Miðvikudagur, 25. apríl 2018
Allskonar fyrir annarra manna fé og fyrirhöfn
Það vantar ekki fréttir af loforðum á eyðslu á annarra manna fé þessa dagana. Að hluta má skrifa það á sveitarstjórnakosningar. Að hluta má kannski skrifa fjölda útgjaldafrétta á almenna gúrkutíð í fjölmiðlum eða blindu fréttamanna fyrir því sem er raunverulega fréttnæmt (t.d. vegasaltið sem Bandaríkin eru á: Greiðslufall eða óðaverðbólga.)
Í Reykjavík vilja menn leysa öll vandamál með auknum útgjöldum og fleiri niðurgreiddum farartækjum en varðveita um leið opinbera miðstýringu. Dýrustu grunnskólar í heimi - en jafnframt alls ekki þeir bestu - eiga að verða dýrari. Vandamál leyst, ekki satt?
Ríkisstjórnin - a.m.k. vinstrihlið hennar - fjármagnar rándýr útgjöld borgarstjórnar og um leið bitastæðar fyrirsagnir korteri fyrir kosningar til sveitarstjórna, sennilega til að reyna halda vinstrimönnum við völd í borginni.
Íslendingar senda peninga til fjarlægra svæða án þess að stinga upp á raunverulegum lausnum við þeim mannlega harmleik sem þar á sér stað (vonandi skjátlast mér um það). Vonandi fara þeir peningar í að byggja upp sómasamlegar flóttamannabúðir í nágrenni átakanna í stað þess að greyins flóttamennirnir þurfi að daga uppi í fjarlægum heimshornum þar sem þeir eiga enga raunverulega möguleika á að koma undir sig fótunum, verða sjálfbjarga og aðlagast samfélaginu.
Börn á Íslandi standa á biðlistum til að komast í meðferðir ríkisvaldsins og lausnin er auðvitað meira skattfé í miðstýrða hítina. Hefur engum dottið í hug að bjóða út þessa starfsemi eða jafnvel veita hana á kostnað aðstandenda og góðgerðarsamtaka? Ef fíkill sprautar sig korteri eftir að hann labbar út af Vogi mun Vogur ekki missa eina einustu krónu. Á Vogi geta menn jafnvel búist við auknum fjárframlögum. (Þar með er ekki sagt að þeir hjá Vogi reyni ekki, en hafa þeir nægjanlegt svigrúm til að prófa sig áfram?)
Já, það er auðvelt að slá sig til riddara fyrir annarra manna fé.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Allir vilja meiri þjónustu, en fáir vilja borga hærri skatta.
Wilhelm Emilsson, 25.4.2018 kl. 20:23
Segðu!
Ég er með skondið dæmi af slíku hugarfari héðan frá Danmörku.
Lögin hér vegna húseigna eru allskonar, og ná meðal annars yfir bílskúra. Sé hann of lokaður, eða of einangraður, þá lendir þú í fullum eignaskatti vegna hans. Flestir velja því að byggja hálfgerð skýli eða skúra utan um bílinn sinn. Til að spara skattinn. En vilja um leið skattana.
Fólk sættir sig með öðrum orðum við kalda bíla og það að missa alveg þá vinnuaðstöðu sem bílskúr getur orðið - til að spara svolítinn skatt.
Ég hugleiði að setja af stað litla grín-herferð, a.m.k. meðal samstarfsfélaga minna: "Eflum velferðarkerfið - byggjum bílskúr!"
Geir Ágústsson, 25.4.2018 kl. 20:42
Ha ha ha. Þessi frábæra saga styður "staðalímynd" mína af Dönum, að þeir séu alltaf að hugsa um peninga og að spara :0)
Wilhelm Emilsson, 25.4.2018 kl. 20:57
Leiðrétting
Ég skrifaði:
Flestir velja því að byggja hálfgerð skýli eða skúra utan um bílinn sinn. Til að spara skattinn. En vilja um leið skattana.
Ég meinti:
Þeir vilja spara sér skattinn (skiljanlega og eðlilega, því fæstir fá það sem þeir borga fyrir), en vilja um leið þjónustuna.
Það er eins og einn snillingurinn (Bastiat) orðaði það: "Government is the great fiction, through which everybody endeavors to live at the expense of everybody else."
Geir Ágústsson, 25.4.2018 kl. 22:02
Fyrir nokkrum áratugum þá var ráðherra í Danmörku með tillögu um að fjölga bílskúrum því það mundi fjölga nýsköpunarfyrirtækjum enda þá nær eingöngu karlmenn í forsvari hjá nýsköpunarfyrirtækjum.
En eyðsluloforðin hjá flokkunum í RVK munu nú ná stjarnfræðilegum hæðum við þessa frétt
https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2018/04/26/afkoman_milljordum_umfram_aaetlun/
þó undarlegt sé hvað ónákvæmar áætlanirnar eru hjá Borginni - hefði þetta ef til vill getað orðið mínus ef aðrir bókhaldslykar væru notaðir
Borgari (IP-tala skráð) 26.4.2018 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.