Ríkisrekstur vs. frumkvöðlastarfsemi

Íslenskur sjávarútvegur er arðsamur, nýjungagjarn og aðlögunarhæfur. Þetta eru ekki sjálfgefnar lýsingar á sjávarútvegi. Í flestum ríkjum er sjávarútvegur hnignandi atvinnugrein og stöðnuð. 

Það sem greinir íslenskan sjávarútveg frá flestum öðrum er hagnaðarvon þeirra sem standa í honum. Mikið kapp er lagt á að hámarka arðsemina. Þetta þýðir að veiða rétta fiskinn á réttum tíma með réttum tækjum á réttan hátt og geyma á þann hátt að verðmæti aflans verði sem mest. Útvegsmenn hafa heilan her af sérfræðingum innan sinna vébanda sem grúska, þróa, prófa og gera allt sem þeir geta til að hámarka verðmæti bæði til skamms tíma og lengri tíma.

Allir njóta góðs af þessu. Störf eru sköpuð. Laun eru há. Nýjasta tækni er innleidd. Fjármagn verður til. 

En velgengni hefur aðra fylgifiska. Velgengni má öfunda. Sumir tala um að ríkið þurfi að sjúga meira fé út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum en öðrum og dæla í allskyns ríkisverkefni. Orð eins og "auðlindarenta" eru notuð til að réttlæta slíkan þjófnað. Hvar var þessi renta fyrir 30 árum? Hún var ekki til staðar. Fiskurinn í sjónum er verðlaus þar til hann er kominn á markað rétt eins og kolamoli sem er fastur 10 km neðanjarðar. 

Við ættum að læra af velgengni sjávarútvegsins og fyrirtækja sem tengjast honum beint eða óbeint. Landbúnaður á hér mikið inni. Hið sama gildir um listir og menningu, menntun og heilbrigðisgæslu. Frelsum drifkraft frumkvöðla. Komum ríkinu úr myndinni. Hver veit, innan fárra ára gætu vinstrimenn þá verið að heimta auðlindaskatta af sauðfjárrækt og rekstri grunnskóla! Á slíkt á ekki að hlusta en væri það ekki góð breyting frá núverandi ástandi? 


mbl.is Búið í haginn fyrir næstu byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við skulum hætta að nota öfundarhugtakið til að breiða yfir réttmæta gagnrýni og kröfur um sanngjarna skiptingu arðsins og eðlilega nýtingu í samræmi við afrakstursgetu.

Í það minnsta þangað til alþingismenn. stjórnvöld og helstu fréttastofur treysta sér í rökræður um það hvort auðlindin hafi verið vannýtt um hundruð milljarða til þess eins að skapa skotstöðu fyrir auðugustu atvinnurekendur þjóðarinnar og tryggja bönkunum veðgildi andlags í lántökum útgerðar.

Þetta kjarkleysi sem hér er nefnt hefur orðið okkur Jóni Kristjánssyni fiskifræðingi og nokkrum skoðanabræðrum okkar undrunarefni; en við erum margítrekað búnir að biðja fréttastofurnar um tíma til rökræðna um þessi efni. 

Síðan væri sanngjarnt að taka 250 milljarða uppsöfnun í "verðmæti aflaheimilda í bókhaldi útgerða!" inn í myndina og leita þar svars við efasemdum um að hvergi sjáist í niðurgreiðslur til útgerðar frá ríkinu þegar horft er til brothættra byggða með atvinnuleysi og óseljanleg ar fasteignir fólksins sem er að flýja sína heimabyggð.
Hvenær afsalaði Alþingi þjóðareigninni - fiskveiðiauðlindinni - til útgerða og hvert var andvirðið? 

Mér hefur alltaf þótt það vafasamur málstaður sem ekki telst þola opinberar rökræður í áheyrn þjóðarinnar. Ætli ég sé einn um þá skoðun eða ...hvað finnst þér?

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 14:05

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Leiðr: ....skapa skortstöðu, ekki skotstöðu

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 15:13

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

 Auðlindarentan sem þjóðin naut fyrir daga kvótakerfisins fólst í hagsæld og uppbyggingu í sjávarþorpunum víðsvegar umhverfis landið.

Útgerðirnar voru margar hverjar reknar með tapi vegna þess að hráefnið var ekki meðhöndlað af þekkingu um borð í fiskiskipunum en frystihúsin greiddu fólkinu laun sem runnu um æðar sveitarfélaga og ríkisins.
Við byggðum skóla, vegi, flugvelli, sjúkrahús og félagsheimili og verkafólkið reisti sér góð einbýlishús.

Með nokkrum sanni má segja að við höfum risið frá örbirgð til hagsældar sem samfélag "með tapi á útgerð"!

Það var svo með tilkomu uppboðsmarkaðanna á ferskum fiski sem umhirða á hráefni um borð í fiskiskipum fór að taka kipp og fiskurinn var meðhöndlaður eins og matvæli.

 Þar kom kvótakerfið hvergi við sögu. Með tilkomu þess byrjaði umræðan um hinar brothættu byggðir.
Þá endurreistum við gamla lénsveldið og margir smábátasjómenn urðu ánauðugir.  

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 15:29

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Árni,

Takk fyrir uppbyggilegar athugasemdir. Þær verða uppspretta nokkura spurninga af minni hálfu:

- Var sjávarútvegurinn ekki uppspretta endalausra björgunaraðgerða af hálfu yfirvalda? Ég er sérstaklega að vísa í ítrekaðar gengisfellingar sem færðu beinlínis kaupmátt frá fólki til útvaldra fyrirtækja. 

- Var ekki nauðsynlegt að takmarka aðsókn í fiskinn einhvern veginn og sýnt að sóknardagakerfið var ekki lausnin?

- Fer þeim ekki fækkandi sem vilja búa í litlum plássum þar sem er langt í afþreyingu, ýmsa þjónustu og hagstæðar matvöruverslanir?

- Samkeppnishæfni hagkerfis er hugtak sem skiptir meira og meira máli, og meðal annars þýðir það einkaframtak sem framleiðir eins mikinn hagnað og hægt er, eða hvað finnst þér?

- Ég veit vel af umræðunni um hvernig er best að varðveita fiskistofna, og snýst um annars vegar að vilja takmarka auðlind eða vilja grisja hana. Hérna treystum við ríkisstofnun til að ákveða eitt fyrir alla á meðan útgerðir hafa e.t.v. önnur sjónarmið. Væri e.t.v. ráð að færa ákvarðanir um aflahámark frá ríki til einkaaðila?

Geir Ágústsson, 27.8.2017 kl. 16:14

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gott að fá svör við spurningum sem vöknuðu vegna gildishlaðinna ályktana um þá fiskveiðsitjórnun sem stjórnvöld hafa um áratugi rekið áróður fyrir og VARAST að svara gagnrýni.
Gengisfellingar í þágu útgerðar voru tíðar áður en umhirða afla um borð í fiskiskipum varð viðunandi.
Í mörgum tilvikum var landað til vinnslu í frystihúsum heilum togaraförmum sem ekki teldust boðlegir í neysluvöru í dag.

Þetta er fullyrðing mín og byggð á reynslu minni sem ferskfisksmatsmaður á vegum ríkisins um árabil og allt fram að því að uppboðsmarkaðirnir settu sóðaskapnum stólinn fyrir dyrnar.

Þessar gengisfellingar höfðu greinilega engin niðurrifsáhrif á samfélag okkar sem efldist og blómstraði og þétti byggð umhverfis landið með tilheyrandi samfélagsþjónustu af aðskiljanlegum toga.

Aldrei heyrði ég rætt um alvarlega sjúkdóma af völdum gengisfellinga en vissi til þess að sparifjáreigendum vöknaði um augu.

Hvort það er /var nauðsyn að takmarka með pólitísku valdboði sókn í fiskistofna hjá eyþjóð sem býr við auðug fiskimið er umræðuefni sem ég hef verið að gera kröfu um að verði tekin fyrir ugum og eyrum þjóðarinnar en ekki verið svarað af stjórnvöldum.

Ef það er einboðið að svo sé er mér ráðgáta hversvegna ekki má setja það mál í rökræðu. 

Mitt álit er að löngu áður en hætta á ofveiði steðji að, þá verði útgerðir búnar að draga saman seglin, enda verður engi útgerð auðug á taprekstri og það er fullyrðing en ekki ályktun.

Sóknardagakerfið ER lausnin og það er fullyrt af reynslumiklum aflaskipstjórum á borð við Ólaf Örn Jónsson sem kynntist því vel.

Samkeppnishæfni hagkerfis er eitt; vísindalegt álit fiskifræðinga á afrakstursgetu fiskistofna er annað mál og með öllu óskylt.

Fiskveiðiheimildum er samkvæmt skýrum lögum úthlutað frá ári til árs og í sömu lögum skýrt tekið fram að sú úthlutun MYNDI EKKI EIGN.

Nú EIGNFÆRA útgerðarfyrirtækin aflaheimildir í ársreikningum og upphæðin er komin í 250 milljarða ísl. kr. !!!

Botnfiskstofnar okkar verða hvorki varðveittir né heldur verða þeir ofnýttir til tjóns af útgerðum sem ætlað er að skila hagnaði.

Enginn hefur sýnt fram á að ofveiði hafi verið stunduð hér þótt fiskifræðingar hafi haldið því fram.
Sveiflur eru þekktar í öllum villtum stofnum plánetunnar að minni hyggju og fiskleysi orsakaði hungurdauða í fengsælum verstöðvum á seinni öldum hér.

Engin ofveiði olli því að ekki veiddust nema tæpl 270 fiskar á einu sumri á stæsta fiskiskip þjóðarinnar árið 1774.

Fiskifræðingar lofuðu 500 þúsund tonna árlegum jafnstöðuafla í þorski ef ráðum Hafró yrði fylgt á áttunda áratug síðustu aldar. 
Ráleggingum var fylgt en aflinn fór langt niður fyrir 150 þúsund tonn ef rétt er munað.

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 17:31

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ps. Það er íhugunarefni í mínum huga að það skuli þurfa að gæta þess að fiska nógu LÍTIÐ í dag og halda aflaheimildum langt neðan við afrakstursgetu helstu nytjastofna til að útgerð skili viðunandi arði að dómi kvótagreifanna og helstu styrkþega þeirra í röðum alþingismanna?

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 17:45

7 identicon

Ég held að það hafi verið veturinn 1973 þegar gefin voru frí í framhaldsskólum því það barst svo mikill afli á land að hann lá undir skemmdum - vonandi endurtekur slíkt sig aldrei. Að þurka fisk í skreiðarhjöllum líkt og var algengt er líka liðin tíð sem betur fer.

Það er ekki einsog ekki hafi verið reynt að úthluta kvóta á litlu samfélögin til að halda þeim gangandi en alltaf hrynur þetta - ef til vill er lausnin að úthluta þeim jafnframt kvóta í sjókvíaeldi til að jafna sveifluna.

Grímur (IP-tala skráð) 27.8.2017 kl. 18:13

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvað er því til fyrirstöðu Grímur að leyfa veiðar í hlutfalli við afrakstursgetu fiskistofnanna?

Eða....trúirðu kannski á ofveiðidrauginn?

Og hvaða skírskotun er þetta í fiskafla sem lá undir skemmdum?

Heldurðu að útgerðarmenn hafi ekkert lært og hverjir myndu kaupa aflann?

Árni Gunnarsson, 27.8.2017 kl. 19:51

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Árni,

Á bak við athugasemdir þínar liggja eflaust heilu bókasöfnin af gögnum, rannsóknum og síðast en ekki síst: Reynslu. 

Það sem ég held að málið stoppi samt á er óttinn við ofveiði. Ofveiði er ekki bara einhver goðsögn heldur raunveruleikinn mjög víða um heim. 

Það sem mig vantar kannski að skilja er hvernig menn greina á milli grisjunar og ofveiði. 

Annars er það mín skoðun að útgerðir og kvótaeigendur eigi ekki bara að geta bókfært fiskveiðiheimildir eins og eignir - eins og hver önnur atvinnutæki eins og jarðýtur og byggingarkrana - heldur ættu að reyna koma ríkisvaldinu út úr úthlutum aflaheimilda og misnotkunar á þeim í nafni atkvæðaveiða. 

Geir Ágústsson, 28.8.2017 kl. 06:41

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ágæti Geir.

Ég held að þú hafir hug á að skilja þetta mikilvægaa hagsmunamál og mér finnst ég sjá það á skrifum þínum.

Í stuttu máli þá stafar miklu meiri hætta af vanveiðinni en hinni margumræddu ofveiði.

Vanveiddir stofnar fara að stunda afrán,  þ.e. stóri fiskurinn byrjar að éta ungviðið vegna skorts á æti og þetta ætti öllum að vera skiljanlegt.

Fyrsta vísbending um ofveiði úr fiskistofni gæti verið skyndileg þyngdaraukning hjá ungfiski. Og auðvitað vegna þess að þeim mun færri sem fiskarnir eru á búsvæðinu því meira og betra er fæðuvalið.

En þessi ofveiðimóðursýki er kvótabirgum útgerðum kærkomin vegna þess að skortur á aflaheimildum hækkar verðið til leigutakanna o.s.frv.

Jón Kristjánsson fiskifræðingur heldur úti bloggsíðu sem nefnist Fiskikassinn.

Ég ráðlegg þér að lesa vegna þess að ég treysti þér allvel til að skilja.

Bestu kveðjur og takk fyrir skoðanaskiptin!

Ps. (Árið er 2000 og Alþjóðahafrannstofnunin ICES "sá að hrun á þorskstofni vegna ofveiði blasti við í Barentshafinu."

Brugðist var við af "ábyrgð" og þorskkvóti færður niður í 110 þúsnd tonn.

Norðmenn og Rússar sáu sitt óvænna eða hvað?....þetta hafði jú verið þeirra gullkista gegnum árin.

Tekin var sú ákvörðun að hafa ráð vísindamannana að engu og veiðin ákveðin 390 þúsund tonn = ÞREFÖLD ráðgjöf hinna ábyrgu vísindamanna og 60 þúsund tonn að auki, svona til öryggis, auk þess sem það er opinbert leyndarmála að ævinlega er veitt þarna verulega miklu meira en upp er gefið á skýrslum.

Niðurstaðan í stuttu máli sú að nú tóku vísindamenn að ELTA aflatölur "sjóræningjanna" og innan fárra ára var þorskkvótinn kominn í 1 milljón tonna.

Það er mikill munur á ábyrgum veiðum sem framkvæmdar eru af skilningi á ástandi beitarsvæða annars vegar og móðursýki hinsvegar.

Móðursýki er afleitur vegvísir)

Árni Gunnarsson, 28.8.2017 kl. 15:15

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Þakka þér!

Þetta er flókið viðfangsefni þar sem togast á stórir hagsmunir. Hér er málið rætt í hvössum tón. Síðan eru liðin 16 ár. Kannski menn þurfi að vera betri í að skrifa heilsteypt rit en margar bloggfærslur?

"Frá 1972 til 1992 var um 85 % fylgni við tillögur Hafrannsóknarstofnunar og á þeim árum minnkaði ársafli þorsks úr 453 þúsund tonnum í 230 þúsund tonn og hrygningarstofninn úr 700 þúsund tonnum í 300 þúsund tonn. Og árin 1992 til 2001 hefur tillögum Hafrannsóknarstofnunar verið fylgt undantekningarlítið og ársafli þorsks hefur á þeim árum farið úr 230 þúsund tonnum í 190 þúsund tonn og hrygningarstofninn úr 300 þúsund tonnum í 219 þúsund tonn."

Geir Ágústsson, 29.8.2017 kl. 06:35

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mat á hrygningarstofnum er einhliða álit stofnunar sem af skiljanlegum ástæðum gæti sagt að í ljós hefði komið við ítarlega rannsókn að síldarstofninn væri að mestum hluta útselur.

Tölur þínar um ársafla eru sláandi fyrir fólk sem kemur óundirbúið að umræðunni og gæti haldið að þetta væri raunverulegt hrun á afrakstri.

Þessar tölur segja hinsvegar EKKI NEITT. ÞÆR SEGJA EKKI NOKKURN SKAPAÐAN HLUT UM ÁSTAND ÞORSKSTOFNSINS !

Og það er vegna þess að þetta er FYRIRSKIPAÐUR AFLI. Og hann er fyrirskipaður af sömu stofnun sem gaf út stærð hrygningarstofnsins.
Og ef útaf þessum fyrirskipaða afla hefði verið brugðið, hefði það kostað tugthús, gjaldþrot og líklega ærumissi til lífstíðar fyrir hvern þann skipstjóra eða útgerðarmann sem þar hefði átt hlut að máli.

Hafró getur sagt hvað sem stofnuninni sýnist vegna þess að enginn hefur stöðu til að gagnrýna.

En þessi vinnubrögð hafa aflað kvótasettum útgerðum 250 milljarða í bókfærða eign.

Hvar ætli mesta hættan á pólitískri spillingu sé fólgin...kannski hjá Handprjónasambandinu eða Golfklúbbi fatlaðra....eða gæti hugsast að hættan sé mest þar sem undir liggja milljarðahagsmunir?

Árni Gunnarsson, 29.8.2017 kl. 10:58

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

 Það er full ástæða til að lesa bókina Fiskleysisguðinn.

Ekki síst fyrir þá sem þora að efast um að það hafi verið vegna fyrri ára ofveiði sem fólk féll úr hungri í fengsælustu verstöðvum í fiskleysisárum.

Þá vissu menn nefnilega ekkert um það hvernig ætti að mæla hrygningarstofna.

En hann Snorri sem núna er orðinn skipstjóri á Drangey S K 1, var skipstjóri á Klakknum þegar snillingar Hafró voru í togararallinu á tilgreindu svæði og hann var í "haglabyssyfæri" frá vísindamönnunum.
Vísindamennirnir fengu nánast engan afla í toginu en Klakkurinn fékk prýðisafla.

Á milli skipanna voru veruleg hitaskil í sjónum en fyrirmæli vísindanna eru þau að hvika ekki frá sömu togslóðinni ár eftir ár.
Vegna samanburðarins sko!

Ég á eintak af bókinni hans Ásgeirs heitins sem ég gæti lánað þér Geir.

Árni Gunnarsson, 29.8.2017 kl. 11:10

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Þakka boðið. Nú er ég búinn að panta bókina sjálfur á litlar 2090 kr. og bíð spenntur. 

Geir Ágústsson, 29.8.2017 kl. 13:16

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það líst mér vel á.

Árni Gunnarsson, 30.8.2017 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband