Fimmtudagur, 5. apríl 2018
Eini sinni var bið eftir heyrnartækjum, en ekki lengur
Þegar ég les fréttir um biðlista hjá hinu opinbera dettur mér alltaf í hug gömul frétt um heyrnartæki. Einu sinni þurfti að bíða í marga mánuði eftir því að fá heyrnartæki sem hið opinbera borgaði. Enginn annar valkostur var í boði. Síðan var reglugerð breytt. Einkaaðilar fóru þá að bjóða upp á heyrnartæki á fullu verði. Margir nýttu sér þá þjónustu og komu sér út úr hinni opinberu biðröð sem fyrir vikið hvarf. Allir fá nú heyrnartæki þegar þeir þurfa.
Má ekki gera eitthvað svipað í heilbrigðiskerfinu og í aðhlynningu aldraðra? Kannski er pólitískt óraunhæft að einkavæða þetta allt saman og lækka skatta í kjölfarið en má ekki fjarlægja einhverjar hindranir á einkaaðila? Má t.d. ekki endurskoða 14. gr. 2. í lögum 125/1999 um málefni aldraðra með það að markmiði að einkaaðilar getir boðið upp á minni þjónustu en þar er kveðið á um? Eða þurfa allir að keyra um á Mercedes Benz ef þeir vilja á annað borð keyra? Þarf alltaf að vera aðstaða fyrir heilabilaða á hjúkrunarheimili?
Biðlistar eftir heyrnartækjum eru fjarlæg minning. Má ekki gera biðlista eftir hjúkrunarheimilum það líka?
Fjölgun á biðlistum eftir hjúkrunarrými | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Áttu við að einkaaðilar reki hjúkrunarheimili algjörlega á kostnað vistmanna án greiðsluþátttöku ríkisins? Mjög fáir myndu hafa efni á því.
Hvernig komast Danir af með hlutfallslega miklu færri hjúkrunarheimili en Íslendingar? Væri kannski hægt að fækka hjúkrunarheimilum með því að efla heimahjúkrun og spara þannig mikið fé?
Ásmundur (IP-tala skráð) 5.4.2018 kl. 17:29
Kannski væri raunhæft að reka hjúkrunarheimili fyrir lægri kostnað ef eitthvað af lagakvöðunum víkja. Menn geta keypt bíl með baknuddi, talandi stjórnkerfi og myndbandsvél sem sýnir stæðið sem bakkað er í. Það er líka hægt að kaupa notaðan Skoda.
Ég hef séð íslenska heimahjúkrun í verki. Hún hefur kosti og galla en aðstoðar tvímælalaust fleirum að búa lengur heima. Einfaldar þjónustuíbúðir gætu líka gert sitt gagn, þar sem vistmenn fengju mat, þrif og hefðu neyðarhnapp.
Ekki veit ég hvað Danir gera. Kannski stórfjölskyldan sé duglegri að hjálpa til. Á Íslandi er tilhneigingin sú að áður en fólk byrjar að vinna og eftir að það hættir því þá sé það á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga.
Lagaumgjörðin hér eins og víðar hefur örugglega hamlandi áhrif á nýsköpun í þessum geira.
Geir Ágústsson, 5.4.2018 kl. 17:53
Danir hafa að mörgu leyti sama háttinn á - þ.e. blanda af dvalar-/öldrunarheimilum, heimahjúkrun/-umönnun, og tímabundnar innlagnir. Sveitarfélögin reka öldrunarþjónustu - en sökum vaxandi fjárhagslegra erfiðleika vegna þróunar í mannfjölda (þ.e. fleiri og fleiri eldriborgara, o.s.frv.) og af tilliti til aukinna lífsgæða, þá hefur verið lögð aukin áhersla á að tryggja að borgararnir séu sjálfum sér nægir lengur og geti búið lengur í eigin húsnæði. Því er miklu varið í að auka sjálfsumönnun og sjálfseflingu.
Kerfishneygð Dana er mun sterkari og innbyggðari en Íslendinga að mínu mati, og því horfir fólk frekar til þess að kerfið sjái um alla slíka ummönnun fremur en að stórfjölskyldan taki verkið að sér. Sama gildi um ung börn, börn á skólaaldri, eldri borgara, o.s.frv. Fyrsta spurningin sem fólk spyr sjálft sig er ekki hvað get ég gert, heldur hef ég talað við kommúnununa - þeir hljóta að bjóða upp á einhverja þjónustu, bætur eða álíka. Félagi minn sem dvaldi eitt ár í Kaupmannahöfn við nám fyrir nokkrum árum hafði á orði eitt sinn, að hann hefði eiginlega þurft að fá sér stærri póstkassa til að taka við öllum tékkunum frá ‘ríkinu’.
Frítt val er þó grunngildi í þjónustu við eldri borgara í Danmörku, og því eru fleiri og fleiri einkaaðilar sem bjóða upp á heimahjúkrun/-umönnun. Þar hefur fólk val á milli sömu þjónustu frá sveitarfélaginu eða frá einkaaðila. Allt borgað úr sama kassa - en framkvæmdin á höndum fleiri aðila. Sem er allt gott og blessað, þar til einkafyrirtækin hafa farið á hausinn - og þá falla öll verkefnin og kúnnarnir aftur á sveitarfélagið (sem ber skildu til að tryggja að borgararnir fái þá þjónustu sem þeir hafa rétt á/þörf fyrir).
Haukurinn, 6.4.2018 kl. 06:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.