Þriðjudagur, 9. janúar 2018
Ósjálfbjarga ungmennum smalað á kjörskrá til að kjósa vinstriflokkana
Einu sinni var gerð krafa um að til að fá að kjósa þurfti að reka eigið heimili, eða eiga eitthvað af eignum, en í það minnsta að vera sjálfbjarga.
Svipað fyrirkomulag er enn við lýði á flestum heimilum. Fyrirvinnurnar - mamma og pabbi - ákveða hvað skuli eytt í - hvort sjónvarpið skuli endurnýjast eða bíllinn, eða hvort fjölskyldan fari í frí til Thailands eða Tálknafjarðar.
Með þessu fyrirkomulagi er hugsunin sú að ákvarðanir séu í höndum "fullorðinna" ef svo má segja, en ekki barna sem vilja allt í dóta- eða nammibúðinni og hafa engan áhuga á að vita hvað neitt kostar eða hverjar afleiðingarnar eru til lengri tíma af neyslu og sukki.
Í dag þykir það nánast vera guðlast að tala um að kosningaréttur eigi að vera skilyrtur við eitthvað. Þó hafa menn sammælst um að sjálfráða og löglega fullorðnir einstaklingar eigi að fá að kjósa, en ekki aðrir, t.d. ósjálfbjarga börn.
Og svo leið tíminn, og niðurstöður kosninga fóru að verða fyrirsjáanlegar að einhverju leyti. Millistéttin kýs loforð um lægri skatta af launum en hærri bætur til húsnæðisreksturs og barnauppeldis. Fyrirtækjarekendur kjósa loforð um lægri skatta á fyrirtæki. Bótaþegar kjósa loforð um hærri bætur. Aldraðir kjósa loforð um færri innflytjendur, hærri framfærslu og niðurgreidda aðhlynningu. Og svona mætti lengi telja.
Unga fólkið kýs hins vegar enga því það er ekki með kosningarétt. Það fær samt að taka þátt í skoðanakönnunum. Í ljós kemur að ungt fólk er upp til hópa viljugt til að kjósa loforð um ókeypis allt, framfærslubætur og fjármögnun á mannúðarmálum í gegnum skattkerfið. Ungt fólk hefur minni áhuga en fyrri kynslóðir á að leggja fyrir, kaupa húsnæði, flytja að heiman og standa á eigin fótum. Það vill lífrænt ræktaðar kaffibaunir og ótakmarkaða nettengingu. Og að mamma sjái um þvottinn.
Síðan þetta rann upp fyrir vinstriflokkunum hafa þeir barist fyrir lækkun kosningaréttarins. Nú skulu börn fá að kjósa. Þau mega ekki taka húsnæðislán og jafnvel ekki kaupa sér kippu af bjór. En að kjósa? Já, það á unga fólkið að fá að gera!
Þetta sérstaka áhugamál vinstriflokkanna er ekki bundið við þá íslensku. Í Danmörku er sama hugmynd oft til umræðu. Á yfirborðinu er talað um að breiða lýðræðið út til allra. Í raun eru vinstriflokkarnir bara að reyna fjölga ósjálfbjarga bótaþegum á kjörskrá sem er svo hægt að tæla með loforðum um ókeypis allt fyrir alla.
Ég vona að Íslendingum beri gæfa til að kæfa svona kjánaskap í fæðingu.
16 og 17 ára gætu fengið að kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Pólitíkin er orðin að barnaskap.
Hrossabrestur, 9.1.2018 kl. 09:19
Einhver er nú fullyrðingagleðin.
Líklega má höfundur hafa þá skoðun að svo verði, að e-r af þeim sem munu fá kosningarétt, fyrr en áætlað var, kjósi "vinstri" flokk, hvaða flokkar það kunna vera.
Hitt er annað, það eru 15 flutningsmenn á tilögunni og já úr öllum flokkum, þannig að fleiri flokkar sjá væntanlega sæng sína útbreidda þar í atkvæðum.
Svo úr því að talað er um ungmenni og kjör flokka, þá er það ljóst að einn flokkur og einn flokkur aðeins, hefur lagt sig í líma við að fá ungviðið á kjörstað, prófkjör eða formannskosningar (gott að rifja þetta síðata afrek þeirra upp : http://www.dv.is/frettir/2017/9/14/ungir-sjalfstaedismenn-kukudu-i-ruslatunnu-og-sprautudu-tomatsosu-hus-ef-thetta-er-eru-framtidarleidtogar-islensku-thjodarinnar/) með mismikilli fjölmiðlaumræðu, þannig þeim hinum sömu ætti að vera lófa lagið að reyna veiða þessi atkvæði, sem og aðrir flokkar.
Ekki bara "vinstri" flokkar.
Svo biðja menn um málefnalega stjórmálaumræðu.
Sigfús Ómar Höskuldsson, 9.1.2018 kl. 13:32
Stundum þarf að kíkja undir yfirborðið.
Menn eru að tala um að gefa börnum, í lagalegum skilningi, hliðarkort frá korti mömmu og pabba.
Ég finn ekki í mér sömu hvata til að gera það sama, hvorki gagnvart löggjafanum mér hér heima.
Ég efast um heilindi flutningsmanna, óháð flokkum.
Geir Ágústsson, 9.1.2018 kl. 17:12
Mér hefur sýnst af fréttum í fjölmiðlum að það séu einkum hægri flokkarnir sem eru duglegir við að smala kjósendum á kjörstað og þá ekki síst hinum yngstu.
Vinsælt hefur verið að bjóða ókeypis bjór og jafnvel hafa flugvélar og rútur verið leigðar til að koma kjósendum á kjörstað. Auðmenn hafa svo greitt félagsgjöld þegar þess hefur verið krafist í prófkjörum.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.1.2018 kl. 21:16
Sennilega rétt athugað en óskylt mál.
Geir Ágústsson, 9.1.2018 kl. 22:04
Ef höfundur vill skoða undir pilsfaldinn, hví er hann þá meira gefnari fyrir þann vinstri umfram þann hægri.
Ljóst er að verði af tillögunni, þá munu þeir flokkar sem höfundi kann að líka betur við ekki slá slöku við að sækja þessi "nýju" atkvæði. Líklega standa sig betur, ef vitnað er til reynslu sömu flokka við að kaupa bökur og öl í miklu magni.
Finnst höfundur vilja skoða undir yfirborðið en bara sumstaðar, ekki allstaðar.
Sigfús Ómar Höskuldsson, 9.1.2018 kl. 22:09
Að D sýni þessu áhuga sýnir að D er frekar nær miðju og vinstri en systurflokkar hans á Norðurlöndum, þar sem svona mál tilheyrir miklu frekar vinstriflokkunum.
Geir Ágústsson, 9.1.2018 kl. 22:18
"þar sem svona mál tilheyrir miklu frekar vinstriflokkunum" -möguleiki að fá rök fyrir þessari fullyrðingu :) ?
Sigfús Ómar Höskuldsson, 9.1.2018 kl. 23:12
Geir minn. Einstaklingar sem ekki eru lögráða og fullkomlega ábyrgir gjörða sinna sem fullornir og lögsjálfráða, eiga ekki að sitja uppi með ósjálfráða ábyrgðina á löggjafaþings atkvæði, sem þeir hafa ekki einu sinni lífsáranna þroska né löglegan möguleika á að ábyrgjast.
Vegna ó-sjálfræðis og ó-löglöglegrar ábyrgðar á löggjafavalds áhrifa-atkvæði sínu, má ekki leggja þá ólöglegu ábyrgð á ólögráða einstaklinga.
Er virkilega einhver ábyrgur sjálfráða Íslendingur til í að gera unglinga ábyrga fyrir löggjafavaldinu, án þess að þeir unglingarnir séu lögráða og fullvalda einstaklingar á öllum sviðum opinbera kerfisins innan löggjafa/dómskerfisins?
Ég var rúmlega 20 ára þegar ég hafði fyrst leyfi til að kjósa í alþingiskosningum. Ég hafði hvorki aldursþroska né pólitíska innsýn í raunveruleikans alvöruna, sem fylgir því að bera ábyrgð á alþingiskosninga atkvæði. En ég fór samt og nýtti kosningaréttinn minn. Það hef ég alltaf gert þegar ég hef búið á Íslandi.
Og það er ekkert leyndarmál af minni hálfu, að ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta skiptið sem ég mátti kjósa í alþingiskosningum. Vegna þess að mér fannst Þorsteinn Pálsson svo mánefnanlegur, rólegur og traustvekjandi maður, og hann var víst einhversstaðar efstur á lista Sjálfstæðisflokksins þá. En hann var ekki efstur á lista í kjördæminu sem ég mátti kjósa í. Ég var ekkert að velta því sérstaklega fyrir mér, þegar ég var rétt rúmlega 20 ára. Svona var nú þetta fyrsta kosninga-bernskubrek mitt. Og mér finnst Þorsreinn Pálsson ennþá vera málefnanlegur, rólegur og traustvekjandi maður.
Blessaður kæri tengdafaðir minn, hann Einar Ólafsson heitinn á Lambeyrum í Laxárdal í Dalasýslu, fórnaði næstum því höndum til almættisins, og mig minnir að hann hafi næstum beðið guð að hjálpa sér og mér, þegar ég sagði honum hreinskilningslega og heiðarlega eins og okkar samskipti voru ávalt, að ég hefði kosið Sjálfstæðisflokkinn.
Ég skildi það á honum Einari heitnum tengdapappa, að líklega hefði ég að einhverju leiti svikið hluta af réttlætis samviskunni minni, þegar ég kaus Sjálfstæðisflokkinn. Barnaleg og pólitískt reynslulaus sem ég var, þarna á fyrri hluta níunda áratugarins.
Ég hef alla tíð eftir þetta fyrsta kosningaferðalag mitt, kosið þann flokk sem mér hefur fundist efsti maður flokka vera traustsins verður. Ég hef ekki enn kunnað þá pólitísku kosninga rétt trúnaðarlist, að kjósa bara flokk, út af flokknum andlitslausa.
Ég hef sem betur fer ekki enn náð að vanþroskast niður í stríðandi pólitísku sundrungar hjólförin. Og er nú að nálgast 60 ára aldurinn. Mun líklega ekki læra pólitísk sundrungar sérvisku-trúarbrögð hér eftir, fyrst ekki hefur hingað til tekist að rétt-trúar-innprenta í mig rifrildishjólförin flokka-sundrandi á nokkurn hátt.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.1.2018 kl. 00:44
leyfum börnum og unglingum að vera í friði, það er ábyrgðarhlutverk að kjósa
til landsstjórnar. Flestir fara ekki að velta þessu fyrir sér fyrr en eftir tvítugsaldurinn, og geta mótað sér einhverja afstöðu byggða á skynsemi. Ég man sjálfur að menn mættu með snuð í framhaldsskólann minn til að veiða atkvæði í vinstri flokka! Er þetta ekki of langt gengið að lítilsvirða unga fólkið með þessum hætti og hirða af þeim atkvæði ...
Einar (IP-tala skráð) 10.1.2018 kl. 02:00
Sigfús,
Það sem flokkarnir eru á höttunum eftir hérna eru ginkeyptir kjósendur. Það er enginn að tala um að veita ungu fólki meiri ábyrgð, því þá væri líka verið að bjóða þeim að kaupa áfengi löglega, gifta sig, stofna til fjárhagslegra skuldbindinga og keyra.
Þegar ég segi "vinstriflokkarnir" tala ég aðallega út frá reynslunni í Danmörku. Flokkarnir á vinstrikantinum eru sólgnir í þessa kjósendur og vinstrisinnuð nemendasamtök berjast fyrir þessu máli af fullum krafti.
Það er algjör óþarfi að undanskilja Sjálfstæðisflokkinn frá "vinstrinu". Íslensk stjórnmál eru miklu lengra til vinstri almennt en t.d. þau dönsku, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn væri sennilega staðsettur á miðjuna í Danmörku. Enda er hann að lofa námsframfærslu, stærra velferðarkerfi og allskonar fyrir alla.
Geir Ágústsson, 10.1.2018 kl. 07:58
Málið er sjálfdautt. Lögbrot eins og segir í frétt MBL í dag, því kosningaréttur tengist kjörgengisaldri sem ræðst af lögræðisaldri - sem er 18 ár.
Kolbrún Hilmars, 10.1.2018 kl. 13:21
Hvaða mál er þingið að læðast með núna, þau eru þekkt fyrir að dreifa athygli kjósenda frá því sem er verið að gera og sletta fram málum eins og áfengi í verzlanir og lækka kosningaaldurin?
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 10.1.2018 kl. 17:17
Sæll Geir,
Ég vildi leyfa mér að rengja fullyrðingu þína um að íslensk stjórnmál séu almennt miklu lengra til vinstri en dönsk. Það fer að vissu leyti eftir því hvaða skala þú brúkar til verksins, en að sama skapi þá tel ég að ef maður nýtir klassísku skilgreininguna á ‘vinstri-hægri’ þá er ég ekki viss um að þú hafir alfarið rétt fyrir þér. Dönsk stjórnmál, líkt og stjórnmál hinna Norðurlandanna, hafa að verið undir áhrifum þess að í þessum löndum fyrirfinnast yfirleitt sterkir, og sameinaðir, flokkar sósíaldemókrata. Þetta hefur að mörgu leyti verið grundvöllur hinna margrómuðu ‘norrænu velferðarkerfa’. Hér er það því að vissu leyti sérstaða Íslands, að Íslensk stjórnmál hafa lengi vel verið merkt af fjarveru sameinaðs framboðs sósíaldemókrata. Inn í þetta spilast svo öll sjálfsstæðisbaráttan heima sem hefur þónokkur áhrif á hvernig framþróun stjórnmálaflokka hefur verið.
Danskir stjórnmálaflokkar eru í seinni tíma orðnir álíka miklir miðjumoðsflokkar og aðrir flokkar í vesturhluta Evrópu (leyfi ég mér að halda fram - og bíð spenntur eftir því að fróðari menn leiðrétti þessa órökstuddu fullyrðingu mína). Menn berjast um hylli millistéttarinnar, sem sífellt fer vaxandi - samhliða því að reyna að höfða til fyrirtækja gegnum skattlagningu til þess að tryggja efnahagslegan vöxt. Aukin þjóðernisvakning, sem hefur vaxið ásmegin í kjölfarið á afleiðingum styrjalda víðsvegar um heim (og að því er sumir vilja meina vaxandi hlýnun jarðar), hefur síðari ár verið vaxandi grundvöllur fyrir stjórnmálaflokka að sækja kjósendur. Hérlendis virðist lítill munur vera á nútíma sósíaldemókrata og ‘Venstre’manni - hvorir tveggja eru hluti hinnar stigvaxandi millistéttar, sem kjósa að mestu leyti ‘status quo’. Það sem að mestu leyti hefur haft áhrif í danskri pólitík síðari ár er hversu sterkir minni flokkarnir eru á sinnhvorum enda hins klassíska skala - vinstri-hægri. Nútíma kommúnistarnir í Enhedslisten hafa í góðæri dregið umræðuna lengra mót vinstri, með auknum bótum, rýmkun á reglum um leng atvinnuleysisbóta, meiri fókus á umhverfið, o.s.frv. á meðan lagsbræður þínir í Liberal Alliance berjast fyrir minna velferðarkerfi, bótafíkn, lægri sköttum, o.s.frv. Þessir flokkar hafa svo oftar en ekki þurft að lúta í lægra haldi fyrir gildisumræðunni sem þjóðernis flokkurinn Dansk Folkeparti hefur barist fyrir síðasta áratug - þ.e. við á móti þeim umræðunni. Sem hefur fengið mikinn stuðning hjá þeim sem hafa verið hefðbundnir kjósendur sósíaldemókrata, þ.e. eldri borgara og fólki með styttri menntun.
Hér hafa borgaralegu flokkarnir (þ.e. klassísku hægri flokkarnir) síðari ár verið að stóru leyti að berjast fyrir sömu málum og rauðu flokkarnir (þ.e. klassísku vinstri flokkarnir). Danskir sósíaldemókratar hafa að sama skapi síðari ár fært sig lengra og lengra til hægri (væntanlega til að nappa kjósendur), þar sem þeir hafa t.d. kosið oftar með málum hinnar borgaralegu ríkisstjórnar enda stjórnarandstöðunnar ‘rauðu’ - síðan 2105. Svo sleppa þeir endrum og eins í gegn með málefni sem virðast engan veginn í takt við klassíska stefnu þeirra, samanber sölu DONG til fjárfestingabanka undir stjórn Thorning Schmidt.
En hvort að aukinn kosningaréttur ungmenna gagnast vinstriflokkum meira en hægri er erfitt að segja nokkuð marktækt um. Hérlendis hafa síðustu kosningar sýnt að delingin er nokkurn veginn 50/50 milli borgaraflokka og vinstriflokka hvað kosningu þeirra sem eru að kjósa í fyrsta sinn varðar.
Haukurinn, 11.1.2018 kl. 07:47
Sæll Haukur,
Takk fyrir góða athugasemd. Hún verður mér vonandi efni í sérstakan pistil um þetta efni. Hvað sem því líður finnst mér samt eins og að ef hinn íslenski Sjálfstæðisflokkur væri þátttakandi í dönskum stjórnmálum þá væri hann óaðgreinanlegur frá hinum danska Socialdemokraterne (sem vilja öflugt atvinnulíf til að framleiða peninga ofan í ríkishítina, hafa talað fyrir lækkun opinberra skulda og vilja stilla skattlagningu á millistéttina í hóf).
Geir Ágústsson, 11.1.2018 kl. 08:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.