Ríkið dragi sig úr öllum rekstri

Af hverju rekur ríkisvaldið flugvelli? Vegi? Snyrtivöruverslun í Keflavík? Áfengissöluverslanir? Sjónvarps- og útvarpsstöðvar? Sjúkrahús? Skóla?

Er það af því enginn annar en ríkið getur rekið þessa hluti?

Nei, einkaaðilar geta rekið allt þetta og meira til. 

Er það af því að einkaaðilar geta ekki náð ákveðnum pólitískum markmiðum með rekstri sínum?

Kannski það já.

En getur ríkið ekki náð pólitískum markmiðum án þess að standa í rekstri? Jú, mikil ósköp. Ef ríkið vill að það séu gerðar heimildamyndir um gamalt fólk úti á landi getur ríkið fjármagnað slík verkefni með verktakavinnu og boðið einkaaðilum að senda efnið út gegn gjaldi.

Ef ríkið vill að reykingasjúklingar fái niðurgreidda læknismeðferð við lungnaþembu getur ríkið boðið þá meðferð út til einkaaðila og þeir geta svo framkvæmt hana.

Með því að aðskilja pólitísk markmið og rekstur getur hið opinbera náð mörgum markmiðum.

Það sleppur við kjarasamningaviðræður.

Það sleppur við að þurfa eiga við eilífan rekstrarhalla af nánast öllu sem það snertir.

Það sleppur við þann eilífa hausverk sem fjármögnum lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna er.

Það sleppur við þann hausverk að yfir flestum opinberum stofnunum sitja pólitískt skipaðir einstaklingar með sína eigin stefnuskrá. (Líta stjórnmálamenn kannski á það sem blessun en ekki hausverk?)

Stjórnmálamenn hljóta að sjá þetta en vilja engu að síður að ríkið sé með fálmara sína ofan í hverri skoru í samfélaginu. Að baki slíku eru varla umhyggjusjónarmið. Miklu frekar láta stjórnmálamenn ranga hagfræði villa sér sjónir, t.d. þá sem segir að kostnaður af sérhverjum rekstri sé alltaf fasti (t.d. það að sauma sár eða kenna stafsetningu) og að hagnaður af rekstri sé eingöngu til kominn vegna kostnaðarauka. 

Þarf að senda stjórnmálamönnum lesefni?


mbl.is Vilja aukinn einkarekstur flugvalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert náttúrulega "víkingur", sem vill arðræna fólkið í landinu og hagnast persónulega á kostnað líðsins. 

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.6.2017 kl. 19:11

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú hlýtur að versla í hverfisísbúðinni með óbragð í munninum - bókstaflega - því þar ertu arðrændur!

Geir Ágústsson, 19.6.2017 kl. 19:49

3 identicon

Ég er orðinn svo vanur skítnum í hverfisísbúðinni, ef það er ekki sama skítabragðið af ísnum og þar ... þá er það ekki eins ǵoður Ís :-)

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.6.2017 kl. 22:14

4 identicon

Annars verð ég að segja, að ég er bæði sammála og ósammála ... finns mér, að vissir hlutir eigi að vera í eigu rikissins.  Einungis til að tryggja, að "verð" þjónustu sé ekki of hátt ... annarsvegar, þá hefurðu rétt fyrir þér að þjónusta af hálfu "ríkisreksturs" er oft verulega lélegur.

En hvað varðar læknisþjónustu, þá sýnir Svíþjóð það að þó svo að það sé sett í "einkarekstur", þá lifi þessi einkafyrirtæki á framlagi frá ríkinu.  Þar sem ríkið greiðir fyrir sjúklinginn, samkvæmt sjúkralögum ... og fyrirtækin því nauðbeigð að "hlýða" fyrirmælum ríkisins, á kostnað sjúklingsins.  Reynslan hefur sýnt, að kostnaður hefur aukist og þjónusta minnkað við einkavæðinguna.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.6.2017 kl. 22:23

5 identicon

Það hefði skelfilegar afleiðingar ef ríkið drægi sig út úr öllum rekstri. Almennt á ríkið eða sveitarfélög að sjá um rekstur þeirrar þjónustu sem þau fjármagna.

Einkarekstur fyrir opinbert fé er mjög varhugavert fyrirbæri nema í undantekningartilvikum þar sem auðvelt er að halda kostnaði innan eðlilegra marka og auðvelt er að sjá hvar þessi mörk liggja.

Erlendar rannsóknir hafa td sýnt að opinber heilbrigðisþjónusta er bæði best og hagkvæmust. Einkarekinn þjónusta er verri og dýrari en dýrust og verst er einkavædd þjónusta. Þetta skiptir hins vegar sérhagsmunaöfl eins og Sjálfstæðisflokkinn engu máli.

Viss einkarekstur til hliðar við opinberan rekstur er hugsanlegur í einstökum tilvikum. Hann má hins vegar ekki grafa undan opinberum rekstri. Slíkur einkarekstur á aðeins rétt á sér þegar hann veitir samkeppni án þess að gera opinberan rekstur óhagkvæmari.

Það gefur augaleið að tvær eða fleiri starfsstöðvar með rándýrum tækjum eru óhagkvæmar þegar ein fullnægir eftirspurn. Vegna fámennis er lítill grundvöllur fyrir einkarekstur hér á landi.

Ef einkarekstur væri gefinn alveg frjáls myndu aðeins arðbærustu tækifærin fara i einkarekstur. Ríkið sæti þá uppi með mjög óhagkvæman rekstur. Sú staðreynd væri svo notuð til að gera lítið úr opinberum rekstri.

Það er löngu orðið ljóst að núverandi stjórnvöld stefna að sem mestum einkarekstri á öllum sviðum gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Þó að efnahagsástandið hafi aldrei verið betra að þeirra mati fullyrða þeir að engir peningar séu til til að byggja upp innviðina. Trúa menn svona bulli? 

Í þessu eyðileggingarstafi sínu nota stjórnvöld löggjafarvaldið. Fyrst eru sett lög til að takmarka eyðslu þvert gegn ráðgjöf færustu sérfræðinga og síðan eru sett lög sem takmarka tekjur ríkissjóðs til að koma í veg fyrir skattahækkanir. Skattahækkanir á auðmenn og tekjuháa eru ekki bara sanngjarnar, þær eru nauðsynlegar.

Til að ná markmiði sínu er opinber heilbrigðisþjónusta svelt en einkarekin þjónusta fær greitt skv reikningum og vex því óðfluga með auknum kostnaði fyrir ríkið og verri þjónustu fyrir almenning. Skjólstæðingar Sjálfstæðisflokksins græða hins vegar stöðugt meira. Þessa þróun verður að stöðva.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2017 kl. 08:43

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Þær eru margar og frumlegar leiðirnar til að rökstyðja af hverju ríkiseinokun er fremri markaðsaðhaldi og samkeppni

Geir Ágústsson, 20.6.2017 kl. 09:41

7 identicon

"Það er löngu orðið ljóst að núverandi stjórnvöld stefna

að sem mestum einkarekstri á öllum sviðum gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar."

Lesist: Ef ég er hjartaskurðlæknir og viðskiptavinir borga mér af fúsum og frjálsum vilja fyrir þá þjónustu sem ég hef upp á að bjóða, þá vill mikill meirihluta þjóðarinnar sekta mig og henda mér í fangelsi ef ég greiði ekki sektina.

Það hjálpar oft að spyrja sig hverjir nákvæmlega ofbeldisseggirnir eru í dæminu.

"með auknum kostnaði fyrir ríkið"

Þjófur stelur minna en hann gerði áður. Tekjur hans minnkuðu og kostnaður hans jókst. En hræðilegt!

SR (IP-tala skráð) 20.6.2017 kl. 11:09

8 identicon

Til að gefa dæmi um þetta vandamál ...

Læknisþjónusta: Árið 1994-6 var auðvelt að komast til læknis.  Einungis "tannlækningar" voru vandamál og biðlisti á.  Nú, verð ég að fara til skottulæknis, áður en ég kemst til sérfræðings ... en skottulæknarnir, vilja hagnast svo þjónustan er engin. Það er dýrt að veita mér þjónustu, en auðvelt að láta mig fara heim og segja mér að éta skít ... því þeir fá peninga frá ríkinu fyrir "heimsóknina", en ekki hlutfallslega greitt fyrir þjónustuna ... eða ánægju mína á þjónustunni.

Atvinnumiðlun: Landfrægt er í Svíþjóð, er ad atvinnumiðlanir eru hættar að aðstoða fólk við vinnu umsókn.  Ríkið borgar um 60þúsund á kjaft, fyrir að fara í kennslu á því hvernig eigi að skrifa CV (Curriculum Vitae).  Gróðrarfyrirtæki, vina þeirra sem eru í bæjar, og eða ríkisstjórn ... fá svo að setja upp "dagheimili" fyrir atvinnulausa, og fá 30þúsund "up front" og síðan 30þúsund ef þeir koma þeim í fóstur (Praktík).  Minna en 1%, fær vinnu.

Þetta eru "raunveruleg" dæmi um afleiðingar einkaframtaksins ... og eiga Íslendingar enn betri dæmi, um einkavæðingu bankanna.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 20.6.2017 kl. 13:22

9 identicon

Geir, það er ekkert frumlegt við að benda á að skv erlendum könnunum gefur opinber rekstur heilbrigðismála af sér betri og ódýrari þjónustu en einkarekstur.

Það er heldur ekkert frumlegt við að benda á óhagvæmni þess að vera með fleiri en eina starfsstöð með rándýrum tækjum þegar ein annar eftirspurn.

Það er heldur ekki frumlegt að bæta við að sjúklingar þurfa að standa undir kröfu um mikinn arð í einkarekinni þjónustu. Það gerir þjónustuna mun dýrari en skapar gróðamöguleika fyrir útvalda.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.6.2017 kl. 14:59

10 identicon

Jón er hjartaskurðlæknir og ákveður að stofna læknastofu.

Hann ákveður að þiggja ekki krónu frá ríkinu (svipað og bróðir hans sem er skósmiður og þiggur ekki heldur krónu frá ríkinu). Hann byggir upp orðspor sitt sem einn besti hjartaskurðlæknir í heiminum og viðskiptavinir bæði á Íslandi og erlendis koma til hans og borga honum fyrir þá þjónustu sem hann hefur upp á að bjóða.

Ég spyr: Yrði Jón, í ykkar eftirlætis-heilbrigðiskerfi ef það væri til staðar, sektaður eða sendur í fangelsi ef hann greiddi ekki sektina?

SR (IP-tala skráð) 20.6.2017 kl. 17:27

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er reyndar ekkert frumlegt við að vísa í ónafngreindar rannsóknir. Ég sá eina íslenska rannsókn sem gaf sér svo margar forsendur að niðurstaðan gat ekki verið önnur en sú að ríkiseinokun væri besta lausnin. Ætli það sé hægt að galdra fram sömu niðurstöðu fyrir aðrar greinar? Það má t.d. benda á að jarðvinnuverktakar eiga allir stórar og dýrar gröfur sem er dýrt að halda úti. Ætli ríkiseinokun væri hér besta lausnin? Það má líka benda á að það eru til fleiri en ein malbikunarstöð á höfuðborgarsvæðinu. Er það óþarfasamkeppni? Fólk þarf mat, húsgögn og fatnað - er ekki siðferðislega rangt að leyfa einhverjum að reka starfsemi sem mætir þeirri eftirspurn og hreinlega skila hagnaði af henni?

Það er vandlifað. 

Geir Ágústsson, 21.6.2017 kl. 05:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband