Þriðjudagur, 8. nóvember 2016
Til hvers að hlusta á opinbera starfsmenn?
Kennarar, hjúkrunarfræðingar, læknar og aðrir opinberir starfsmenn eru algengir gestir fjölmiðla. Þessar stéttir kvarta undan miklu álagi, skriffinnsku og allskyns gæðakröfum sem er velt ofan á þá en eiga ekki að bitna á neinu. Um leið eru laun þessa fólks fyrst og fremst háð starfsaldri og fjölda prófskírteina.
Það mætti halda að atvinnurekendur þessa fólks séu ekki að hlusta og ég spyr mig bara: Hvers vegna ættu þeir að hlusta?
Opinberir starfsmenn eru búnir að velja sér starfsframa þar sem einn og bara einn atvinnuveitandi er í boði. Er skrýtið að traðkað sé á þessu fólki?
Hjúkrunarfræðingur getur vissulega hætt og farið að vinna sem vel borguð flugfreyja enda eru óteljandi dæmi um slíkt.
Kennari getur alveg hætt og fundið sér vinnu við eitthvað annað, t.d. sem leiðsögumaður.
Læknirinn getur alveg söðlað um og fundið sér vinnu sem fasteignasali.
Þetta fólk er hins vegar búið að sækja sér menntun, reynslu, þjálfun og þekkingu til að sinna starfi sem því finnst gefandi.
Atvinnurekandinn veit þetta og tekur því bara mátulega tillit til kröfugerða þess.
Til hvers að hlusta á opinbera starfsmenn? Ástæðurnar eru fáar.
Einkavæðum mennta- og heilbrigðiskerfið og leysum krafta þessa fólks úr læðingi.
![]() |
„Þetta gengur ekkert upp“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvaða heilbrigðismál eru þetta sem hann segir koma inn á borð kennara? Er hann að tala um lyfjaneyslu barna og unglinga sem flestir kalla vandamál nú orðið? Hvað er það nákvæmlega sem gengur ekki upp að hans mati? Vill hann kannski auka skammtana? Hvert er vandamálið?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 18:19
Ertu að tala um svona einkavæðingu þar sem einstaklingurar taka að sér reksturinn en ríkið borgar fyrir hvert sjúkrarúm og hvern nemanda sama ef ekki meira en áður? Er það einkavæðing? Ég hefði ekki haldið það, en þannig er staðið að henni hér.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2016 kl. 20:29
Ég held annars að það sé ekkert sem banni það að menn opni hér spítala og skóla. Frjálshyggjumenn virðast samt stöla á það að komast óbeint á sósíalinn með að kalla sig eigendur að einhverju sem ríkið rekur í raun og reynd.
Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2016 kl. 20:32
Offramleiðsla á sjúklingum í ríkisrekna kerfinu er orðið að sérstöku vandamáli sem kennarar þráast við að kalla heilbrigðismál. Það er ekki traustvekjandi.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 20:54
Jón,
Ávísanakerfi, þar sem hið opinbera lætur peningana fylgja nemendum en foreldrar geta valið skóla sem fær peningana, er vissulega skárra en núverandi miðstýring. Þó er það bara hálfur sigur ef skólarnir fá ekki rekstrarlegt forræði og forræði yfir námsskránni í meiri mæli. Þetta er samt ekki einkavæðing. Þetta er rekstrarlegur aðskilnaður innan hins opinbera kerfis.
Ég er samt hlynntastur því að heilbrigðiskerfið langveikra verði eins og heilbrigðiskerfi sjóndapra og heyrnaskertra: Troðfullt af einkaaðilum í blússandi samkeppni um peninga neytenda eða tryggingarfélaga þeirra.
Frjálshyggjumenn eru skattlagðir eins og aðrir og mega því að sjálfsögðu ganga um götur hins opinbera og ræða við lækna hins opinbera eins og aðrir. Skattlagning er ofbeldi í þeim skilningi að þeir sem borga ekki skattana eru sviptir frelsi og jafnvel ærunni og stungið í steininn. Þú ætlast varla til að frjálshyggjumaðurinn neiti sér um aðgengi að ríkiseinokunni sem hann fjármagnaði? Á þá sósíalistinn að svelta sig þar til ríkisvaldið tekur yfir rekstur matvöruverslana?
Geir Ágústsson, 9.11.2016 kl. 13:55
Elín,
Það er efni í mörg rannsóknarverkefni af hverju strákar eiga svona erfitt uppdráttar í skólakerfinu. Ekki man ég eftir þessu frá minni tíð. Skóladagarnir voru stuttir, skólinn var tvísetinn og engin tölva sem hélt manni inni í gíslingu heldur var leikið úti eða heima hjá vini. Í mínum bekk voru tveir strákar í sérkennslu vegna lesblindu, og svo voru tveir sem fundu sig ekki í neinu fagi en vildu frekar eyða skóladeginum í að rífa kjaft. Aðrir héldu einfaldlega sínu striki með okkar öldruðu kennslukonu við kennaraborðið.
Núna eru skóladagarnir endalaust langir og krakkar nenna engu eftir þá, skiljanlega, annað en að setjast við skjá og láta mata sig með afþreyingu. Þeir sem eiga erfitt með 7 klukkutíma á stofnun eru greindir með eitthvað og fá lyf við því. Eftir grunnskóla eru þessir strákar búnir að fá upp í kok af skóla.
Geir Ágústsson, 9.11.2016 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.