Rafbílar hjálpa umhverfinu ekki

Rafbílar hafa marga kosti. Þeir eru hljóðlátir, frá þeim kemur engin mengun eða lykt og þeir geta verið liprir í akstri, enda lausir við gíra.

Rafbílar í þéttbýlum borgum gera fólki kleift að ferðast um án þess að loftið fyllist af sótögnum og útblástursgufum. 

Rafbílar eru hins vegar ekkert endilega sérstaklega umhverfisvænir og ekki endilega hentugur kostur í það heila.

Í fyrsta lagi þurfa þeir þrátt fyrir allt raforku sem þarf að framleiða. Víða um heim er ekki hægt að framleiða raforku á hagkvæman hátt nema með jarðefnaeldsneyti. Mengunin er því einfaldlega færð úr borginni þar sem bílarnir eru og út á land eða í annað land.

Í öðru lagi þarf gríðarlega mikla orku til að framleiða rafbíla og þá sérstaklega batteríin. Menn geta keyrt hefðbundinn bíl í 5 ár áður en að heildarlosunin vegna framleiðslu og notkunar nær losuninni af völdum framleiðslu rafbílsins. Þegar rafbíll nær lokum líftíma síns þarf svo líka mikla orku til að lóga batteríum og öðrum hlutum rafbílsins.

Í þriðja lagi leysa rafbílar engan mengunarvanda eða losunarvanda eins mönnum er tamt að segja núna. Á Íslandi er losun af völdum bílaumferðar bara dvergur miðað við það sem stígur upp úr framræstum skurðum. Að moka ofan í skurði er augljósasta, afkastamesta, hagkvæmasta og skynsamlegasta leiðin til að binda koltvísýring á Íslandi, sé það á annað borð markmiðið. Rafbílar skipta hér engu máli.

Í fjórða lagi er allt þetta rafbílatal einn stór útgjaldabaggi sem skattgreiðendur eiga eftir að þurfa éta. Í útlöndum rembast menn við að setja upp vindmyllur og sólarorkuvor, allt á kostnað skattgreiðenda enda óhagkvæm fyrirhöfn sem enginn virðist leggja í nema með opinbera styrki eða undanþágur frá skattgreiðslum í vasanum. 

Í fimmta lagi er ekkert víst að rafbílar verði tæknin sem verður ofan á. Fyrirtæki eins og Toyota og Huyndai ætla að veðja á vetnisbíla og telja að hraðari "hleðslutími" þeirra geti hentað ökumönnum betur og að sú tækni geti nýtt núverandi innviði betur. Það er svo sennilega hægt að keyra lengra á "hleðslunni" með fljótandi eldsneyti miðað við batterí.

En sjáum hvað setur. Tæknin flýgur áfram og framtíðin er ekki skrifuð í stein. Stjórnmálamenn eiga alls, alls ekki að dæla fé skattgreiðenda í eitthvað eitt frekar en annað. Miklu nær er að lækka alla skatta og fjarlægja lagalegar hindranir svo hægt sé að innleiða allt það nýjasta sem hraðast á markaðsforsendum. 


mbl.is Byrja að rukka fyrir hleðslu rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

... frá þeim kemur engin mengun eða lykt ...

Þetta er ekki vandamál núna, og verður sennilega aldrei, vegna þess hve magnið er lítið, en þessi farartæki geta alveg framleitt óson.  Sem er eitrað.  Og þekkist á lyktinni.

Borvélar eru þekktar fyrir að framleiða svoleiðis, svo því ekki rabílar?

Þegar rafbíll nær lokum líftíma síns þarf svo líka mikla orku til að lóga batteríum og öðrum hlutum rafbílsins.

Létt verk ku vera að endurvinna batteríin.  Sem er eins gott, vegna þess að það er ekkert til nóg liþíum í heiminum fyrir rafhlöður í þá alla.

Við vonum öll að einhver finni upp nýja tegund af batteríum til að ráða fram úr því.  Gæti gerst...

Í fjórða lagi er allt þetta rafbílatal einn stór útgjaldabaggi sem skattgreiðendur eiga eftir að þurfa éta.

Þetta er og verður aðal vandamálið. 

... ekkert víst að rafbílar verði tæknin sem verður ofan á. Fyrirtæki eins og Toyota og Huyndai ætla að veðja á vetnisbíla og telja að hraðari "hleðslutími" þeirra geti hentað ökumönnum betur og að sú tækni geti nýtt núverandi innviði betur.

Vetni er ekki mjög orkuríkt, og það þarf talsverða orku til að framleiða það.  Á hinn bóginn getur maður skilið vetnið eftir í tankinum, og það fer ekkert nema það sé leki á kerfinu einhversstaðar.

Hinsvegar tek ég eftir að raf-hleðzla geymist ekkert ofsa-vel.  Veit ekki hvað veldur.

Það er svo sennilega hægt að keyra lengra á "hleðslunni" með fljótandi eldsneyti miðað við batterí.

Með vetni?  Sé til.  Það inniheldur, minnir mig, 1/4 af orkunni í bensíni.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.8.2017 kl. 17:55

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir fróðlegar athugasemdir.

Ekki þekki ég efnafræðina á bak við það en Toyota heldur því fram að vetnisbíll dragi svipað langt og bensínbíll:

"Crusing range on par with a conventional gasoline-flued vehicle; can be refueled in about three minutes."

http://www.toyota-global.com/innovation/environmental_technology/fuelcell_vehicle/

Sem dæmi nefna þeir Toyota Mirai og segja að hann komist 650 km á einum tanki. 

En já, auðvitað þarf að framleiða vetnið. 

Svo veit ég ekki hvað fólki finnst almennt um að keyra með fljótandi og eldfimt efni undir þrýstingi, t.d. á holóttum vegum. Er það alveg öruggt?

Geir Ágústsson, 19.8.2017 kl. 18:28

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þeir eru þá annaðhvort með miklu sparnetytnari vélar núna, með áður (mér) óþekktri tækni, eða einfaldlega stærri tanka.

Vélin sem er sýnd í hlekknum minnir mig á gas-hverfil.

Annars er vetnið ekkert mikið eldfimara sleppi það út við árekstur.  Ég sé miklu frekar fyrir mér áhugaverð slys við viðgerðir - þetta er kalt undir þrýstingi.  Svo vetnið er alveg eins öruggt og bensín.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.8.2017 kl. 19:10

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Tesla vs. Toyota.

Tesla: Fyrirtæki sem hefur tottað ríkisspenann beint og óbeint eins fast og hægt er. Ég dáist samt að Elon Musk fyrir drifkraftinn.

Toyota: Fyrirtæki sem hefur sannað sig á frjálsum markaði og skilar ítrekað af sér gæðavörum sem eru samkeppnishæfar í bæði verði og gæðum. 

Það er samt vafasamt að nota fortíðina til að spá fyrir um framtíðina. Eða man einhver ennþá eftir Kodak?

Geir Ágústsson, 19.8.2017 kl. 20:28

5 identicon

Sæll Geir

Áhugaverðar pælingar. Við þetta má bæta að það er fullkominn óvissa um það hvort að sé til nóg af frumefninu Cobalt, en það er notað í batterí og transitora. Efnið hefur aðalega fengist frá námum í Kongó. Aðstæður til námuvinnslu á Cobalt í námum Kongó er eins og sena úr fimmta heiminum. Gjöfulustu námurnar eru í Kongó en þar hefur ríkt stríðsástand í áratugi og óljóst hvort að nægilega mikið af efninu finnist til að koma af stað byltingu, margir efast um það. Þarna er einn möguleiki sem gæti drepið þess byltingu í fæðingu, við sjáum hvað setur.

Sigþór hrafnsson (IP-tala skráð) 20.8.2017 kl. 00:45

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Geir þarfar hugleiðingar. Vil samt benda þér á þetta varðandi "skurðgröfurnar" sem vinsælt er að velta upp sem lausn.

"Hugsum okkur skurð sem opnaður var fyrir 100 árum.  Jarðvegurinn er fyrir löngu orðinn þurr og hefur breyst í frjósama gróðurmold. Rotnun jurtaleyfanna sem hófst skömu eftir að skurðurinn var opnaður hefur að mestu stöðvast. Losun koltvísýrings frá þessu þurra landi er orðin óveruleg. Þetta skilja allir sem vilja."

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/2185463/

Magnús Sigurðsson, 20.8.2017 kl. 09:02

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús,

Já eitthvað eru þessir skurðir að vefjast fyrir mönnum. Nýleg skýrsla segir nú samt:

"Losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi á Íslandi árið 2013 var metin 11,7 milljónir tonna CO2 ígildi sem er 73% af um 16 milljóna tonna heildarlosun landsins." (Heimild)

Persónulega er mér sama hvort láti gufa upp úr þessum skurðum eða ekki. Hitt skal ég samt játa að mér finnst þessir skurðir ekki vera neitt sérstaklega fallegir, og ef framræst land er ekki í notkun þætti mér betra að sjá það án skurða en með.  

Geir Ágústsson, 20.8.2017 kl. 12:55

8 identicon

Um daginn var frétt um að skógarkerfill væri að eyðileggja hundruði hektara af ónotuðu "ræktuðu" (tún) landi og auðvita vildu einhverjir fara EITRA fyrir skógarkerfilinum! Það mun bætast mjög við þetta ónotaða "ræktaða" land þar sem flestir sauðfjárbændur munu hætta í vetur vegna lágs afurðarverðs. Tilvalið að bleyta í þessu ónotaða "ræktaða" landi og endurheimta votlendið. Hér er ekki verið að tapa neinum verðmætum því verðmæti hljóta að felast í notkun

Grímur (IP-tala skráð) 20.8.2017 kl. 15:29

9 identicon

Âsgrímur!!!

Þú segir "Vetn er ekki mjög orkuríkt ... " og "...Það inniheldur, minnir mig, 1/4 af orkunni í bensíni"
Ekki veit ég hvaðan þú hefur þetta , en hið rétta er að miðað við massa ( sem er algengasti mælikvarðnn ) þá er orkuinnhald vetnis um
142 Megajoule/kg en orkuinnihald í bensíni er um 46 Megajoule/kg , með öðrum orðum orkuinnihald vetnis er 142/46 = c.a 3 sinnum meira en í bensíni miðað við sömu þyngd af hvoru efni.

Eins segir þú um "fuel cell" bíla sem krækja frá geir vísar í að " þeir eru þá með annaðhvrt miklu spaneytnari vélar núna, með (mér) áður óþekktri tækni eða stærri tanka." 
Ég veit svo sem ekkert um hvað þú þekkir eða ekki þekkir um þessi mál en þessi tækni er síður en svo ný af nálinni, gúgglaðu t.d. "Honda Clarity FX" eða "Honda FXC" til að sjá hvað Honda-kallarnir hafa veið að dunda sér þeir hafa frá 1998 verið með vetnisdrifina bíltýpu sem er að fara 400 til 550 km á einni eldsneytisáfyllingu ( rétt rúmlega 4 kg ) allt eftir útfærslu hvers eintaks.

  Hitt er svo annað mál að það eru ýmisr annmarkar á þessu "Fuel Cell" dæmi, m.a. þarf er platína notuð sem hvati á orkuskiftaferlið í virkustu ( bestu) útfærslum á "vetnistæðum" sem notaðaðar eru í bíla. Það er ekki sérlega mikið til af því , árleg heimsframleiðsla kannski c.a 70 tonn og ef það væri allt væri notað í vetnisstæður nægði það kannski í eitthvað  á milli  hálfa til eina milljón farartækja af svipaðri stærð og litill fólksbíll (t.d. fíat 500 eda kia i10 ). Svo þó að platínan eyðis ekki og nánast megi endurvinna hana alla þegar að því kemur að tímabært er að slátra gamla bílnum, þá yrði ansi langt þar til bílafloti heimsins væri orðinn vetnisdrifinn.           

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 21.8.2017 kl. 13:48

10 identicon

Svo er það þetta með umhverfisvænku rafbíla, ég sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti , en fyrir ekki svo löngu rakst ég á sænska úttekt á koltvísýrings-fótspori í framleiðslu rafhlaða fyrir bíla , þar kom m.a. fram að 100 kwh rafhlöðurnar sem eru/verða notaðar í Tesla S týpuna sem nú er að koma á markað hefur kryppu upp á 17.5 milljón grömm af CO2 á bakinu  þegar því er stungið í bílinn. Þetta þýðir að það er svipað og t.d. samanlagður útblástur úr bensínbíl t.d. Mercedes Benz A-class  þegar hann hefur verið keyrður 175 þúsund kílómetra. Miðað við mína notkun væri þetta 10-12 ára akstur, og ég hef ekki heyrt um lengri væntanlegan endingartíma ( ábyrgðartíma sem seljandi býður ) á bílrafhlöðum en átta ár. Virkar á mig eins og tilboð um að gerast fórnarlambí pýramídasvindli að kaupa rafbíl.   

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 21.8.2017 kl. 14:14

11 Smámynd: Hörður Þormar

Efnið í rafhlöðum má endurnýta, jarðefnaeldsneyti verður ekki endurnýtt.

Hörður Þormar, 22.8.2017 kl. 20:22

12 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Er ekki framtíðin að setja einungis vatn á tankinn. Sú tækni að framleiða vetni úr vatni hefur verið til í fjölda ára. Sjá annars link her til að fræðast.http://waterpoweredcar.com/

Eggert Guðmundsson, 23.8.2017 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband