Mánudagur, 22. janúar 2018
Tilraun sem mætti endurtaka víðar
Starfsmenn bandaríska alríkisins mæta ekki til vinnu í dag. Sennilega seinkar þessi fjarvera einhverjum umsóknum um lán, styrki eða undanþágu frá einhverju, einhverjum ákvörðunum þarf að fresta og einhver fær ekki leyfið sitt.
En ætla menn að nota tækifærið og hugleiða hvar bandaríska alríkið stendur víða í vegi fyrir borgurum sínum? Kannski Trump geri það sem Obama gerði ekki í svipaðri aðstöðu: Endurskoði hlutverk alríkisins og reyni að minnka vægi þess í samfélaginu og hagkerfinu svo það megi fækka eitthvað af þessum alltof mörgu starfsmönnum.
En það að alríkið, miðstjórnin eða ríkisstjórnin leggist í dvala er ekki endilega neinn dauðadómur. Í Belgíu komumst menn af án ríkisstjórnar í nálægt því 600 daga. Almenningur tók varla eftir neinum breytingum enda er belgíska ríkinu skipt upp í þrjú svæði sem hvert hefur sína svæðisstjórn. Bandaríkin hafa sín ríki. Ísland hefur sín sveitarfélög. Er hugsanlegt að það sé hægt að minnka vinnutíma ríkisstjórnarinnar töluvert án afleiðinga (annarra en að lækka kostnað við rekstur ríkisins)?
Við höfum tilhneigingu til að ofmeta mikilvægi og ágæti ríkisvaldsins. 99% af tíma okkar fer í að eiga samskipti við vini, fjölskyldu, vinnufélaga og einn og einn opinberan starfsmann nálægustu stjórnsýslueiningarinnar (t.d. sveitarfélagsins). Ekkert land fer á hliðina þótt þingmenn fari í löng (en ekki nógu löng) sumar-, jóla- og páskafrí. Ekkert land fer á hliðina þótt alríkið, miðstjórnin eða ríkisstjórnin gufi upp í nokkra mánuði. Fólk heldur áfram að eiga viðskipti og samskipti og þræða reglugerðafrumskóginn sem verður einfaldlega greiðfærari og fyrirsjáanlegri þegar yfirstjórnin lætur hann eiga sig.
Til hamingju Bandaríkjamenn með að fá svolítið hlé frá alríkinu. Það er þá ekki hægt að lýsa yfir fleiri stríðum á meðan.
Mæta ekki til vinnu í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:44 | Facebook
Athugasemdir
Þú ruglar saman ríkisstjórn og ríkisstofnunum. Ríkisstofnanir starfa óháð ríkisstjórnum meðan þær fá fjármagn. Og þó ríkisstjórnir fari í frí þá breytir það engu um lög, reglur og reglugerðir. Kerfið verður ekki einfaldara og reglugerðarfrumskógurinn ekkert greiðfærari. Umferðarstofa lokar ekki þó Bjarni Ben fari í sumarfrí, Matvælaeftirlitið skoðar áfram fæðu sem þér er ætluð þó ríkisstjórn og Alþingi leggist í flensu, Fiskistofa starfar ótrufluð þó ríkisstjórnin falli. Það á við bæði hér og í Belgíu.
Margir hafa tilhneigingu til að vanmeta mikilvægi og ágæti ríkisvaldsins. Og virðast halda að ríkisvaldið sé ekki að starfa fyrir þá nema þeir standi hinumegin við afgreiðsluborðið og tali persónulega við ríkisstarfsmanninn. Að á meðan þeir spjalli við ættingja og vini þá starfi ríkisvaldið ekki og sé því óþarft. Margir eru ofboðslega uppteknir af egin nafla og sjá lítið útfyrir þann ramma.
Og forseti bandaríkjanna er æðsti yfirmaður heraflans og getur, og hefur, sent hermenn í stríð án aðkomu alríkisstjórnarinnar. Fjármögnun hersins er einnig tryggð þó sumar stofnanir alríkisins fái ekki fjármagn og þurfi að loka.
Gústi (IP-tala skráð) 22.1.2018 kl. 15:01
Auðvitað veit ég að þótt höfuðið á slöngunni sé í dvala þá geti afgangur líkamans gengið áfram. Hið sama á auðvitað við um fyrirtæki. Að stjórnin fari í leyfi til karabíska hafið þarf ekki að koma almennum starfsmanni neitt við.
Þú talar um að fólk vanmeti mikilvægi og ágæti ríkisvaldsins. Það held ég að sé alveg kolrangt - fólk þakkar ríkisvaldinu fyrir að við höfum menntun, heilbrigðisgæslu, vitaþjónustu, vegi, samkeppni, löggæslu, dómgæslu, leikskóla, hreinar götur og svona mætti lengi telja. Meira að segja póstþjónusta er þökkuð ríkisvaldinu. Þó gerir ríkisvaldið ekki annað en það sem það á sínum tíma hrifsaði úr höndum einkaaðila (einstaklinga eða fyrirtækja) með það að markmiði - yfirleitt - að afla sér tekna. Flestir þekkja upphaf nútímavelferðarkerfisins í viðleitni hins prússneska Bismarck til að tryggja sér stuðning verkalýðsins. Fræinu sem var sáð þar hefur fjölgað og orðið að mikilli illgresisbreiðu.
En já það er rétt að Trump getur kallað út herinn án aðkomu þings. Það var á sínum tíma slæmt fordæmi sem fyrirrennarar hans hefðu betur látið eiga sig að setja.
Geir Ágústsson, 23.1.2018 kl. 07:16
Og ekki nóg með það: Fólk bölvar í leiðinni einkafyrirtækjum í blússandi samkeppnisrekstri sem gera þó ekki annað en að bjóða þjónustu sem menn geta keypt eða sleppt því að kaupa.
Nei, því fer fjarri að fólk vanmeti ágæti ríkisvaldsins. Miklu frekar mætti tala um blinda trú á því.
Geir Ágústsson, 23.1.2018 kl. 07:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.