Fimmtudagur, 29. nóvember 2018
Gáfað fólk að segja heimskulega hluti
Fólk segir ýmislegt þegar það er meðal trúnaðarvina, jafnvel ýmislegt sem enginn annar fær að heyra. Það er eðlilegt og skiljanlegt.
Stundum eru þetta heimskulegir hlutir. Ég segi t.d. ekki sömu brandara við hvern sem er. Ég kann brandara sem virkar bara meðal verkfræðinga og annan sem virkar bara í hópi gagnkynhneigðra karlmanna og enn annan sem virkar best fyrir kvenkyns áheyrendur og svo kann ég nokkra brandara sem krökkum finnst fyndnir.
Það á enginn að hlera samræður trúnaðarvina viljandi. Það er ókurteisi. En í tilviki nokkra einstaklinga í íslenskum stjórnmálum var þetta samt gert og auðvitað er það fréttnæmt. Blaðamönnum hefur tekist vel upp að mínu mati að sía út það sem snýr að einstökum persónum og fjalla bara um það sem má telja að varði almenning.
Og hvað er hægt að læra af samræðum þessara einstaklinga?
Í fyrsta lagi eru þarna á ferðinni nokkuð óheflaðir dónar. Þó get ég ekki lofað því að vera eitthvað skárri í ákveðnum félagsskap.
Í öðru lagi virðast hrossakaupin fara fram með nákvæmlega sama hætti og ég hafði ímyndað mér, þvert á alla stjórnmálaflokka. (Ég mun seint skilja þá sem vilja að ríkisvaldið sé risastórt og hafi úr að spila miklum fjármunum og mörgum vel launuðum störfum sem stjórnmálamenn skipta sín á milli yfir bjórglasi.)
Í þriðja lagi virðist fólk ekki breytast í saklausa engla við það eitt að fara í stjórnmál. Þetta kemur kannski mörgum á óvart, sérstaklega þeim sem falla fyrir þeim glansmyndum sem fjölmiðlafulltrúar mála af hinu opinbera.
Í fjórða lagi hefur mönnum nú verið kennd lexía. Þeir sem ætla að tala opinskátt gera það núna í lokuðum bakherbergjum. Aldrei aftur munu upptökur af þessu tagi koma fram á sjónarsviðið. Allir sem sluppu að þessu sinni geta upphafið sjálfa sig á kostnað þeirra sem náðust á upptökuna.
Almenningur fékk þarna sjaldgæfa innsýn inn í það sem fer raunverulega fram þegar yfirherrar okkar hjá hinu opinbera hittast og ræða saman. Sjaldan hef ég séð betri rök fyrir því að ríkisvaldið þurfi að minnka mjög mikið, mjög hratt. Leyfum þessu liði að reyna spjara sig á frjálsum markaði þar sem orð hafa afleiðingar frá degi til dags, en ekki bara á fjögurra ára fresti!
Maður bara varð sér til skammar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Máltækið segir: "Aðgát skal höfð í nærveru sálar".
Í Heilagri ritningu er fjallað um þann sem allt sér, allt heyrir og allt veit, jafnvel hugsanir okkar.
Í 141.Davíðssálmi segir "Set þú Drottinn vörð fyrir munn minn og gæslu fyrir dyr vara minna, lát hjarta mitt eigi hneigjast að neinu illu, að því að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum og lát mig eigi eta krásir þeirra". Mætti þetta vers vera bæn okkar allra alla daga, ekki veitir okkur af.
Í Jakobsbréfi segir um tunguna: "Tungan er ranglætisheimur á meðal lima vorra, hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti". Það færi betur að við temdum okkur að hafa Guðs Orð á vörum okkar og láta það leiða okkur í orði og verki.
Tómas Ibsen Halldórsson, 29.11.2018 kl. 16:11
Mér finnst nú afskaplega lítið fara fyrir gáfunum hjá þessu fólki! Þetta MUN koma fyrir aftur og fólk lærir ekki af svona "mistökum", því einu mistökin sem þau sjá er að þau náðust á upptöku! Í næsta skipti verður þetta bara minna mál. Þetta fólk á ekkert erindi á Alþingi, sem fulltrúar þjóðarinnar. Það á að sjá sóma sinn og segja af sér og hverfa af vetfangi stjórnmála.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 29.11.2018 kl. 17:59
Halda menn að upptakan hafi fyrir tilviljun náðst af eina óvarfærna samtali þingmanna? Ég held að þetta spjall hafi verið dæmigert. Annars staðar gera menn grín að Sigríði Andersen og uppnefna Bjarna Ben og gera hrossakaup.
Lexían ætti að vera að stjórnmálamenn eru of öruggir um sig í ríkisjötunni.
Geir Ágústsson, 29.11.2018 kl. 18:11
Ég náði að lesa fyrstu eða kanski í gegnum aðra paragraph, og siðan geyspaði ég ... golunni.
Oj, aumingja kerlingableiðurnar ... alltaf að tala illa um þær, við verðum að vera góðir við þær og leifa þeim, það sem við leifum engum öðrum.
*rop* bull
Örn Einar Hansen, 29.11.2018 kl. 20:09
Skyldi Sigmundur Davíð vera fyrirmynd Trump í pólitík.
Hatur Trump á fjölmiðlum á sér hliðstæðu í háttsemi SDG í forsætisráðherratíð hans. Ef marka má talsmann Miðflokksins hefur þessi uppákoma leitt til mikils fjölda stuðningsyfirlýsinga við flokkinn en aðeins tveir hafa sig sig úr honum. Þetta á sér hliðstæðu hjá Trump enda hafa álíka ummæli ekki haft nein áhrif á stuðning við hann.
Er þetta einkenni hægri öfgamanna? Gera þeir engar siðferðiskröfur?
Ásmundur (IP-tala skráð) 29.11.2018 kl. 20:31
Hvað næst hjá vinstrimönnum Stundarinar, Sigmundur Davíð í falinni myndavél á klóinu?
Maður vissi náttúrulega að kommunum er illa við Sigmund og aðra Miðflokksmenn, en að leggjast í þá fyrirhöfn að hlera einkasamtöl til opinberrar birtingar var meira en maður gat búist við, sem segir manni að lágkúrunni séu engin takmörk sett.
Eina sem eftir situr, án þess að hafa hlustað á einkasamtöl, sem eiga að vera einkasamtöl, er ".. where is Valdo" formaður Samfylkingar og að Páll Magnússon sé letingi. Það fyrra bráðfyndið, og það seinna satt.
Hilmar (IP-tala skráð) 29.11.2018 kl. 20:56
Tómas Ibsen, það er annað sem stendur í Ritninguni: "sá yðar sem syndlaus er, kastið fyrsta steininum".
Ég get bókað það að 90% þeirra sem kvarta og hneykslast yfir þessu á netinu hafi sagt eithvað svipað í sínum persónulegu einkasamræðum. En núna gefst þeim tækifæri að rembast og sýna öllum hversu réttsýn þau eru með því að ráðast á þessa menn yfir þessum hégóma, í stað þess að tala um málefnin að einhverju viti. En eins og Íslendingar hafa sýnt oft áður, þá er hneyksli og rembingur það sem er best til þess fallið að fá fólk til að athafna sig.
Ásmundur, það er munur á siðferðisbresti og smekkleysu. Það sem þessir menn sögðu var tvímælalaust smekkleysa. Að hlera einkasamræður er hins vegar siðferðisbrestur. Aukinheldur eru Miðflokksmenn ekki "öfgamenn", og fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir gagngrýni.
Egill Vondi, 29.11.2018 kl. 21:10
Okkur kemur við hvernig kjörnir fulltrúar haga sér á opinberum vettvangi. Það er því ekkert athugavert við það ef einhver verður vitni að svona umræðum að hann telji að þær eigi erindi við almenning og hljóðriti þær.
Árásir Trump og SDG á sínum tíma á fjölmiðla er ekki gagnrýni enda að mestu ómarktækar. Trump og SDG eiga einfaldlega erfitt með að sætta sig við málefnalega gagnrýni fjölmiðla og ráðast því á þá.
Ásmundur (IP-tala skráð) 29.11.2018 kl. 22:31
Svo leynilegar hljóðritanir eru eðlilegar? Og hvar endar sá vegur?
Alltént: þú svaraðir þó ekki því hvort þú værir sammála því hvort að 90% þeirra sem kvarta og hneykslast yfir þessu á netinu hafi sagt eithvað svipað í sínum persónulegu einkasamræðum.
Gagngrýni fjölmiðla hefur ekki alltaf verið málefnaleg. Það er ekki að ástæðulausu að traust almennings á fjölmiðlum þar vestra er í algeru lágmarki. En Íslendingar eru bláeygir og lifa í vernduðu umhverfi, og þess vegna treysta þeir ennþá fjölmiðlum sínum. Ef til vill breytist það í náinni framtíð, það má að minnsta kosti alltaf vona.
Egill Vondi, 30.11.2018 kl. 00:24
Arnór,reiknarðu virkilega með að greina gáfnafar hjá ölvuðum karlahópi,?
Ásmundur,hvað er að því að sætta sig ekki við gagnrýni fjölmiðla,þegar hún er beinlínis röng?
Það má þá frekar bera það á Trump að hann ráðist á fjölmiðla vestra,enda fitja þeir upp á lygaáróðri sem hefur margoft sannast að er fjarstaða.
Geir að vera maður er akkurat svona,að lifta sér upp vera nokkuð hömlulaus í glettninni þegar maður er með sínum og hneysklar engan.
Helga Kristjánsdóttir, 30.11.2018 kl. 06:22
Vandinn er að þegar þetta lið á að fara að reyna að spjara sig á frjálsum markaði gengur það ekki sérlega vel. Það vill þá enginn í vinnu.
Þorsteinn Siglaugsson, 30.11.2018 kl. 09:50
Það er af og frá að 90% fólks eigi það til að haga sér eins og Gunnar Bragi og Bergþór gerðu þarna. Ég held að það sé langt innan við helmingur. Auk þess verður að gera meiri kröfur til alþingismanna en flestra annarra vegna þeirrar ábyrgðar sem fylgir starfi þeirra.
Helga, Trump og SDG sætta sig ekki við réttmæta gagnrýni. Þeir rugla saman skoðunum og staðreyndum og telja eigin sérkennilegu skoðanir staðreyndir. Staðreyndir og skoðanir annarra eru "fake news".
Ásmundur (IP-tala skráð) 30.11.2018 kl. 11:11
Því miður helg ég þú hafir rétt fyrir þér Egill í ávarpi þínu til mín hér að ofan. Okkur öllum veitir ekki af að gæta tungu okkar og ættum frekar að nota hana til að vegsama Drottinn Guð. Okkur færi betur á því.
Tómas Ibsen Halldórsson, 30.11.2018 kl. 12:35
Allir fullorðnir einstaklingar eiga að vera ábyrgir fyrir orðum sínum, hvort sem það er í góðra vina hópi eða á almannafæri.
Það voru þeirra mistök að tala of hátt á almennu svæði. Upp komst um skoðanir og hugsanir sem voru aldrei ætlaðar almenningi. Ekki er von á því að þessir einstaklingar eigi mikinn frama fyrir sér innan hins opinbera. Það er gott. Kannski fréttamenn eigi að reyna ná fleiri stjórnmálamönnum á upptöku og flæma þá út úr opinberum embættum sem þá má leggja niður?
Geir Ágústsson, 30.11.2018 kl. 12:46
Við nánari athugun hlýt ég að komast að því að það er rétt hjá Ásmundi að 90% manna hafa ekki sagt svona - þetta hélt ég áður vegna þess að ég hafði einungis séð/heyrt lítinn hluta þess sem sagt var, og áttaði mig ekki á því hversu mikið efnið var.
Er þó ekki að taka til baka það sem ég sagði um fjölmiðla og internet múgæsing almennt.
Egill Vondi, 30.11.2018 kl. 18:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.