Fimm leiðir til að afsala sér sjálfræðinu

Flest erum við þannig skrúfuð saman að við trúum því að við eigum okkar eigin líkama. Af því leiðir að þau verðmæti sem við sköpum með þeim líkama eða fáum að gjöf eða í arf séu einnig okkar eign. Nú má vera að þetta sé rétt í mörgum tilvikum. Við ákveðum sjálf hvenær við förum á fætur, við getum valið að borða óhollan mat og við getum horft á sjónvarpið þegar við viljum. Við fáum að eiga okkar tannbursta í friði og skrapa að okkur einhverjum heimilishlutum án hættu á eignaupptöku. Hins vegar eru til nokkrar leiðir til að missa algjörlega sjálfræði sitt og þar með tilkall til þeirra verðmæta sem við köllum eign okkar. Verða fimm slíkar nú nefndar.

Númer 1: Maður á húsnæði. Hann býr í því. Hann reykir í því. Nú langar honum að stofna veitingastað í sama húsnæði. Þá tekur löggjafinn af þessum manni sjálfræðið og forræðið yfir húseigninni. Hann má ekki lengur reykja í húsnæðinu. Eldamennska hans þarf nú aragrúa vottana frá opinberum eftirlitsaðilum. Skattframtalið hans flækist gríðarlega. Hann þarf nú að biðja um leyfi ef hann ákveður að færa eldhúsvaskinn um tvo metra. Sjálfræði hans er horfið.

Númer 2: Maður hefur skoðanir. Hann segir gjarnan frá því hvað honum finnst vorið vera fallegt, hvað menntun er góð, hvað líkamsrækt er holl og hvað grænmetisfæði er gott fyrir loftslag plánetunnar. Nú les hann bók sem honum fannst áhugaverð. Í henni segir að íslam boði beinlínis morð á trúleysingjum og kúgun kvenna og að siðfræði kristinnar trúar sé boðskapur friðar og kærleikar, gagnkvæmrar virðingar og friðar. Maðurinn endurtekur þennan boðskap á opinberum vettvangi. Yfir hann hellast ákærur og jafnvel lögsóknir. Hann ákveður að halda þessum skoðunum fyrir sjálfa sig en til vara fyrir þá sem deila þeim með honum. Sjálfræði hans hefur verið skert bæði óbeint með hótunum og beint með tilvísun í einhver lög sem banna ákveðinn talsmáta.

Númer 3: Atvinnurekandi nokkur rekur vinnustað þar sem starfsmenn tala með nokkuð sérstökum tón til hvers annars. Mikið er notað af blótsyrðum, konur eru kallaðar „kellingar“, karlmenn eru „pungar“ og þeldökkt fólk er kallað „svertingjar“ og jafnvel „niggarar“. Tóninn er harður en enginn er misskilinn og stemmingin er góð. Nú sækja tveir einstaklingar um starf hjá fyrirtækinu. Annar er karlmaður með góð meðmæli en litla reynslu og enga menntun en metið sem svo að hann muni styrkja stemminguna á vinnustaðnum og bæta upp skort á menntun með réttu viðhorfi. Hinn umsækjandinn er þrautlærður kvenmaður með langan lista af viðeigandi gráðum og námskeiðum á bakinu en hún metin sem svo að hún muni draga andrúmsloftið á vinnustaðnum niður. Nú er karlmaðurinn ráðinn. Konan kærir á grundvelli mismununar og telur sig mun hæfari. Jafnréttisstofa óskar eftir gögnum á grundvelli laga um slíkt. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála fer á þá leið að konan eigi að fá starfið. Atvinnurekandinn er sviptur sjálfræðinu.

Númer 4: Verslunareigandi nokkur ákveður að við hlið ávaxtasafans og epladjússins hljóti að vera vinsælt meðal viðskiptavina hans að hafa kaldan bjór í boði. Hann sér þetta sem sjálfsagða þjónustu við viðskiptavini sína enda nýkominn úr ferðlagi til Danmerkur þar sem bjór er að finna úti um allar trissur í verslunum. Um leið veit hann að bjór er löglegur neysluvarningur á Íslandi. Hið opinbera kemur á svæðið, sviptir verslunareigandann sjálfræði sínu, leggur á hann sektir og skikkar honum að stöðva áfengissöluna. Sjálfræði hans hefur verið skert.

Númer 5: Maður nokkur hefur misst allan metnað fyrir vinnu, vinum, starfi og eigin sjálfsrækt. Hann hefur safnað í digran sjóð og ætlar að nota hann til að fjármagna vímuefnaneyslu. Heróín, hass og kókaín verða fyrir valinu. Hann spyrst fyrir um hvar þessi efni séu til sölu og fær að vita að þau fáist ekki löglega þótt mikil eftirspurn sé til staðar. Búið er að svipta framleiðendur og sölumenn slíkra efna sjálfræðinu og varpa þeim í steininn. Maðurinn nær samt að verða sér úti um efni en er þá handtekinn og líka sviptur sjálfræðinu. Honum er sagt að hann hafi framið glæp og einnig að hann eigi á hættu að verða háður þjónustu velferðarkerfisins og verða þannig fjárhagslegur baggi á skattgreiðendum. Þó hafði hann aldrei skráð sig í neitt velferðarkerfi né fær möguleika á að skrá sig úr því. Sjálfræði hans er núna algjörlega horfið, á bak við lás og slá.

Eins og sjá má á þessum dæmum eru margar leiðir til að missa sjálfræðið á Íslandi. Ég vona að með nýrri ríkisstjórni fækki þeim eitthvað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband