafnrangt fyrir sér þá sem nú. 

jon (IP-tala skráð) 13.1.2019 kl. 15:10

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég velti því bara fyrir mér hvað hefur komið í staðinn fyrir hangsið í sjoppunni og partýin. Tölvuskjáir, samfélagsmiðlar og einvera með tilheyrandi depurð og þunglyndi?

Geir Ágústsson, 13.1.2019 kl. 15:32

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

"Ég velti því bara fyrir mér hvað hefur komið í staðinn fyrir hangsið í sjoppunni og partýin. Tölvuskjáir, samfélagsmiðlar og einvera með tilheyrandi depurð og þunglyndi?"

Geir, það er stundum kallað capítalismi. 

Magnús Sigurðsson, 13.1.2019 kl. 19:16

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús,

Það væri gróf afbökun á orði sem hefur allajafna skýra merkingu í huga fólks, og jafnvel einfeldingslega. 

Krakkar eru miklu frekar fastir. Þeir mega í fæstum tilvikum vinna svo einhverju nemur, og hafa að auki lítinn tíma til þess vegna allrar viðverunnar sem er krafist af þeim til að troða í þá svolítinn lærdóm.

Þeim er kennt að það sé í lagi að hangsa sig í gegnum skólaárin því ef þeir misstíga sig mun kerfið grípa þá. 

Ekki læra meiri stærðfræði. Farðu frekar í lífsleikni.

Ekki hafa áhyggjur af prófunum og þróa með þér stress og áhyggjur. Þú getur alltaf tekið þau aftur seinna.

Slakur námsárangur er ekki þér að kenna heldur kennara þínum sem bara getur ekki útskýrt námsefnið.

Þú ert ekki sjálfráða fyrr en þú ert 18 ára gamall/gömul. Þú ert ósjálfbjarga barn sem þarft samþykki foreldra þinna en getur um leið treyst því að þeir sópi gólfið fyrir framan þig svo þú rekist aldrei á hindranir.

En já, kapítalisminn er drifkraftur tækninýjunga og afþreyingar, það er rétt. En kannski velferðarkerfið hafi búið til of mikið pláss til að vera haugur og komast upp með það.

Geir Ágústsson, 13.1.2019 kl. 20:28

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Jæja, hér hræri ég mörgu saman í einn graut.

Það hafa allir gott af því að fara út úr húsi og hitta annað fólk. Kannski það megi minna unglingana á það, jafnvel þótt það þýði að þau stelist til að gera eitthvað sem blettar einhverja tölfræði.

Geir Ágústsson, 13.1.2019 kl. 20:30

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Samhrærist þér Geir, þú ert nánast farinn út um þúfur með upphaflega bloggið, þú varst nefnilega ekki að tala um láta þau vinna, heldur hella í þau áfengi til að gera þau félaghyggnari :) 

Magnús Sigurðsson, 14.1.2019 kl. 14:25

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Líst mjög vel á áfengið. En hvað með dóp Geir? Er ekki sniðugt að unglingarnir fái svolítið dóp líka? Þá verða þeir ennþá hressari.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.1.2019 kl. 14:59

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Þorsteinn,

Tjah.

Geir Ágústsson, 14.1.2019 kl. 17:34

11 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ritalín gerir fólk bæði félagslyndara og gáfaðara.

Ég persónulega held mig frá öllu slíku.  Að læknisráði.

Grunar mig samt, að öllu gamni slepptu, að unglingar fari bara minna út en áður.  Þeir þurfa þess ekki.

Út, þar sem eru slagsmál, og hugsanlega aðrir, friðsamari hlutir að ske.

Ásgrímur Hartmannsson, 14.1.2019 kl. 18:18

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Finnst lækninum þínum þú of félagslyndur og gáfaður fyrir rítalínið Ásgrímur? Eða er hann bara meira fyrir einræna og illa gefna sjúklinga?

Þorsteinn Siglaugsson, 14.1.2019 kl. 18:31

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Rítalín er nútímadóp. Einu sinni smakkað, getur ekki hætt (eins og með Pringles-snakkið). Það er talið betra að dópa strákana en veita þeim útrás.

Geir Ágústsson, 14.1.2019 kl. 19:57

14 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ritalín er tilkomið vegna þþess að kókaíner ólöglegt.

Má ekki taka neitt því líkt - ekki einu sinni orkudrykki, útaf veseni.  Meðfætt.  Nenni ekki uppá spítala oftar en ég þarf.

Ásgrímur Hartmannsson, 14.1.2019 kl. 21:43

15 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Með skemmtilegri og athyglisverðari pistlum og ekki sýst athugasemdum, í langan tíma. 

 "Fátt er ungum drengjum hollara, en að missa móður sína" reit Nóbelskáldið. Aldrei skilið þessa fullyrðingu hans. Hann týndi hundi og var alveg "niður"sín.

 Skildi hinsvegar eftir fyrsta fylleríið mitt að fátt er meira vandfarið með, en áfengi. "Ég drekk til að gleyma því að ég er alkóholisti" sagði eitt sinn við mig einhver skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. (Hann minnkaði reyndar drykkjuna til muna, með árunum, en er enn þann dag í dag algert "sjéní" og drekkur enn, þó í hófi sé.)

 Það þarf að leyfa ungum drengjum og stúlkum að feta lífsins stigu upp á sitt einsdæmi, eftir að vissum aldri er náð. Svona sirkabát 16-20. Upp að vissum mörkum, að sjálfsögðu. Sumum verður á og ná sér aldrei á strik, en flest "plumma" þau sig déskoti vel, eins og gengur og hefur gengið um aldir alda. Þau sem sitja fyrir framan tölvu 24-7 gengur illa í dag og við því þarf að bregðast. 

 "Snjalltæknin" er sennilega mesta böl, sem lagt hefur verið á æskuuna, en um leið auðveldasta leið foreldra til að taka litla sem enga ábyrgð og velta öllum skuldbindingum gagnvart börnum sínum á  Ríkið. Það á jú að skaffa lyfin, þeim að kostnaðarlausu, fyrir börn óhæfra foreldra.

 Hvernig væri að taka ærlega í rassgatið á ömurlegum foreldrum, svona til tilbreytingar? 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 15.1.2019 kl. 02:49

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Halldór,

Ég er sammála skoðun þinni á athugasemdunum hér.

Ekki gleyma því að kennarar hafa líka tekið snjalltæknina upp á sína arma og þrýsta nú á að fá eins marga skjái inn í kennslustofuna og hægt er. Þar flakka börn á milli forrita - sum til kennslu og önnur ekki - og laumast svo á Youtube þegar kennarinn er andlega víðsfjarri, enda óþarfur með öll þessu forrit í gangi.

Geir Ágústsson, 15.1.2019 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband