Mánudagur, 29. maí 2017
Gallaður mælikvarði á kaupmátt krónunnar
Einhvern tímann fengu hagfræðingar þá furðulegu hugmynd að það væri hægt að mæla kaupmátt gjaldmiðils með gagnasöfnun og vísitölusmíði. Núna sjáum við hvað þetta er galin hugmynd. Kaupmáttur krónunnar hefur aukist töluvert undanfarin misseri. Samt sýna mælingar að hann sé að rýrna - að það sé verðbólga en ekki verðhjöðnun.
Það er einnig furðulegt að hugsa til þess að ef ríkið hækkar skatta á eitthvað, t.d. áfengi, þá er það túlkað sem rýrnun á kaupmætti krónunnar.
Og þegar skattur er lækkaður - þegar fé er hætt að streyma jafnhratt úr vasa launþega og í ríkishirsluna - þá mælist kaupmáttur krónunnar meiri!
Þetta er glapræði.
Kaupmátt gjaldmiðils má á sérhverjum tímapunkti áætla með því að skoða breytingar á magni hans í umferð (og gera ráð fyrir að allt annað sé stöðugt, svo sem framboð á vörum og þjónustu og þess háttar). Þótt það sé ekki alltaf auðvelt mál þá er það bara tæknilegt aukaatriði. Að það sé ekki hægt að búa til hina einu sönnu vísitölu er það líka. Kaupmáttur gjaldmiðils fer eftir magni hans í umferð og auðvitað trúðverðugleika hans.
Þessu gleymdu menn þegar Excel var fundið upp, eða svo virðist vera. Núna þarf ríkisvaldið auðvitað á allri þessari tölfræði að halda til að keyra samfélagið ekki lóðbeint fram af kletti í afskiptasemi sinni.
En sem sagt: Ferðamenn dæla milljörðum inn í landið og auka kaupmátt krónunnar um tugi prósenta. Dagur B. Eggertsson ákveður að leyfa engum að byggja í Reykjavík. Niðurstaðan: Verðbólga!
Kæru hagfræðingar, er ekki kominn tími til að hugsa þetta mál upp á nýtt?
Húsnæðisverð drífur áfram verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ja, það er að vissu leiti rétt hugsun að hækkun á skatti þýði kaupmáttarrýrnun.
Ef við hugsum okkur að Pési úti í bæ kaupi alltaf, í hverjum einasta mánuði 1 lambalæri og eina flösku af vodka, þá mun hann standa frammi fyrir kaupmáttarrýrnun þegar skattur á vín eða læri hækkar.
Ef viðmiðið er hinsvegar viðskifti við útlönd, á lítur þetta öðruvísi út. Sjónvarp frá Kóreu kostar það sama þó vokdinn verði dýrari.
Það þarf að gefa upp hvort er verið að meina.
Ásgrímur Hartmannsson, 29.5.2017 kl. 14:47
Já en hér er galdurinn:
Ef lambalærið hækkar mikið, t.d. af því að lambakjötskúrinn verður vinsælasti matarkúr landsins og enginn kærir sig um annað kjöt, þá færist einfaldlega fé úr öðru og yfir í vasa lambakjötsframleiðenda. Það fé sem er eftir til að elta aðra vöru verður minna og verð á öllu öðru lækkar.
Það er, ef peningamagn í umferð er fast.
Og að sama skapi: Ef skattar á lambakjöt eru snarhækkaðir þá hækkar það og gefið að fólk breyti ekki neyslumynstri sínu ætti það einfaldlega að þýða lækkandi verð á öllu öðru.
Verðlagið yfir það heila er óbreytt því peningamagnið er óbreytt.
Hækkandi verðlag á húsnæði er að valda sömu áhrifum: Draga úr því fé sem fer í allt annað, gefið að peningamagnið sé nokkuð stöðugt. Þeir sem eru að binda allt sitt fé í húsnæði eru að skera niður í einhverju öðru, nú eða taka lán eða hvaðan kemur það lánsfé? Er það nýprentað fé?
Geir Ágústsson, 29.5.2017 kl. 18:21
Þú ruglar saman og gerir engan greinarmun á kaupmætti launa og verðgildi krónunnar. Kaupmáttur krónunnar, verðgildið, hefur ekki hækkað undanfarin misseri. Mælingar sýna að hann hefur rýrnað - að það sé verðbólga en ekki verðhjöðnun. En kaupmáttur launa hefur aukist vegna launahækkana umfram verðbólgu. Kaupmátt gjaldmiðils, verðgildi hans, má á sérhverjum tímapunkti mæla næákvæmlega með því að skoða hvað hægt er að kaupa fyrir hann. Það þarf ekkert að áætla.
Gústi (IP-tala skráð) 29.5.2017 kl. 18:38
Látum okkur sjá:
Í Evrópusambandinu eru menn ósáttir við að verðbólga sé undir 2% og vilja prenta meiri peninga.
Krónan hefur styrkst gagnvart evru, eða evran veikst gagnvart krónu, um tugi prósenta.
Á Íslandi mælist líka verðbólga. Íslendingar kaupa margar af sömu vörunum og íbúar evru-svæðisins. En að vísu ekki húsnæði í Reykjavík.
Svo kaupmáttur krónunnar hefur ekki hækkað, en hvað með evruna?
Menn ættu bara að játa sig sigraða í þessari vísitöluleikfimi og tilraunum til að fínstilla hagkerfi út frá gögnum í Excel sem virðast fjarstæðukenndari og fjarstæðukenndari.
Geir Ágústsson, 30.5.2017 kl. 04:06
Húsnæðisliðurinn er á fæstum stöðum tekinn inn í vísitölu neysluverðs, þar á meðal á evrusvæðinu. Þar var 12 mánaða verðbólga (án húsnæðisliðar) 1,9% en sama vísitala á Íslandi er -0.9%, og 2,0% á EES svæðinu.
Hagstofan kallar þetta samræmda vísitölu, og hún er sú eina sem hægt er að nota í alþjóðlegum samanburði, og þá helst við Evrópu.
https://hagstofa.is/talnaefni/efnahagur/verdlag/samraemd-visitala-neysluverds/
Axel Þór Kolbeinsson, 30.5.2017 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.