Vinstristjórn, og hvað svo?

Nú eru kosningar yfirstaðnar og stjórnarmyndunarviðræður hafnar undir forystu Vinstri-grænna.

Nú spyr ég, í fullri einlægni: Við hverju má búast af vinstristjórn?

Það er búið að lofa auknum ríkisútgjöldum. Ég held að enginn sé að reyna kjafta sig út úr því. Það er líka búið að lofa því að fjármagna þau með hærri sköttum. Ég held að enginn reyni heldur að kjafta sig út úr því.

Nú þegar hafa ríkisútgjöld aukist mikið. Sá vöxtur hefur aðallega verið fjármagnaður með því sem mætti kalla góðærisskattheimtu: Skattskyldar tekjur hafa aukist mjög og því duga óbreyttar eða örlítið lækkandi skattprósentur til að fjármagna aukin ríkisútgjöld.

Þetta dugir samt vinstriflokkum seint. Þeir kalla líka svona tegund vaxtar á ríkissjóði "vúdú-hagfræði", þ.e. sú hagfræði sem segir að ef ríkisvaldið minnkar skattheimtu þá eykst vöxtur og velmegun hins frjálsa markaðar sem borgar þá um leið meira í skatta, jafnvel þótt skattprósentur lækki og sumar jafnvel hverfi alveg. 

Vinstrimenn munu því ekki treysta á "vúdú-hagfræðina" til að stækka ríkissjóð. Nei, þeir munu hækka skatta og bæta við sköttum. Vonandi dylst það engum.

Spurningin er bara: Á hvern á að hækka skatta?

Á það hefur verið bent að til að ríkið geti krafsað í meira en örfáa milljarða þurfi að hækka skatta á miðstéttina. Hátekjuskattar munu því aftur leggjast á miðtekjur. 

Annar möguleiki er að ríkið safni skuldum. Vinstrimenn hafa aldrei verið feimnir við slíkt, jafnvel á þenslutímum þegar ríkið ætti að vera draga saman útgjöld eins hratt og hægt er.

Þriðji möguleikinn er að forgangsraða öðruvísi og hætta fjármögnun á ýmsum hlutum ríkisrekstursins sem koma kjarnakjósendum vinstrimanna lítið við, t.d. lista- og menningarstarfsemi, landbúnaði og sendiráðum. Vinstrimenn hafa samt aldrei lagt niður nokkurn afkima ríkisreksturs. Aldrei. Mun það breytast? 

Katrín Jakobsdóttur kemur vel fyrir og talar að jafnaði skýrt. Núna er samt algjör þoka í kringum hana og hennar ásetning. Veit einhver hvernig þetta fer? 


mbl.is Viðræður hefjast formlega í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Íhaldsmenn á Íslandi virðast vera hættir að kunna lesa sér til gagns.

Flest af því sem hér er haldið fram hefur verið skýrt rækilega en samt á að halda áfram niður rangan veg.

Þeir sem stýra íhaldsflokkunum hafa talað um ógrynni fjár í bönkunum. Slíkar fjárhæðir ætti þá að vera hægt að sækja þangað, einmitt með stuðningi sömu íhaldsflokka.

Talað hefur verið rækilega um að sækja ekki hærri skatta á lág laun eða meðaltekjur heldur þá sem hafa tekjur yfir tvær milljónir á mánuði.

Hér er hægt að sækja aukinn arð af auðlindum hjá þeim sem þær nýta.

Svo var samkomulag í síðustu ríkisstjórn að sækja talsverðar upphæðir til ferðaþjónustu, þá með því að sami skattur sé í þeim rekstri og í öðrum rekstri.  Einn flokkur hefur talað um að fara aðra leið, fara í komugjöld.

Þannig að tekjustofnar eru víða.

Ekki bara hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar og bæturnar eins og margur íhaldsflokkar hafa sótt í duglega síðustu ár.

Sigfús Ómar Höskuldsson, 3.11.2017 kl. 08:59

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sjáum hvað setur. Seinasta vinstristjórn ætlaði heldur ekki að höggva í venjulegt launafólk en gerði það svo um munaði á marga mismunandi vegu. Meðlimir þeirrar ríkisstjórnar hafa meira að segja beðist afsökunar á sumum stjórnvaldsaðgerðum sínum, t.d. skatti sem bitnaði harkalega á eldra fólki í skuldlausu húsnæði á lágum launum. 

Það er rétt að margir stjórnmálamenn úr mörgum flokkum telja að það sé hægt að mjólka bankana án afleiðinga. Mesta hættumerki íslenskra stjórnmála er "þverpólitísk samstaða". Þá er yfirleitt eitthvað mjög slæmt í vændum.

Sjávarútvegurinn er nú þegar að greiða lægri arð og hærri skatta en fyrirtæki almennt. Hvað halda menn að sé hægt að ganga langt í þeim efnum? Eru menn að bíða eftir að allur sjávarútvegur þjappist saman á suðvesturhorninu?

Ekki er nú ferðaþjónustan allstaðar í góðum málum þótt stjórnmálamenn búsettir í Reykjavík láti rútuflokkana á Gullna hringnum blekkja sér sýn. Ferðaþjónusta er líka viðkvæmari fyrir alþjóðlegri samkeppni en flestar aðrar atvinnugreinar. Hvað ætla menn að mjólka hana um mikið? Milljarð? 10 milljarða? Auðvitað á ekki að borga með henni að veita henni undanþágur umfram aðra, en menn fá ekki tugmilljarða út úr skattahækkunum á hana. 

Eða halda menn ennþá að Excel-skjölin segir rétt frá þegar skattahækkun hefur engar aðrar afleiðingar en hærri skatttekjur fyrir ríkissjóð? 

Geir Ágústsson, 3.11.2017 kl. 09:10

3 identicon

Skattar verða hækkaðir á tekjuháa og auðuga. Mætti gjarnan lækka þá á þá tekjulægstu. Það er td ansi gróft að af mánaðartekjum upp á 280.000 séu greiddar 50.000 í skatt.

Það mættu bæta við 2-3 tekjuskattsþrepum á einstaklinga. Auðlegðarskatturinn mætti einnig vera í þrepum. Þetta væru í raun mjög sanngjarnir skattar. Menn munu þó kvarta hástöfum eftir langvarandi veislu þessara aðila í boði Sjálfstæðisflokksins. 

Einnig mætti hækka skatta á fyrirtæki enda eru þeir hér í lægra lagi á vesturhveli jarðar. Hér eru þeir 20% en td 35% í Bandaríkjunum.

Aðrir tekjustofnar gætu verið hækkað og víðtækara auðlindargjald, aukið skattaeftirlit og aukinn skattur á ferðamenn þó vsk verði ekki hækkaður í bráð. Komugjald og hækkað gistináttagjald koma helst til greina.

Aukið skattaeftirlit og hærri sektir geta skilað miklu í ríkissjóð. Fyrir utan það fé sem þannig innheimtist mun draga verulega úr því að fólk og fyrirtæki reyni skattsvik þegar líkur á að það komist upp aukast verulega.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 09:37

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Menn eru hér að telja upp "peanuts" - smáaura sem munu í mesta falli hleypa örfáum milljörðum inn í ríkissjóð - en valda því að fólk og fyrirtæki munu breyta hegðun sinni og gera skattheimtu sífellt erfiðari. Það á að flækja skattkerfið, hækka jaðarskatta og búa til gríðarlega sterka hvata til að fara með fé sitt í felur á einn eða annan hátt.

Þetta hefur verið reynt áður. Ein afleiðingin var sú að eldra fólk tæmdi sparibaukinn og keypti sér Rolex-úr sem það geymdi í bankahólfi.

Nú, örfáum árum seinna, á að endurtaka leikinn.

Þetta er grimmdarleikur sem Excel-útreikningar eru að plata stjórnvöld út í.

Geir Ágústsson, 3.11.2017 kl. 10:01

5 identicon

Auðlegðarskattur er eignaupptaka (þjófnaður)

Skattar á fyrirtæki eru bara 20% -> þegar og ef eigendur fyrirtækjanna ætla að taka út hagnað þeirra þurfa þeir að borga 20% fjármagnsskatt- < semsagt skattlagning upp á 40%. Í bandaríkjunum eru mun fleiri frádráttarliðir viðurkenndir við uppgjör fyrirækja og þar er fjármagnstekjuskattur mun lægri.

Þar sem svona stefna hefur verið reynd hafa afleiðingarnar alltaf orðið slæmar. Efnahagskerfið dregst saman og tekjur allra minnka þar með taldar tekjur ríkisins. Þetta hefur verið reynt t.d. á valdatíma breska verkalýðsflokksins sem leiddi af sér afar slæmt tímabil í Bretlandi.  Sviðþjóð nálgaðist gjaldþrot eftir sjöunda og áttunda áratuginn og tíminn síðan þá hefur að mestu farið í að vinda ofan af vitleysunnu sem gekk á, á valdatíma kratanna. Svo má líka Venezuela.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 10:30

6 identicon

Geir, reynslan af þessu var mjög góð eftir hrun. Það er auðvitað fráleitt að kaupa Rolex-úr til að lækka fjármagnstekjuskatt. Rolex+ur í bankahólfi bera enga vexti. Ef einhver slík dæmi eru til þá eru þau of fá til að skipta máli.

Með því að hækka skatta hinna best settu og auka skattaeftirlit verður komist hjá því að miklir fjármunir streymi til aflandseyja. Þetta é ekki síður við um fyrirtæki. Fé sem annars yrði greitt út sem arður og síðan flutt úr landi myndi dreifast á aðra, nýtast hér á landi og auka hagvöxt.

Áróður sjálfstæðismanna um gamla fólkið sem býr í einbýlishúsum upp á hundruð milljóna en hefur engar aðrar eignir og nánast engar tekjur er auðvitað bull. Ég er hissa á vinstri flokkunum að taka mark á þessu.

Auðlegðarskatturinn er bara eignaskattur eins og hann var hér lengst af nema eignamörkin eru nú miklu hærri. Þetta aumingja gamla fólk hefði á þeim tíma greitt margfalt hærri eignaskatta og þótti þá engum mikið.

Jóhanna og Steingrímur lofuðu að hækka ekki skatta á hina tekjulægstu og stóðu við það. Lægstu bætur voru einnig hækkaðar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 10:59

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Það þurfti nú engar hundruðir milljóna til að féfletta gamla fólkið á sínum tíma og skattleggja sparnað þeirra í burtu í neikvæðu raunvaxtaumhverfi. Þegar hinn nýi eignaskattur var lagður á byrjaði hann á háu eignamarki en afraksturinn olli vonbrigðum og tekjumarkið því lækkað. 

Það er ákveðin almenn lexía í þessu sem mun líka eiga við næstu vinstristjórn: Fyrst er skattur settur á með háu frítekju/eignamarki og vægri prósentu. Þannig er auðvelt að selja þingheimi nýja skattinn. Síðan er frítekju/eignamarkið lækkað og skattprósentað hækkuð. Og áfram er afraksturinn vonbrigði. Þá er bætt í aftur. Mér detta ekki í hug nein dæmi um hið gagnstæða í tíð fráfarandi vinstristjórnar. 

Geir Ágústsson, 3.11.2017 kl. 11:18

8 identicon

Skattar á fyrirtæki og skattar á arð eru tvennt ólíkt. En það er athyglisvert að samtals skuli þeir ekki vera hærri en 40% vegna þess að hæsta skattþrep einstaklinga er 46%. Þetta þýðir að fyrirtækjaeigendur eða bara eigendur eignarhaldsfélaga greiða lægri skatta en margir launþegar.

Með því að lækka launin og telja mismuninn sem arð sleppa þeir með 40% skatt í stað 46% eins og launþegar yfir því skattþrepi verða að sætta sig við.

Mörgum löndum með mun hærri fyrirtækjaskatta en við hefur farnast mjög vel. Ofdekruð fyrirtæki geta boðið hættunni heim. Hvað skyldi hækkun upp í 24% eins og í Noregi gefa af sér mikla tekjuaukningu? Eða 29.79% eins og í Þýskalandi? Eða 33.33% eins og í Frakklandi%

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 11:56

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Hugsanlega ekki krónu.

Geir Ágústsson, 3.11.2017 kl. 12:39

10 identicon

Ásmundur, síðast þegar ég gáði voru fyrirtæki ekki með persónuafslátt.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 14:56

11 identicon

Síðan er kannski í lagi að hugleiða það að það eru fyrirtækin sem borga launin.  Því harðar sem gengið er að fyrirtækjunum því færri fyrirtæki starfa og minna svigrúm verður eftir hjá þeim fyrirtækjum sem lifa að borga laun. 

Einnig má minna á að fyrirtæki borga gríðar upphæðir í tryggingagjöld þ.e. borga skatta fyrir það að borga laun. Því hærri sem launin eru því hærra tryggingagjald.

En hinn  skynsami vinstrimaður er harðánægður með að hafa það verr, bara að engin græði, nái árangri eða hafi það betra.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 15:02

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eðlilegast væri í rauninni að hafa enga skatta á fyrirtæki, en sömu skattprósentu á fjármagnstekjur og á laun. En þá yrði líka að skattleggja nettó fjármagnstekjur eins og ég held að sé t.d. gert í Danmörku, ekki brúttó fjármagnstekjur eins og er gert hér.

Þorsteinn Siglaugsson, 3.11.2017 kl. 16:04

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Og varðandi "auðlegðarskatt". Ég þekki ellilífeyrisþega sem þurftu að taka lán fyrir hinum svokallaða auðlegðarskatti á sínum tíma. Með slíkum skatti er verið að skattleggja eignir sem fólk hefur keypt fyrir fé sem það hefur þegar greitt skatt af. Þess vegna er slík skattlagning ósanngjörn.

Þorsteinn Siglaugsson, 3.11.2017 kl. 16:06

14 identicon

Ég hef aldrei verið góð í stærðfræði Háskolaðra. Og mun víst aldrei verða. Kannski eins gott, því það virðist aldrei koma neitt rétt út úr svona reiknikúnstum ó-upplýstra gráðuprófes-sora af ýmsum tegundum.

En ég tel mig hafa lært það á lífsins flækjuleið, að á 8 árum hafa allir öðlast mikla reynslu og þekkingu, sem ekki var til staðar árið 2008-2009. Þegar valdpíndum þrælum var dembt í að moka alla uppúr djúpt valdamafíustýrðum og sokknum hjólförum í blindbyl. Og það, án þess að fá einu sinnu svo mikið sem skóflu, til að moka upp úr ræningjamafíubanka-kaffærandi skafli þessara voluðu og hvítflibbanna rændu þjóð?

Hvað þá peninga frá skattskjólunum, til að hjálpa til?

Og nú stendur yfir fjölmiðlabann af hálfu sumra, sem ekki tímdu einu sinni skóflu til að hjálpa til við að moka almenning upp úr skaflinum í blindbylnum?

Við erum því miður stödd í fjölmiðlahótuðu glæpagengjaþöggunar sýslumannsembættanna banni!

Hvað finnst fólki á Íslandi um svona handrukkara-stjórnsýslu-yfirvald Björns Inga Hrafnssonar og feluleikaranna co?

Það batnar ekkert á Íslandi með fjölmiðlahótunar þögguðu glæpagengjanna 10-plús, og með að fjársvelta lögreglu!

Svo safna þessir baktjalda-handrukkara-strákar fyrirtækjayfirglæpastýrðra  kúgara fyrir björgunarsveitirnar? Meðan laga og reglanna verðir eru fjársveltir, og handrukkarabanka hótaður pakki?

Er til of mikils ætlast að þetta sé útskýrt á heiðarlegan og réttan hátt, fyrir almenningi?

Já líklega, meðan hér er fjölmiðlabann á fréttir um annað en það sem hentar handrukkaragengi bankanna lögmannamafíunnar reknu fjölmiðlunum?

Lögmannafélag Íslands og læknafélags Íslands steinþegir, um alla handrukkarasærða og hálfdrepna, sem er tjaslað saman á Lands-spítala mafíunnar þögguðu yfirmönnum?

Dómstólar sjá svo um að viðhalda mafíustýrðu þögguninni? Í "réttarríkinu"? 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 18:21

15 identicon

Ég veit vel að fyrirtæki eru ekki með persónuafslátt og hef hvergi haldið því fram. Menn verða að telja hluta tekna sinna sem laun þannig að persónuafsláttur kemur hvergi við sögu þegar menn telja tekjur sem arð í stað launa til að lækka skatta.

Það er ekkert óeðlilegt við það að menn taki lán til að greiða auðlegðarskatt ef eignirnar eru bundnar í verðbréfum og eða fasteignum. Auðmenn taka lán fyrir öllu mögulegu.

Það er stórfurðulegt að menn skuli hafa meiri áhyggjur vegna þess smáræðis sem menn hugsanlega greiða í auðlegðarskatt af td 200 milljóna húsi en af því að fólk með 280.000 króna tekjur skuli greiða 50.000 krónur í skatt á mánuði,

Ef skattleysismörk auðlegðarskatts eru 180.000.000 og húseign ekki undanskilin greiðir sá sem á hús að verðmæti 200.000.000 240.000 á ári eða 20.000 á mánuði í 1.2% auðlegðarskatt. Það hefur enginn slíkur einstaklingur gefið sig fram. Ég efast um að hann sé til. Ef svo er er honum engin vorkunn að selja húsið og kaupa flotta íbúð á lægra verði og lifa kóngalífi á mismuninum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 18:36

16 identicon

Geir, við höfum reynsluna. Hækkun úr 15% í 18% og síðan 20% gafst mjög vel. Þýskaland er talið mjög vel rekið ríki. Við ættum því að skaðlausu að geta hækkað tekjuskatt lögaðila í 30%. Heppilegast væri að gera það i tveim eða þrem áföngum.

Tekjuskattur af lögaðilum verður væntanlega um 80 milljarðar í ár. Hækkun skattsins í 30% gæti þá gefið af sér 40 milljarða í ríkissjóð, jafnvel meira. Aukið skattaeftirlit eykur þessar tekjur. Með því að verja hluta þeirra í menntun og vísindi er verið að búa í haginn fyrir auknum tekjum af fyrirtekjum í framtíðinni.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 19:08

17 identicon

Löglega og réttlátt allra hliða og ríkistöðu einstaklinganna útreiknaður skattur krefst að sjálfsögðu öflugrar, vandaðra og vel mannaðrar lögverjandi löggæslu, sem er fær um að stöðva svindlandi valdníðslu-bankatoppana rænandi.

Það er því miður talað meir um það af sumum "talnaglöggum" hásólans prófessorum um Lands spítalann almennings svíkjandi í sökkvandi mýrinni á sumum fjölmiðlum, heldur en löglega og vel mannaða löggæslu innan og utan þessa svokallaða nýja "hátæknisjúkrahúss"?

Gott ef þessar háskoluðu hersveitir yfirmafíunnar spítalans svokallað, hafa ekki komist upp með það í áratugi að hóta og kúga ráðherra og alþingismenn? Jafnvel forsetanum?

Það er að sjálfsögðu erfitt að leiðrétta eða rökræða það sem ég er að skrifa hér, því aðal-baktjalda yfirvaldníðandi villimafían er búin að setja fjölmiðlabann á fréttir á Íslandi!

Alveg óverjandi SATANS verklagsferill bankamafíu-lögmanna/yfirlækna-svikakerfisins valdníðandi og bankaræningjahertökustýrða!

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2017 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband