Notað og nýtt

Góði hirðirinn er sprunginn. Fólk þarf að henda nothæfum hlutum. Árið er 2007 á nýjan leik.

Þeim hjá Góða hirðinum hefur ekki dottið í hug að lækka hjá sér verðið?

Neytendur ættu að geta gert góð kaup núna. Það ætti að vera ódýrt að innrétta heilt hús með fullkomlega nothæfum hlutum. 

Er enginn sem liggur á tómlegu vöruhúsi sem gæti hugsað sér að stofna til reksturs svipuðum þeim hjá Góða hirðinum? Það hljóta að vera viðskiptatækifæri fólgin í því að fá ókeypis varning inn á lagerinn, skella á hann verðmiða og selja aftur. 

Íslendingar verða sennilega seint þekktir fyrir að nýta hluti til hins ítrasta. Miklu frekar kaupa þeir allt nýtt og taka jafnvel lán fyrir því í stað þess að eiga fyrir eyðslunni. Ekki veit ég hvernig stendur á því. Sjálfur ólst ég upp í raðhúsi sem var ekki orðið íbúðarhæft að fullu fyrr en ég var orðinn unglingur. Eftir því sem peningastaðan leyfði voru fleiri og fleiri herbergi opnuð, en ekki fyrr.

Kannski vita Íslendingar að efnahagsstaðan er brothætt og því um að gera að kaupa það sem manni langar til á meðan bankarnir vilja lána og atvinnurekandinn getur borgað vel. Þegar allt hrynur til grunna á maður þá þrátt fyrir allt fínu hlutina sína enn.

Ég vona að íslenskur almenningur sé að finna jafnvægi á milli þess að njóta á meðan vel gengur og búa í haginn fyrir erfiðari tíma. Þeir ættu að forðast neysluskuldir eins og yfirdrátt og raðgreiðslur. Þeir ættu að eyða í hluti sem hafa notagildi og endast. 

Kæru Íslendingar, ekki treysta á björgunaraðgerðir, opinberar bætur og inngrip stjórnmálamanna ef og þegar illa fer.


mbl.is Góði hirðirinn sprunginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Kæru Íslendingar, ekki treysta á björgunaraðgerðir, opinberar bætur og inngrip stjórnmálamanna ef og þegar illa fer."

Eins og reynslan hefur sýnt er því ekki einu sinni treystandi að lögvarinn grundvallarréttindi neytenda séu virt í efnahagshruni, hvað þá að þeim verði hjálpað neitt umfram það sem þeir eiga að lágmarki rétt á.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.12.2017 kl. 13:29

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er þetta ekki eitt form af tricle down economics að próletaríið njóti brauðmolana af borði hinna betur settu. Allavega eru þetta ekki góðgerðir.

Annars finnst mér að Góði Hirðirinn, sem er jú rekinn til góðgerða að sögn, læri aðeins um framboð og eftirspurn. Verðmiðarnir breytast lítið þar og sumt á hærra verði en væri það keypt nýtt. Að raka inn fé af hinum verst settu til að miðla til hinna verst settu er ansi tvírætt módel.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.12.2017 kl. 13:45

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Best er auðvitað að haga málum sínum alltaf þannig að maður sé sem minnstri í hættu á að þurfa treysta á opinbera aðstoð.

Ég þekki t.d. manneskju sem var að kaupa sér íbúð og ákvað að kaupa aðeins dýrari íbúð en þörf var á því í boði voru veglegar vaxtabætur. Nokkrum mánuðum seinna var búið að breyta vaxtabótakerfinu svo hún fékk skyndilega engar slíkar og sat uppi með greiðslubyrðina.

Jón Steinar,

Svokallaðar "trickle down economics" eru vandmeðfarið hugtak. Jú, það voru vissulega þeir ríku sem kaupa lúxusbíla sem fjármögnuðu þróunarkostnað ABS-bremsukerfanna, sem urðu svo seinna nógu ódýr til að enda í ódýrari bílum. En það getur enginn fátæklingur í Saudi-Arabíu vænst þess að hagur hans batni þótt olíuverð tvöfaldist. 

Um hugtakið "trickle down economics" (sem stuðningsmenn frjáls markaðar nota aldrei sjálfir) má fræðast nánar hér:

https://fee.org/articles/there-is-no-such-thing-as-trickle-down-economics/ 

Geir Ágústsson, 11.12.2017 kl. 14:31

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Geir, mér sýnist þú ekki hafa áttað þig á hvað Guðmundur var að tala um. Hann var að tala um að fjármálakerfið og jafnvel yfirvöld, virtu ekki lágmarksréttindi lántaka.

Ég veit þetta þar sem við störfuðum báðir fyrir Hagsmunasamtök heimilanna á sínum tíma. Nægir að nefna gengislánin, vafasaman lagagrundvöll verðtryggingarinnar og vaxtaokur sem er langt umfram það sem getur talist vera eðlilegir vextir.

Ég held að Guðmundur hafi ekki verið að kalla eftir neinni ölmusu frá hinu opinbera, hvorki fyrir sjálfan sig né aðra, ef ég hef skilið athugasemd hans rétt.

Hvað hvatningu þína til nægjusemi varðar, þá er ég hinsvegar heilshugar sammála henni. Hér í Svíþjóð er sambærilegt fyrirbæri við Góða hirðinn, Erikshjälpen og þar er alveg hægt að finna ágætis vörur, t.d. húsgögn í góðu standi og á fínu verði.

Theódór Norðkvist, 11.12.2017 kl. 14:53

5 identicon

Fann hjá mér í dag penna merktan "Atorka" eina sem eftir er af hlutbréfaeign og klárlega dýrasti penni sem ég mun nokkurn tíman eignast. Virði hluta í krónum hlýtur alltaf að fara eftir hvað aðrir eru tibúnir að greiða fyrir hann í krónum

Grímur (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 21:28

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Finnst rétt að segja frá því að Góði hirðirinn veitti a.m.k. 2 svar svo ég veit til umtalsverðan styrk til fátækra stúlkna sem stunduðu háskólanám.Þekkt kvenfélag hafði styrkinn á stefnuskrá sinni og leitaði til fyritækisins með þessum góðu undirtektum. 

Helga Kristjánsdóttir, 12.12.2017 kl. 01:10

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Theódór,

Ég var ekki viss en takk fyrir staðfestinguna.

Ég held að enginn þingmaður hafi séð fyrir sér hrunið og gríðarlega skuldsetningu heimila í erlendum gjaldmiðlum þegar lög voru samin á sínum tíma. Eðlilega hefur svo tekið dómstóla langan tíma að greiða úr flækjunni. Ekki veit ég svo hvort öll kurl eru komin til grafar þar.

Menn komu sér samt í vandræði með því að taka lán í öðru en þeim gjaldmiðli sem viðkomandi fengu laun í. Vonandi lærðu allir sína lexíu. Þá er ég ekki að tala um ölmusa, heldur bara það að koma sér í stöðu sem krefst aðkomu yfirvalda eða dómstóla þeirra. 

Geir Ágústsson, 12.12.2017 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband