Stjórnmálin og sjávarútvegurinn: Banvæn blanda

Sjávarútvegurinn er umdeildur atvinnuvegur á Íslandi. Honum gengur líka yfirleitt vel og það getur verið varasamt.

Það finnst öllum frábært að útvegurinn leggi á sig alla vinnuna. Það þarf að ákveða hvaða fiska á að veiða, hvar og hvenær. Það þarf að velja réttu skipin og veiðarfærin og halda því öllu saman við. Það þarf að ráða menn til vinnu og borga þeim. Það þarf að vinna aflann, flaka hann, flytja og ferja á milli heimshluta. Það þarf að ákveða á hvaða markað á að setja hvað til að hámarka söluverðmætið. Það þarf að flokka afla og ákveða hvað skal selt frosið, ferskt, þurrkað eða brætt. Það þarf að pakka sumu í stórar umbúðir og aðrar í litlar. 

Í stuttu máli: Það er ekkert sjálfgefið við það að hagnast á veiði fiska. Það er í raun flókið mál. 

Að lokum þarf að gera upp og reikna út hagnað eða tap af starfseminni.

Komi í ljós hagnaður eru margir fljótir að segja að útvegurinn hafi fengið arð af auðlind þjóðar og að hann þurfi að skattleggja í ríkissjóð. Verði sú skattlagning of há leiðir það til samdráttar í greininni því eftir því sem rekstraraðilinn er stærri, því líklegra má telja að honum takist að lifa af skattheimtuna.

Komi í ljós tap verða margir áhyggjufullir. Fólk óttast uppsagnir og töpuð störf. Fari svo er talað um að það þurfi að veita byggðakvóta, veikja gengið og grípa til sérstakra ráðstafana.

Þeir sem tala um að vilja skattleggja sjávarútveginn enn meira en um leið að sjávarútvegurinn þurfi að vera sem víðast til að tryggja byggð í hverjum firði eru auðvitað í mótsögn við sjálfan sig.

Þeir sem tala um að vilja auðvelt aðgengi að sjávarútvegi fyrir nýliða (trillukallinn?) en um leið að sjávarútvegur eigi að borga himinháa skatta eru líka í mótsögn við sjálfa sig.

Þeir sem telja sjávarútveginn þéna of mikið eru bara að horfa á ársuppgjör stærstu og hagkvæmustu fyrirtækjanna, sem eru um leið að styrkjast eftir því sem skattheimtan kreistir lífið úr samkeppnisaðilum þeirra.

Byggðakvótinn svokallaði er plástur á það sár sem ríkisvaldið hefur sjálft valdið sjávarútvegnum. Væri ekki nærtækara að hætta að særa sjávarútveginn og afnema þessar sértæku ríkisaðgerðir, sem virka um leið til atkvæðakaupa fyrir stjórnmálamenn án hugsjóna?


mbl.is Sértækur byggðakvóti eykst um 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hér grautar þú öllu saman Geir. (Eins og svo margir aðrir) Veiðar og vinnsla eru sitthvað. Hér erum við að tala um veiðarnar og það óréttlæti sem kerfið felur í sér. Fyrst að ákveðið var að setja höft á atvinnufrelsi manna með þessu arfavitlausa kvótakerfi þá átti náttúrulega að búa svo um hnútana strax að þeir sem nutu forréttindanna á úthlutunum greiddu fyrir það eðlilegt markaðstengt gjald. Þetta var ekki gert og þess vegna er öll þessi óánægja enn við lýði 35 árum eftir að kvótasetningin var sviksamlega leidd í lög undir blekkingum og hótunum.

Sjálfsákvörðunarréttur til búsetu og atvinnu er ekki fyrir hendi hér. Hann er í höndum þeirra sem ráða yfir kvótanum. Við tölum mikið um mannréttindi glæpamanna en aldrei um mannréttindi íslenzkra sjómanna!

Byggðakvótinn er plástur. Það er rétt. En á meðan enginn vill lagfæra það sem er að, þá á frekar að auka og stækka þennan plástur, heldur en að rífa hann af.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.11.2017 kl. 14:56

2 identicon

Ég hef aldrei skilið af hverju hinir og þessir aðilar

hér og þar á landinu sem vita nákvæmlega ekkert um sjávarútveg telja sig vera hluta af "þjóð" sem á að "eiga" sjóinn og fiskinn "í sameiningu". Þetta hefur alltaf verið fáránleg hugmynd.

Að sjálfsögðu á allur sjórinn að vera í einkaeign, rétt eins og sérhver annar fersentimetri á jarðkringlunni.

Hagfræðingurinn Walter Block hafði hárrétt fyrir sér þegar hann sagði:

http://thelibertycaucus.com/wp-content/uploads/2013/07/walter-block-privatization.jpg

JSR (IP-tala skráð) 22.11.2017 kl. 18:26

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það virðist a.m.k. virka fyrir bændur að geta gengið að sínu landi vísu, sem eign þar til hún er seld, frekar en að slást við aðra í sífellu um beitarland, ræktarland og annað sem fylgir búskap. 

Það virkar líka vel fyrir umhyggjusama garðeigendur að vita að lóðamörkin eru nokkuð stöðug til lengri tíma. Þá geta sumir ræktað rósir og aðrir rækta illgresi, en ef einhver hellir eiturefnum í jörðu sem ná yfir lóðamörkin þá sé von á skaðabótamáli.

Það virkar líka vel fyrir siðprúða sósíalista að vera í húsnæði sem þeir eiga eða leigja og kalla sitt, og vaknað á hverjum morgni í sama rúmi, og labba að sömu ritvél til að skrifa sósíalískan áróður um mikilvægi svokallaðrar sameignar á öllu nema þeirra eigin hlutum. 

Geir Ágústsson, 22.11.2017 kl. 18:49

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gengur sjávarútvegur yfirleitt vel?

Hvað er sjávarútvegur - niðurstöðutala í rekstrarreikningi útgerðarfyrirtækis-fyrirtækja, eða er hann afrakstur úr auðlindinni ásamt hagsæld þeirra byggðarlaga sem næst fiskimiðunum liggja?

Gengur sá atvinnuvegur vel sem hefur verið stýrt til skortstöðu og gróða fáeinna fyrirtækja en skilar mun færri störfum og innan við helmingsafrakstri eftir meira en 30 ára vernd undir stjórn rándýrrar vísindastofnunar?

Er það til marks um velgengni þegar sjávarplássin eru að leggjast í auðn vegna skortstöðu í aflaheimildum og fjölskyldur neyðast til að yfirgefa óseldar fasteignir?
Hagsæld felst ekki í jákvæðum rekstrartölum exelskjala.


Hagsæld felst í gróskumiklu mannlífi, bjartsýnu fólki og lífshamingju. 

Árni Gunnarsson, 22.11.2017 kl. 21:48

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Því hefur verið haldið fram að kvótakerfið í stjórn fiskveiða hafi orðið þjóðinni til meira tjóns en Móðuharðindin.

Ég held að það reikningsdæmi hafi aldrei verið frágengið.

En ég tel að samlíkingin eigi sér skiljanlegar forsendur.
Af því að það hlýtur að vera hafið yfir allan vafa að í tengslum við kvótakerfið hefur þróast það ástand sem skilað hefur meiri misskiptingu þjóðarauðs en áður þekktist.

Árni Gunnarsson, 22.11.2017 kl. 21:55

6 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gott innlegg Árni. Nú er lag fyrir Geir Ágústsson hagfræðimenntaðan manninn að skila til baka kostnaðinum sem þjóðfélagið bar af skólagöngu hans laughing og reikna skaðann sem kvótakerfið hefur valdið og bæta síðan við veiðiráðgjöfinni sem skilar í dag helmingi minni afla en jafnstöðuaflinn á 40 ára tímabili milli 1945 - 1985

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2017 kl. 00:18

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ekki er ég hagfræðimenntaður og þaðan af síður í stöðu til að geta í eigin hjarta saknað óarðbærra atvinnugreina í byggðum sem tíminn er að þurrka út með breyttum kröfum og áherslum.

Ég er heldur ekki að halda því fram að magnbundnar takmarkanir Hafrannsóknarstofnunar séu rétta leiðin til að tryggja nægan fisk í sjó.

Hafið er land þakið vatni, rétt eins og stöðuvötn í eigu bænda sem þeir passa vel eða mýrar þeirra. Ef ætlunin er að bæði nýta og vernda það sem þar er að finna þarf að koma því í umsjón einkaaðila. Ríkisvaldið er tregt til að læra af mistökum. Kannski væri hafinu betur borgið ef bændur með land að sjó gætu rökstutt tilkall til fyrstu 2-3 sjómílanna frá því og út á haf. Þeir gætu þá róið trillunni sem margir sakna. 

Kvótinn er uppfinning mannsins rétt eins og kerfi án hans eru. Í mörgum samfélögum hafa menn brugðið á það ráð að fela ríkisvaldinu meira og meira vald yfir auðlindunum. Niðurstaðan er yfirleitt fátækt og stöðnun. 

Íslendingar hafa þó haft vit á því að gera útgerð að eftirsóknarverðri starfsgrein með sínu kerfi með því að koma þar á séreignarrétti. Hvort magnstýringin á við rök að styðjast er annað mál. 

Geir Ágústsson, 23.11.2017 kl. 07:00

8 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég hef notað þessa líkingu um sjóinn og landið en á allt annan hátt. Ég hef löngum sagt að hafsbotninn væri beitarland fisksins á sama hátt og heiðar og tún eru beitarlönd búsmala þess vegna eigi Hafró aðeins að rannsaka beitarþol hafsins en ekki telja fiska. Áður en kvótasetning var tekin upp í landbúnaði (af því menn sáu að kvóti var jafngildi peninga!) þá réðu umhverfisþættir því hvernig bændum farnaðist búskapurinn. Ef árferði var gott og fé kom vel haldið af fjalli og heyfengur var góður þá var fjárstofn aukinn sem þýddi meiri arð af búinu næsta ár. Bændur vita nefnilega að það verður að slá grasið til að túnið gefi hámarksnytjar. Hafró skilur ekki búvísindi og reyndar skilja þeir engin vísindi nema tölfræði. Hafró lætur fiskstofna vaxa yfir þau mörk sem vistkerfið þolir og það er ósjálfbær aðferðafræði. Að einkavæða hafsbotninn eins og þú talar um sem lausn á umgengnisvanda greinarinnar er í gildi en tryggir ekki ábyrga nýtingu. Allt í kringum landið hefur efnistaka úr fjörum og ám skemmt og breytt lífríki lands og sjávar. Þar hefur græðgin og fyrirhyggjuleysið ráðið för. Ef fiskveiðar eiga að áfram að standa undir lífskjörunum í landinu þá verður að breyta um aðferðafræði og taka upp sjálfbæra nýtingu í sátt við umhverfið. Veiðarnar per se útrýma ekki fiskstofnum. Þær eru löngu orðnar óarðbærar áður en fiskstofnar deyja út.  Of stórir fiskstofnar og vitlaust samsettir með tilliti til aldursdreifingar eru miklu skeinuhættari fyrir nýliðunina heldur en óheftar veiðar. Í kerfinu okkar sem byggir á friðun smáfisks næst aldrei rétt aldurssamsetning. Við erum að byggja stofna upp með of gömlum og fæðufrekum árgöngum. Þegar svo harðnar á dalnum þá étur stóri fiskurinn allt ungviðið og drepst svo sjálfur að lokum. En þegar þetta ferli hefst þá vita fiskifræðingar ekkert því þeir eru alltaf að skoða hvað gerðist en ekki rýna í hvað mun sennilega gerast og bregðast við því eins og bóndinn sem fellir sjálfur sinn búsmala en bíður ekki eftir að hann horfelli. Án ígripa Hafró voru veiðarnar í jafnvægi. Þá tíðkaðist líka brottkast en aðeins á smáfiski sem má réttlæta sem nauðsynlega grisjun.  Í dag er brottkastið vegna of lítils kvóta og of mikillar græðgi. Brottkastið í dag er glæpur án refsingar.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.11.2017 kl. 11:10

9 identicon

"Í stuttu máli: Það er ekkert sjálfgefið við það að hagnast á veiði fiska. Það er í raun flókið mál." 

LOL! Það er ljóst á orðum þínum Geir að þú ert í hagsmunahópnum. Það er ekkert mál að skapa verðmæti úr mat í heim þar sem ríkir matarskortur. Það eina sem þarf er örlítið skipulag og smá dugnaður. Þegar einstaklingur hefur "rétt" til mokað matvöru upp úr sjónum, þá eru það mikil vold og miklir peningar sem um ræðir. Útsjónarsamur einstaklingur lætur aðra vinna fyrir sig verkin, eins og raunin er.

Ef þú trúir þessu sem þú segir í raun, þá er illa fyrir þér komið, ef ekki, þá ertu að standa þig í plottinu um verdun útgerðaólígarkana.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 23.11.2017 kl. 17:34

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég er ekki í útgerð, á ekki í útgerð og hef engin persónuleg tengsl við útgerð.

Útgerð er víðast hvar í heiminum niðurgreiddur ölmusaþegi á framfæri skattgreiðenda, og sjómenn fátæk stétt eins og bændur á Íslandi. 

Geir Ágústsson, 23.11.2017 kl. 19:16

11 identicon

Menn þufa víst bara að vera í réttum flokki til þess að forpokast með slíkum hætti. Þetta er þekkt mantra á Íslandi.

Árið 1996 kynnti ég alheimsnýjung á Sjávarútvegssýningunni það árið. Það var netverslun með frosinn fisk. Þessu var víðast hvar vel tekið nema hjá stóru sölusamböndunum, þau vildu ekki gefa upp lagerstöðu sína af því að þeir voru hræddir um "óeðlilega verðmyndun," eins og einn ólígarkinn orðaði það. Það er merkilegt hvað margt viðskiptafólk er hrætt við frjáls viðskipti! En þar komum við að sannleiknum með hlutafélagið sem leitast sífellt við að komast í einokunarstöðu.

Þessir menn stela af mér og þér og flestum öðrum Íslendingum. Það má kannski stilla þessu upp svona; Síðan þú fæddist Geir, hvað hefur sjávarútvegurinn fætt marga milljóna munna? Hvað hefur þú fengið mikið af þeim arði í þinn vasa? Ekkert er svarið fyrir flesta Íslendinga.

Áður en þú svara þessu með að samfélagsábyrgð sjávarútvegsins sé mikil í formi afvegaleiddra bla, þá á það sama við mafíuna á Ítalíu. Staðreyndin er að stór hluti af þessari auðlind endar á földum reikningum á tortóla og álíka stöðum, stór hluti fer í að byggja gagnslausar verslunarmiðstöðvar og nú er þeir komnir með lénskipulag á húsnæðismarkaði í gegnum hrægammafélög. Þetta á eftir að enda vel fyrir þá ef þeir halda áfram með sama hætti.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 23.11.2017 kl. 20:22

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigþór, kenningar þínar rista djúpt og ég get ekki svarað fyrir þær allar. 

Ég heyrði einu sinni mann segja að þriðjungur af öllum hagnaði í heiminum fæðist í bankageiranum. Þar er kannski frekar eftir einhverju að slægjast.

Geir Ágústsson, 23.11.2017 kl. 21:21

13 identicon

Já ef menn eru að hugsa peninga þá er bankageirinn málið. Vandamálið við þá vinnu fyrir mig persónuleg  er að ég mundi líklega fremja sjálfsmorð í fyrsta matartímanum. 

Það versta við banka er að þeir skapa engin verðmæti, þeir éta af verðmætum og má því flokka sem afætur. Þeir lána peninga annara til famkvæmda og koma ýmsu til leiðar með þeim hætti en það svipað eins og að láta Hollywood um alla kvimyndagerð í heiminum þ.e. innihaldið verður frekar rýrt samanber United Silicon.

Bankar eru peningatré nútímans fyrir eigendur sína. Innann veggja þeirra eru litlir svartir kassar sem fólk situr fyrir framan og slær inn tölur. Tölurnar í litlu kössunum er nuddaðar og vökvaðar með réttum hætti, þannig að upp úr þeim vaxa nýjar tölur og verða til í raunheimum, líkt og tré gefur af sér lauf. En þessi lauf eru electrónísk. Þetta er okkar raunveruleiki sem hljómar eins og ævintýri. Þetta er næstum því jafn gott og kallinn í himninum.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 23.11.2017 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband