Laugardagur, 31. mars 2018
Úthverfin ósátt, miðbærinn alsæll
Skoðanakannanir gefa til kynna að úthverfin í Reykjavík séu ósátt en miðbærinn sáttur. Þetta kemur væntanlega engum á óvart. Úthverfunum er gert að sitja í þéttri umferð eða standa af sér vetrarlægðirnar í opnum strætóskýlum (en til framtíðar í opnum borgarleiðaskýlum). Miðbæjarfólkið labbar í vinnuna eða hjólar stuttar vegalengdir.
Svona klofningur er mjög góð ástæða fyrir því að frekari sameining sveitarfélaga er slæm hugmynd, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Óumflýjanlega myndast klofningur innan of stórra sveitarfélaga. Hagsmunir íbúa eru einfaldlega ekki þeir sömu á víðfeðmum svæðum.
Svona klofningur er enn frekar vísbending um að menn ættu alvarlega að skoða fækkun á lögbundnum verkefnum sveitarfélaga (sem er alls ekki einfalt að þylja upp) og auðveldun á uppskiptingu þeirra í smærri sveitarfélög.
Smærri stjórnunareiningar hafa marga kosti eins og ég hef áður rakið. Klofningur innan sveitarfélags sem er varla miklu fjölmennara en eitt hverfi í meðalstórri borg gefur til kynna að friðsælasta lausnin sé að leiðir skiljist.
Eyþór vinsæll í austri, Dagur í vestri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nú þegar fjölga skal fulltrúunum í Reykjavík þá ættu menn að sameinast um nýja stjórnunarhætti. Hætta þessum flokkspólitísku átökum og fara að vinna saman eins og fullorðið fólk. Allir sveitastjórnarfulltrúar eiga að hafa jöfn áhrif og völd. Það er hægt með því að menn ræði sig niður á lausnir í hverju máli og einfaldur meirihluti ráði. Í Reykjavík þyrftu menn að ráða faglegan Borgarstjóra sem framkvæmdastjóra. Ef allir fulltrúar koma að öllum ákvörðunum þá er ekki lengur þörf á að hafa vara-borgarfulltrúa á launum. Þannig eru mörg rök sem kalla á róttækar kerfisbreytingar í stjórnun stærstu bæjarfélaganna. Breytingar sem miða að skilvirkari og ódýrari yfirstjórn. Og auðvitað á ekki að líðast að fáeinir menn geti bruðlað með fé almennings að eigin geðþótta. Dæmi: Kaupin á útilistaverkinu og uppsetningar á veggmálverkum. Ef eitthvað slíkt er talið nauðsynlegt þá er lágmark að menn sæki eftir fjárveitingum til íbúanna beint!
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.3.2018 kl. 23:13
Grafarvogurinn er hverfi Davíðs Oddssonar.
Þegar lóðirnar í Grafarvogi gengu ekki út vegna samdráttar í þjóðfélaginu tók Davíð sér skipulagsvaldið og úrskurðaði að lóðarhafar mættu byggja einnar hæðar hús í stað tveggja hæða eins og áskilið var í skilmálum og hentaði best þeim landhalla sem þarna var.
Á sunnudagsmorgnum sást til Davíðs aka um hverfið til að fylgjast með hvernig gengi. Síðan hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins í Grafarvogi alltaf verið mikið óháð því hver er við stjórn eða hve vinsæl borgarstjórn er á hverjum tíma. Stór einbýlishús eru einnig hlutfallslega fleiri í úthverfum og fylgi Sjálfstæðisflokksins kannski meira þar þess vegna.
Að skipta borginni niður í stjórnsýslulegar einingar væri fráleitt. Það myndi hafa í för með sér mikinn kostnaðarauka auk þess sem höfuðborgarsvæðið er ein skipulagsleg heild.
Nær væri því að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.4.2018 kl. 13:18
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið vinsæll í svefnbæjum og svefnhverfum á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda á Seltjarnarnesi og í Grafarvogi, þar sem fólk stundar aðallega vinnu fyrir vestan Kringlumýrarbraut í Reykjavík.
"Miðbæirnir" á til dæmis Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ eru fyrst og fremst verslanamiðstöðvar og þeir sem búa í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en Reykjavík sækja atvinnu, menningu og afþreyingu í stórum stíl til vesturhluta Reykjavíkur.
Það á einnig við um svefnhverfin í austurhluta Reykjavíkur, til að mynda Grafarvoginn og Breiðholtið.
Og auðvelt að hafa útsvarið lægra á Seltjarnarnesi en í Reykjavík, þar sem Seltirningar sækja alls kyns þjónustu til Reykjavíkur og mjög lítil atvinnustarfsemi er á Seltjarnarnesi.
Þorsteinn Briem, 1.4.2018 kl. 13:27
Af hverju er auðvelt af hafa lágt útsvar þar sem er minna af skattgreiðandi fyrirtækjum? Útsvarið var lengi vel með lægsta móti í Reykjavík. Þar ríkir nú sóun sem kostar.
Geir Ágústsson, 1.4.2018 kl. 14:11
Bruðl með gæluverkefni og framtaksleysi með það sem þarf að gera er það sem einkennir vinnubrögðin hjá Ráðhúsinu hér er gott dæmi um vinnubrögðin þar
https://samradsgatt.island.is/Skrar/$Cases/GetAdviceFile/?id=a581b9a7-9e2b-e811-9444-005056850474
Borgari (IP-tala skráð) 1.4.2018 kl. 14:36
Það hlýtur líka að fara renna upp fyrir fleirum að stærri sveitarfélög eru alls ekki hagkvæmari en smærri sveitarfélög. Það sem skiptir máli er rekstur þeirra, ekki fjölmenni eða stærð að neinu leyti. Reykjavík er stærst allra sveitarfélaga og meðal þeirra verst reknu. Það er tiltölulega nýleg afsökun að benda á að menn sæki þjónustu til borgarinnar. Laðar það ekki að sér skattfé? Er Lúxemborg fátækt ríki af því að íbúafjöldi hennar margfaldast á vinnutíma? Nei, hún eflist.
Geir Ágústsson, 1.4.2018 kl. 18:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.