Þriðjudagur, 12. desember 2017
Bitcoin-bólan og framtíð rafmynta
Svo virðist sem Bitcoin rafmyntin sé á einhverju flugi þessar vikurnar. Hún hækkar og hækkar. Hvernig stendur á því?
Hluti ástæðunnar eru væntingar. Kaupendur eru að vænta frekari hækkana. Þegar þær eru orðnar nógu miklar ætla þessir kaupendur að selja. Svona menn finnast á öllum mörkuðum og því vitaskuld á þessum líka.
Hluti ástæðunnar er skortur á ávöxtunarmöguleikum. Ríkisskuldabréf borga litla sem enga vexti og jafnvel neikvæða vexti. Þótt hlutabréf séu í himinhæðum þá er tekjustreymi og hagnaður margra fyrirtækja ekki í jafngóðu ástandi. Hlutabréf eru í bóluástandi og mun hærra verðlögð en arðgreiðslur geta staðið undir. Menn leita því í eitthvað annað eins og listaverk og rafmyntir.
Hluti ástæðunnar er spennan í kringum hina nýju tegund peninga. Mörg fyrirtæki eru byrjuð að taka við greiðslum í Bitcoin. Það eykur enn á spennuna og auðvitað trúverðugleikann líka. Rafmyntir eru sennilega komnar til að vera þótt það eigi enn eftir að koma í ljós hvort Bitcoin verði einráð eða hluti af mörgum rafmyntum eða detti jafnvel úr leik.
Margir tala um að rafmyntir séu framtíð greiðslumiðlunar. Seðlabankapeningarnir eru of pólitískir, óstöðugir og ótrúverðugir. Bandaríski dollarinn mun syngja sitt síðasta í náinni framtíð. Evran stendur á brauðfótum. Japanska jenið er í fjöldaframleiðslu í viðleitni þarlendra stjórnavalda til að búa til verðbólgu. Rafmyntir eru hins vegar í takmörkuðu upplagi (eins og gullið góða), rafrænar og alþjóðlegar. Þær þarf ekki að flytja með dýrum flutningaleiðum eins og gull og silfur. Þegar menn hafa komið í veg fyrir öryggisbresti standi ekkert í vegi fyrir framtíð rafmyntanna.
Núna virðist vera Bitcoin-bóla en það verður spennandi að sjá hvernig rafmyntir þróast í framtíðinni.
Hækkun bitcoin smitar út frá sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.