Verkalýðshreyfingin og sjálfvirknivæðingin

Sjálfvirknivæðingin er á fullri ferð. Hún verður ekki stöðvuð. Í stað afgreiðslumanns kemur snertiskjár. Í stað kokksins kemur hamborgaravélin. Í stað ritarans kemur símsvari. Í stað þjónustufulltrúans kemur háþróaður hugbúnaður sem greinir vandamál þín.

Margir hafa áhyggjur af þessari þróun og tala um að sumir hópar geti bráðum ekki fundið sér vinnu. Það þarf ekki að óttast. Fólk getur sótt sér endurmenntun. Ungt fólk undirbýr sig fyrir framtíðina þar sem hinir mannlegu hæfileikar verða ekki sjálfvæddir. Hér má nefna útsjónarsemi og nýsköpun. Vélar eru hannaðar með ákveðin hlutverk í huga. Um leið og þarf að endurhugsa það hlutverk þarf mannshugurinn að koma til sögunnar. Enn sem komið er að minnsta kosti.

Þessi sjálfvirkniþróun verður ekki stöðvuð, en það má flýta henni.

Í Bandaríkjunum hafa sum ríki sett á lögbundin lágmarkslaun sem eru svo há að fyrirtæki hafa annaðhvort þurft að tæknivæðast í hvelli eða loka rekstri sínum. Á einum stað segir t.d. svo frá:

These added costs give employers with already slim profit margins a strong incentive to automate or embrace self-service. In an interview with Forbes, the founder of a delivery robot company linked his product’s value proposition to a rising minimum wage: “At something like $10 per delivery, the majority of citizens will not use [human delivery]. It’s too expensive.”

Það er gott mál að sjálfvirkni er að breiðast út. Það losar um hendur sem geta gert eitthvað annað og meira verðmætaskapandi. Það er hins vegar slæmt ef verkalýðshreyfingin er að flýta þessari þróun svo mikið að fólk nær ekki að aðlagast breyttum veruleika og sér fram á atvinnuleysi til lífstíðar.


mbl.is Hærri laun fækka störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvað kemur í stað Hildar Lindalh en hún er dugleg við að koma körlum frá störfum  http://www.visir.is/g/2018181009314/sagt-upp-hja-borginni-adur-en-hann-byrjadi

Borgari (IP-tala skráð) 23.10.2018 kl. 14:16

2 identicon

Krafa verkalýðshreyfingarinnar um styttri vinnuviku samræmist vel sjálfvirknivæðingunni. Vinnan minnkar með aukinni sjálfvirkni og ef vinnutíminn minnkar ekki mun atvinnuleysi aukast.

Annars ættu kröfur verkalýðshreyfingarinnar fyrst og fremst að beinast að meiri jöfnuði og lægri húsnæðiskostnaði, einkum leigjenda. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að það sé miklu dýrara að leigja en kaupa þó að horft sé framhjá eignaaukningu þess sem á íbúð. Það er einfaldlega galið.

Jöfnuði er hægt að ná með lækkun launa hinna hæst launuðu og breytingu á skattþrepum. Það er auðvitað fráleitt að menn þurfi  að greiða verulegan hluta lægstu launa í skatt. Það þarf því að hækka skattleysismörkin verulega og hækka skatt á tekjur yfir meðaltekjum með nokkrum skattþrepum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.10.2018 kl. 19:42

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það getur auðvitað hver sem er stytt vinnuviku sína, t.d. gegn því að lækka í launum. Ég á góðan vin sem gerði þetta einmitt þegar hann vildi vera meira heima. Síðan lengdi hann vinnuvikuna aftur. Þetta geta margir samið um við vinnuveitanda sinn.

Verkalýðshreyfingin hefur fyrir löngu misst sjónar af því hlutverki sínu að gæta hagsmuna félagsmanna sinna. Hún er í staðin orðin að sósíalískri stjórnmálahreyfingu sem misnotar félagsgjöld félagsmanna sinna til að reka áróður. Í Danmörku hefur afleiðingin verið sú að mörg svokölluð "gul" stéttarfélög hafa sprottið upp, sem einblína á að veita félagsmönnum sínum lögfræðiaðstoð þegar á þarf að halda, og bjóða gjarnan upp á allskyns tryggingar og afslætti. En engir sumarbústaðir, lúxusíbúðir í erlendum borgum, rándýrar höfuðstöðvar, þrúgandi yfirbygging og sósíalísk stjórnmálabarátta.

Geir Ágústsson, 24.10.2018 kl. 06:46

4 identicon

Ásmundur, þetta er furðuleg hugsun hjá þér, að lækka hæstu laun?? Rosalega sósíalísk pæling þarna, viljinn til að allir hafi það jafn skítt í staðin fyrir að allir hafi það nokkuð gott og sumir hafa það kannski ennþá betra, ég skil ekki þessa öfund, hvaða máli skiptir það hvernig t.d. einkafyrirtæki eru rekin þar sem forstjórara/eigendur eru með há laun??

Hvernig geturðu t.d. haldíð því fram að þeir lægst launuðu borgi hvað mest að sínum launum í skatt? það er ekki rétt, þeir sem eru lægst launaðir borga hvað allra minnst í skatt, bæði í krónum talið og prósentum.

Af hverju á að hækka skatta? það er letjandi og bitnar á öllum með færri störfum og verri þjónustu. Ef eitthvað þá á að lækka þá, minnka ríkisbáknið og auka frelsi einstaklingsins.

Ég mun samt alltaf taka undir með þér í þessum málum þegar kemur að ríkisstarfsmönnum þar sem þar er það okkar skattpeningur sem er verið að sólunda.

Halldór (IP-tala skráð) 24.10.2018 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband