Bara eitt kosningamál: Skuldastaða ríkisins

Mikilvægasta málefni þingmanna næstu misseri er að finna leiðir til að lækka skuldir ríkisins. Um leið þarf að lækka skatta. Þetta hljómar kannski mótsagnarkennt en svo er ekki. Ríkissjóður skuldar of mikið og á honum hvíla að auki of miklar skuldbindingar. Skattgreiðendur og fyrirtæki þurfa líka að bæta lausafjárstöðu sína og fá aukið svigrúm til að athafna sig. 

Af hverju?

Jú, af því að það er eitthvað stórt að fara gerast í fjármálakerfi heimsins á næstu mánuðum.

Það er að fara renna upp fyrir heimsbyggðinni að Bandaríkin geta ekki staðið undir sínum skuldum. 

Það er að fara renna upp fyrir heimsbyggðinni að ríki eins og Ítalía, Spánn og fleiri eru tæknilega gjaldþrota. Þar eru skattar í hæstu hæðum og peningaprentvélarnar hætta bráðum að geta fóðrað skuldafíkn þeirra, og pólitískt ómögulegt er að gera nokkuð við útgjaldahliðina. Allt ber að sama brunni: Greiðslufall.

Þá fer af stað hrun. Það hrun verður ekki bara bankahrun heldur ríkissjóðahrun.

Auðvitað er allt gert til að fresta þessum keðjuverkandi viðburðum en það er hætt við að þegar einn dómínó-kubburinn fellur þá falli hinir líka.

Besta leiðin til að búa sig undir þessa viðburði er að skulda lítið og geta treyst því að í hagkerfinu séu fólk og fyrirtæki með góða skuldastöðu og svigrúm til að þefa uppi tækifæri í ólgusjónum, fjárfesta þar sem þess er þörf og taka bara þau lán sem stuðla að verðmætaskapandi framleiðslu.

Ekki dugir að hafa á bakinu níðþungan opinberan geira sem framfylgir þykku reglugerðabókasafni. Það þarf því að einkavæða, smækka ríkið og einfalda regluverkið.

Ekki dugir að stórir hlutar samfélagsins séu bundnir í heftandi ríkiseinokun. Það þarf því að einkavæða og smækka ríkið og auka sveigjanleika fólks og fyrirtækja til að aðlagast breyttum aðstæðum.

Umfram allt þarf ríkið svo að greiða niður skuldir sem hraðast og lækka alla þá skatta sem hægt er að lækka í gefnu stjórnmálaumhverfi.

Kjósendur þurfa að hafa varann á hérna. Það má ekki falla fyrir gylliboðum um að auka ríkisútgjöld. Sá sem skuldar mikið á háum vöxtum á ekki að auka neyslu sína eða reyna safna í sjóði á lágum vöxtum. Þetta er fyrsta regla heimilisbókhaldsins sem meira að segja hörðustu vinstrimenn virðast skilja heima hjá sér

Frambjóðendur sem tala fyrir minna ríkisvaldi sem skuldar ekkert eiga að njóta áheyrnar okkar.


mbl.is „Hótaði að taka þingið í gíslingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Við gætum líka hætt að nota hagfræðilega mælikvarða á lífið og lifað happy ever after.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.9.2017 kl. 10:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já hjartanlega sammála því. Losna við skuldir og láta svo ríkisvaldið skipta sér hóflega af því hvernig fólk ráðstafar eigum sínum svo allir geti leitað hamingjunnar á eigin forsendum. 

Geir Ágústsson, 26.9.2017 kl. 11:18

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvað með skuldastöðu heimilanna, vaxta og verðtryggingarokur?

Er það ekki kosningamál í þínum huga Geir?

Hver ræður því annars um hvað kosningar snúast?

Eru það ekki bara kjósendurnir sjálfir?

Guðmundur Ásgeirsson, 26.9.2017 kl. 16:09

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Auðvitað bendir þú á brýn mál. Kjósendur ráða því vitaskuld hvað þeir láta höfða best til sín.

Sjúklingar vilja heyra að auknu fjármagni eigi að vita í þeirra meðferðir.

Skuldsettir einstaklingar vilja heyra af hærri vaxtabótum eða öðrum leiðum til að lækka vaxtabyrðina.

Fólk í afskekktum fjörðum vill göng eða breiðari fjallvegi.

Námsmenn vilja hærri námslán á lægri vöxtum eða hreinlega styrki.

En hvað er hægt að gera fyrir kjósendur ef ríkissjóður verður fyrir áfalli? Nú virðast allir gera ráð fyrir að Ísland sé ónæmt fyrir áföllum í heimi þar sem mjög brothætt fjármálakerfi, byggt á sandi, hefur gríðarleg áhrif á afkomu og vellíðan allra.

Ég vil hvetja kjósendur til að hugsa lengra en að eigin nefbroddi. 

Hvað gerði seinasta ríkisstjórn þegar áfall dundi yfir landið? Hækkaði skatta. Skattar á banka þrýstu verðlagi á þjónustu þeirra og lánsfé upp. Skattar á fyrirtæki drógu fé úr launasjóðum þeirra. Skattar á launþega drógu úr kaupmætti þeirra. Allir skattar á vörur og þjónustu leiddu til verðhækkana sem ruku út í verðtrygginguna í vegnum mælingar á visitölum neysluverðs. Lánsfjárþörf ríkisins dró úr aðgengilegu lánsfé fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Skuldsett ríkisvald bitnar á öllu og öllum - á neikvæðan hátt. 

Geir Ágústsson, 26.9.2017 kl. 18:33

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Geir.

Ég er alveg sammála því að heilbrigði ríkissjóðs er mikilvægt fyrir þjóðina alla. Aftur á móti hefur vaxta og verðtryggingarokur lítið með það að gera því þeir sem það stunda eru fyrst og fremst bankarnir en ekki ríkissjóður. Að koma böndum á það mun vissulega draga úr ofurhagnaði bankanna, en það þarf alls ekki að kosta nein útgjöld úr ríkissjóði.

Svo er einn punktur hjá þér sem ég vil bæta aðeins við en það er um vaxtabætur. Þær lækka ekki vexti heldur fela það einfaldlega í sér að því er velt yfir á aðra að niðurgreiða okurvextina að hluta, það er að segja skattgreiðendur í gegnum ríkissjóð. Ég hef engan áhuga á að láta aðra greiða allt of háa vexti fyrir mig, heldur vil ég einfaldlega lægri vexti svo ég þurfi ekki aðstoð annarra við að borga þá.

Best væri auðvitað að hafa enga vexti á því lánsfjármagni sem bankarnir gefa út því það er ígildi skattlagningar að hirða vexti af nánast öllu peningamagni í umferð en hvergi í lögum hefur einkaaðilum verið veitt skattlagningarvald. Í rauninni er alveg stórfurðulegt að fólk skuli yfir höfuð sætta sig við þessa ólöglegu einkavæddu skattheimtu.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.9.2017 kl. 20:25

6 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

vip gætum kannski hætt  að flitja inn kol- vatn frá Tyrklandi og hefilspæini undir hross !!sealed

Erla Magna Alexandersdóttir, 26.9.2017 kl. 20:47

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Það er svo margt að bankakerfinu að það er efni í heila bók. Verðtryggingunni var komið á á sínum tíma til að forða lánsfé frá glötun. Það er gölluð aðferð svo ég taki undir það en það sem verra er: Bara lítill plástur á stórt svöðusár sem peningaframleiðsla í skjóli ríkiseinokunar er. Og eins og þú hefur áður bent á þá virðist verðtryggingin sjálf auka peningamagn í umferð svo upp er kominn frekar óþægilegur vítahringur. (Mér er samt ekki ljóst hvernig sú aukning er mæld eða hvort hún komi fram í peningamagnsstærðum SÍ).

Auðvitað væri frábært ef niðurlagning Seðlabanka Íslands gæti orðið kosningamál en ég sé ekki að pólitísk umræða á Íslandi sé tilbúin í slíkt tal.

Geir Ágústsson, 27.9.2017 kl. 06:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband