Fimmtudagur, 24. maí 2018
Ögurstund í Reykjavík? Varla
Það hefur mikið verið gert úr kosningum til borgarstjórnar í Reykjavík, miklu meira en kosningum í öðrum sveitarfélögum. Skiljanlega. Reykjavík er stærsta sveitarfélagið, höfuðborg landsins og rekstur borgarinnar umdeildur. Mikill fjöldi framboða er til merkis um töluverða óánægju en mikill stuðningur við Samfylkinguna um leið til merkis um að margir borgarbúar eru afskaplega sáttir.
Það er margt sem bendir til borgin sé einfaldlega að skiptast upp í tvo eða jafnvel þrjá hluta sem hafa óskylda hagsmuni sem verða ekki samræmdir.
Úthverfin vilja meiri þjónustu og betri samgöngur. Strætó virkar illa þar - bara að komast frá Hólahverfi í Breiðholti til Sævarhöfða í Árbæ í strætó gefur verið um 40 mínútna ævintýri á meðan bílferðin tekur 5-10 mínútur. Opinber þjónusta er meira og minna ófáanleg nema í miðbænum og þangað er engin leið að komast fyrir umferð. Leikskólar eru af skornum skammti og foreldrar keyra bæinn þveran til að koma börnum sínum í dagvistun ef þeir eru svo heppnir að fá einhverja slíka. Uppbygging nýrra svæða hefur að miklu leyti verið stöðvuð eða vafin inn í óendanlega langt ferli í borgarkerfinu.
Miðbærinn vill færri bíla og meiri áherslu á aðra farskjóta. Þar á líka að vera stutt í alla þjónustu. Ferðamenn eru velkomnir en bara í hófi því hótelin og rúturnar mega ekki taka of mikið pláss eða framkalla of mikinn hávaða. Umferð frá úthverfafólkinu á helst eða vera sem minnst. Allt á um leið að vera í miðbænum - spítalinn, opinber þjónusta og öll hátíðarhöld.
Fjölskyldufólkið vill vegi fyrir bílana sína - helst án hola og umferðarljósa.
Hipparnir vilja geta keypt bjór á kaffihúsinu sínu en eru um leið ekki hrifnir af því að stórmarkaðir úthverfanna selji bjór til íbúa þar.
Ungt fólk vill geta keypt húsnæði, helst án sparnaðar.
Eldra fólk vill afslátt af sköttum sínum.
Fasteignaeigendur eru flengdir með föstum skatthlutföllum af vaxandi verðmæti fasteigna sinna.
Rekstur borgarinnar verður dýrari og dýrari um leið og íbúar þess mælast þeir óánægðustu á öllu landinu. Í borginni hefur því verið brugðið á það ráð að halda lóðaverði sem hæstu til að geta fjármagnað útgjöldin með sölu lóða á yfirverði.
Það stefnir í að 8 flokkar nái manni inn í borgarstjórn. Það er ekkert að fara breytast. Það er engin ögurstund framundan - bara meira af því sama en nú enn dýrara. Því miður.
Komið að ögurstund í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:11 | Facebook
Athugasemdir
Það fer lítið fyrir að Samfylkingin hampi eigin verðleikum en besta nauðvörnin í rökræðunum sem ég hef heyrt frá þeim var "Viljið virkilega að Davíð fái að stjórna Borginni aftur" - þetta heitir hræðsluáróður og virka vel á 30% kjósenda
Borgari (IP-tala skráð) 24.5.2018 kl. 07:49
Samfylkingin hefur fegrað bókhald borgarinnar um leið og skuldabréf hennar þenjast út. Hún notar opinbert fé til að auglýsa sig á Facebook og til að halda "fundi með borgarstjóra". Hin óþægilegu mál eru þurrkuð í embættismenn og aðra innan borgarkerfisins á meðan borgarstjóri er meira en lítið til í að klippa á borðana og skrifa undir viljayfirlýsingarnar, gjarnan fyrir framan blaðamenn sem hlaupa á eftir hverju boði.
En Samfylkingin á vissulega tryggan aðdáendahóp, þá aðallega fólk í hverfum austan Elliðaánna (https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/03/29/mikill_munur_a_fylgi_eftir_hverfum/).
Geir Ágústsson, 24.5.2018 kl. 09:43
Þetta átti að vera: Fólk í hverfum vestan við Elliðaánna. Og því vestar sem farið er, því meira er fylgi við Samfylkinguna.
Geir Ágústsson, 24.5.2018 kl. 09:44
Geir, á hvern hátt hefur Samfylkingin fegrað bókhald borgarinnar?
Áttu við að ársreikningar sem sýna frábæra rektrarafkomu í ár og minnkandi skuldir mörg undanfarin ár, séu falsaðir?
Eða áttu við að Orkuveitan sé baggi á borginni sem þyrfti að greiða með ef borgin losar sig við hana þrátt fyrir eigið fé upp á 73 milljarða og heildarafkomu upp á 23 milljarða 2017?
Telurðu að þess vegna gefi mjög gott skuldaviðmið ekki rétta mynd?
Ásmundur (IP-tala skráð) 24.5.2018 kl. 13:40
Hver ætlar að hlaupa undir bagga þegar höfuðstöðvar OR verða dæmdar ónýtar?
Eða þegar menn gefast upp á að halda Hellisheiðarvirkjun í gangi?
Það má alveg hafa raunverulegar áhyggjur af skuldastöðu Reykjavíkur, sjá t.d. hér:
http://www.vb.is/skodun/hver-er-skuldastada-reykjavikur/142730/
Það má líka hafa áhyggjur þegar fjölmennasta sveitarfélagið kemst ekki af nema hafa alla skatta í botni á tímum þar sem allir skattstofnar þenjast út ár eftir ár.
Borgin er illa rekin og það blasir við.
Geir Ágústsson, 24.5.2018 kl. 16:57
Verðmæti höfuðstöðva Orkuveitunnar er aðeins lítið brot af verðmæti fyrirtækisins. Auk þess er það bara hluti hússins sem gæti talist ónýtur. Hinn hlutinn er í fínu lagi.
Fjárhagstaða A-hluta Reykjavíkur er mjög góð. Heildarafkoman á árinu var frábær og skuldaviðmiðið er hagstætt. Þeir sem telja að staða Orkuveitunnar breyti einhverju um þessa góðu stöðu eru í raun að segja að Orkuveitan sé svo mikill baggi á borginni að rétt væri að borga háar upphæðir þeim sem vildu hirða hana.
Að sjálfsögðu er Orkuveitan mikils virði eins og allar lykiltölur sýna. Staða borgarinnar er því enn betri en hagstætt skuldaviðmið og og góð heildarafkoma sýna. Viðskiptablaðið er einfaldlega ekki marktækt enda fyrst og fremst áróðurspési fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Ásmundur (IP-tala skráð) 24.5.2018 kl. 17:29
Eru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins farnir að örvænta?
Skattprósenta fasteignaskatts í Reykjavík hefur verið lækkuð á kjörtímabilinu úr 0.20% í 0,18%. Leikskólagjöld hafa lækkað verulega. Hvaða hækkanir ertu að tala um Geir?
Útsvarið í Reykjavík er nánast það sama og í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Munurinn er heldur ekki svo mikill í Garðabæ og Seltjarnarnesi þar sem útsvarið er lægra sem nemur aðeins broti úr prósentu.
Betur má ef duga skal.
Ásmundur (IP-tala skráð) 24.5.2018 kl. 17:47
Þú gefur þér að ef rekstur OR fer á hliðina af einhverjum ástæðum þá verði fyrirtækið selt upp í skuldir. Mun það gerast? Það held ég ekki. OR fékk frítt spil til að þjarma vel að notendum sínum eftir að fjármálavafningar fyrirtækisins súrnuðu eftir árið 2008. 0R er tifandi tímasprengja sem verður ekki seld heldur leyft að springa í andlit borgarbúa.
Geir Ágústsson, 25.5.2018 kl. 05:21
Annars mæli ég með þessari grein og hafir þú eitthvað við hana að athuga þá geri ég ráð fyrir að þú svarir sjálfur eða bendir mér á mótsvar frá öðrum:
Skuldaaukning 250 þúsund krónur á mann
Nokkrir gullmolar:
Geir Ágústsson, 25.5.2018 kl. 05:25
Geir. ef Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að deyja drottni sínum á næstu árum verður málflutningur hann að hætta að vera tómt bull. Skuldir á íbúa í Reykjavík hafa lækkað mikið á kjörtímabilinu að teknu tilliti til verðbólgu og fjölgunar íbúa.
Skuldaviðmiðið er með því hagstæðasta sem þekkist. Að telja eign borgarinnar í Orkuveitunni sem bagga er auðvitað bara hlægilegt. Hingað til hafa sjálfstæðismenn viljað kaupa slíkar eignir fyrir slikk. Nú virðast þeir telja sig gera borgarbúum greiða með því að taka við þeim með hárri meðgjöf.
Reykvíkingar greiða aðeins brot af því sem greitt er erlendis fyrir orku. Það er því mikið svigrúm til hækkana ef nauðsyn krefur einhvern tímann til langrar framtíðar. Að sjálfsögðu verður Orkuveitan aldrei seld upp i skuldir. Draumur sjálfstæðismanna um að geta hirt hana með meðgjöf er auðvitað fjarstæðukenndur.
Ekki er SA trúverðugra en VB þegar stjórnmál eru annars vegar. Eins og eftirfarandi hlekkur sýnir er Reykjavík næstódýrasta sveitarfélagið á höfuðbotgarsvæðinu fyrir barnafólk:
http://www.ruv.is/frett/seltjarnarnes-odyrast-hafnarfjordur-dyrastur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 25.5.2018 kl. 08:27
Það er auðvitað ódýrt að reka leikskólakerfi þar sem eru alltof fá pláss. Í Garðabæ kostar meira að hafa barn á leikskóla, en á móti kemur geta foreldrar gengið að þeim vísum.
Á Íslandi er orka víða ódýr miðað við mörg önnur ríki en á móti eru bara aðrir hlutir dýrari. Það er rangt að telja að neytendur geti bara endalaust fjármagnað illa rekin opinber batterí með auknum nauðungargjöldum - en um leið er það hugarfarið en einkennir þá tegund stjórnmálamanna sem telja skattgreiðendur vera mjólkurkýr sem eigi að þakka fyrir hvern dropa sem er ekki soginn úr þeim.
Það er rétt að taka með allar skuldbindingar þegar rekstrarstaða er metin, og á við um fleira en borgina. Til dæmis eru lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs oft til umræðu, sem og skuldbindingar Landsvirkjunar, RÚV og annarra sem hengja ábyrgðir á skattgreiðendur, og þar sem er ætlast til að skattgreiðendur hlaupi undir bagga ef illa fer.
Þú telur auðvitað alla nema RÚV vera ótrúverðuga: Viðskiptablaðið, SA, frambjóðendur annarra flokka en Samfylkingar (t.d. Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, sem allir benda á slæma rekstrarstöðu borgarinnar). Þú um það, en um verður mér það ljóst að það eina sem þú trúir eru fjölmiðlayfirlýsingar núverandi borgarmeirihluta, og þar við situr.
Geir Ágústsson, 25.5.2018 kl. 10:34
Orkuveitan ásamt öðrum fyrirtækjum borgarinnar á eigið fé upp á 200 milljarða og skilaði 20 milljarða hagnaði á síðasta ári.
Fráleitur málflutningur VB, SÁ og GÁ gengur í raun út á út á að Reykjavík sé mun verr sett með þessa miklu eign og gjöfulu tekjulind en án hennar.
Hér er greinilega verið að reyna að blekkja kjósendur gegn betri vitund. Spillingin i Sjálfstæðisflokknum ríður ekki við einteyming.
Ásmundur (IP-tala skráð) 25.5.2018 kl. 17:54
Árið 2002 sagði maður nokkur, Dagur B. Eggertsson, að skuldabréf OR væru þau eftirsóttustu á landinu. Ekki leið langur tími þar til blóðmjólkun á OR, og notkun hennar í allskyns fjárfestingarævintýrum, hafði nálægt því knésett fyrirtækið.
Hér er holl upprifjun:
http://www.vb.is/skodun/dagur-b-eggertsson-og-eftirsottustu-skuldir-landsins/121154/?q=kannski?q=kannski
Eignarhald borgar á fyrirtæki er baggi þegar á allt er litið. Neytendur hafa fengið að finna fyrir því. Skattgreiðendur gætu verið næstir.
En úr því ég hef hér talsmann Samfylkingarinnar á "línunni": Hvernig er hægt að kjafta sig frá því sem virðist blasa við mörgum, að það fáist lítið byggt í Reykjavík því það þarf að halda lóðaverði háu til að fjármagna útgjaldaloforð borgarstjórnar?
Geir Ágústsson, 25.5.2018 kl. 18:49
Þú ert sem sagt að staðfesta það að þú teljir Orkuveituna minna en einskis virði og þess vegna væri fjárhagsleg staða borgarinnar mun betri án hennar þrátt fyrir 200 milljarða í eigið fé.
Ertu að undirbúa það að sjálfstæðismenn geti hirt Orkuveituna fyrir slikk komist Eyþór til valda? Það væri heldur betur fengur að fá 200 milljarða verðmæti fyrir ekki neitt. Eins og venjulega borgar almenningur brúsann.
Ásmundur (IP-tala skráð) 25.5.2018 kl. 22:13
Eignarhald borgarinnar á OR er rússnesk rúlletta fyrir borgarbúa.
Geir Ágústsson, 26.5.2018 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.