Af hverju verja sjómenn ekki útgerðina?

Nú ætla ég að fullyrða svolítið án þess að hafa allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir hendi:

Sjómenn eru duglegir að hirða launin sín en gleyma því oft af hverju þau eru svona góð.

Lof mér að útskýra.

Ein háværasta umræða seinni tíma á Íslandi er um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er einfaldlega tölfræðileg staðreynd að kerfið á Íslandi er eitt það ábatasamasta í heimi og fyrir því eru ástæður. Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og keyptar af hæfum rekstraraðilum sem kunna að nýta þær til að hámarka verðmæti aflans. Þær má veðsetja eins og um eign væri að ræða eins og verktakinn getur veðsett gröfuna sína og húseigandinn veðsetur hús sitt þegar fjárfestinga er þörf. 

Útgerðarfyrirtækin eru framsækin á mörkuðum og sífellt að leita leiða til að hagræða og gera það af því ávinningurinn er hagnaður í vasa eigenda þeirra. Hvatinn til að gera betur er alltaf til staðar.

Útgerðarfyrirtækin geta fyrir vikið borgað starfsmönnum sínum vel. Aflinn er sóttur þegar verð fyrir hann er hátt og sjómenn njóta þess. Þeir þurfa ekki sjálfir að fylgjast með fiskitorfum og kílóverði á þorskflökum í Kína. Þeir þurfa ekki að vega og meta hvaða skip á að senda á hvaða mið og hvenær, hvert á að sigla aflanum og á hvaða markað á að senda hann. Nei, sjómenn fá vaktina sína, fara á skipið, vinna erfiða vinnu í nokkrar vikur og sækja svo milljón eða tvær á skrifstofu útgerðarfélagsins við heimkomu.

En sjómenn verja aldrei fiskveiðistjórnunarkerfið, a.m.k. ekki á mjög áberandi hátt. Það er eins og þeir taki því sem sjálfsögðum hlut. Kannski trúa þeir því ekki að snyrtilega klæddir þingmenn á suðvestuhorni landsins muni kippa stoðunum undan lífsviðurværi þeirra. Hver veit. Það væri veruleikafirring því á Alþingi er fullt af fólki sem langar að sjúga hvern blóðdropa úr útgerðinni og ofan í ríkissjóð. 

Nú er gengi krónunnar hátt og það bitnar á tekjum útgerðar og launum sjómanna. Nú er hætt við að einhverjir þeirra kvarti. Núna taka þeir eftir því að það sem á sér stað í dag er ekki endilega staðan á morgun. Hvað ætla þeir þá að segja? Og við hvern?

Ríkisvaldið er nógu ósvífið til að mjólka útgerðina þegar vel gengur en lætur hana svo alveg eiga sig þegar eitthvað bjátar á. Þetta er velferðarkerfi fyrir hið opinbera á kostnað þeirra sem afla verðmætanna. 

Það væri óskandi að innan hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfis heims væru fleiri málsvarar meðal sjómanna. En þess í stað eru margir kannski bara að bíða eftir næsta byggðakvóta og vona að sjávarútvegsráðherra sé úr réttu kjördæmi. 


mbl.is „Rækjusjómenn eru að fá tvöfalt högg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir alveg afskrftunum, ef þær eru teknar inní myndina þá er útgerðin ekki einu sinni sjálfbær. Kvótinn er svo dýr að það er ekki hægt að gera út án afskrifta.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.11.2016 kl. 19:30

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvaða afskriftir eru að tala um? Þessar síðan 2008?

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki. Hafa skuldirnar lækkað á þessu tímabili úr 494 milljörðum króna í 333 milljarða. Kemur þetta fram í tölum, sem Deloitte vinnur árlega upp úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja.

http://www.sfs.is/um-sfs/nanar/god-stada-en-miklar-askoranir-framundan

Ekki voru afskriftirnar meiri en svo að tæpir 500 milljarðar af skuldum stóðu eftir. Það er þrátt fyrir allt slatti. 

Geir Ágústsson, 4.11.2016 kl. 10:09

3 identicon

Af hverju er ekki í gildi kjarasamningur milli útgerðarinnar og sjómanna?

Einfaldlega af því að sjómönnum finnst útgerðin ekki vera að koma heiðarlega fram við þá.

Sjómönnum finnst t.d.:

a. útgerðir sem eiga líka fiskvinnslu selja eigin fiskvinnslu aflann allt of ódýrt (laun sjómanna eru hlutfall af aflaverði)

b. rangt að eiga að taka þátt í kostnaði útgerðarmanna hvort sem það er olíukostnaður, kvótakaup, endurnýjun á skipakosti eða hvað annað. Sumt af þessu er núna í samningum, öðru hafa útgerðarmenn viljað koma á.

Svo hafa sjómenn líka lært að tala varlega, tali þeir aðeins óvarlega í óþökk útgerðarinnar eru þeir búnir að missa plássið. Þá er best að segja bara sem minnst.

Fyrir svo utan það að hagsmunir útgerðarinnar eru ekki alltaf þeir sömu og hagsmunir sjómanna.

ls (IP-tala skráð) 4.11.2016 kl. 10:47

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég á ekki til orð.

Persónulega finnst mér hagsmunir míns atvinnuveitenda og mínir eigin fara fullkomlega saman. Ef fyrirtækinu gengur vel er meira svigrúm fyrir allt - launahækkanir, betri búnað, meiri fjárfestingu, hraðar tölvur, þægilegri stóla, stærri partý. 

Ég vinn hjá fyrirtæki sem selur allskonar dót til olíuvinnslufyrirtækja. Ef ég væri ósáttur við það myndi ég skipta um vinnu jafnvel þótt það þýddi lægri laun. Eða hvers vegna að vinna fyrir einhvern sem maður er hugmyndafræðilega á móti? Er það ekki hræsni?

Er þessi hræsni ríkjandi meðal sjómanna og þeir velja að þegja eða eru þeir bara ánægðir og finnst þeim ekki þurfa að segja neitt? 

Geir Ágústsson, 4.11.2016 kl. 11:18

5 identicon

Þér finnst það s.s. hræsni að sjómenn hætti ekki bara á sjó (allir saman) og fari að leita að vinnu í landi. Skrýtið. En svona skilja menn orðin misjafnt, við því er líklega ekkert að gera. Ég skil heldur ekkert hvað þú ert að fara með að tala um hugmyndafræði í þessu samhengi, óánægja sjómanna með kaup og kjör og framkomu útgerðarinnar hefur t.d. ekkert með pólitík að gera.

Reyndar er það svo að ef ekki tekst að semja hætta þeir allir seinna í mánuðinum, tímabundið vonandi. 

ls (IP-tala skráð) 4.11.2016 kl. 11:47

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Við erum e.t.v. að tala um tvennt aðskilið.

Kjarabarátta er eitt. Henni haga sjómenn auðvitað eins og þeir vilja og telja vænlegast til árangurs og innan laga rammanna.

Að þeir taki ekki til máls fyrir fiskveiðikerfið er svo annað mál. Þar skynja ég nokkuð sem er annaðhvort hræsni (þeir hata kerfið þegjandi og hljóðalaust) eða kæruleysi (átta sig ekki á því að fyrir sunnan eru stjórnmálamenn á fullu að vinna að því að rústa lífsviðurværi þeirra). 

Geir Ágústsson, 4.11.2016 kl. 12:44

7 identicon

Sjómenn og félög þeirra hafa lýst áhyggjum af t.a.m. uppboðsleið, en það er ekki við því að búast að þeir eyði miklu púðri í að verja útgerðirnar á sama tíma og þeir eru hundfúlir út í þær vegna kjarasamningsmála (og málum því tengdum).

Það má líka hafa í huga að hvernig sem kvótinn er veittur mun alltaf þurfa skip og sjómenn til að ná í fiskinn. Og sjómenn eru nú þegar þannig staddir að þeir ráða engu um kvótamál, ef útgerðarmanninum dettur í hug að selja kvótann eða leigja frá sér eru þeir ekki spurðir; þeir missa bara vinnuna, þangað til þeir finna annað pláss. Þess vegna m.a. fara hagsmunirnir ekki altaf saman eins og ég nefndi. Ef t.d. fyrirtækið sem þú vinnur hjá sæi hagnað í því að leggja starfið þitt niður er augljóst að þínir hagsmunir og þess fara ekki saman.

ls (IP-tala skráð) 4.11.2016 kl. 13:49

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Sammála en sjómenn eru þá bara í nákvæmlega sömu stöðu og allir aðrir, nema yfirleitt betur launaðir.

Geir Ágústsson, 4.11.2016 kl. 16:46

9 identicon

Þú hefur kannski ekki tekið eftir því Geir að frá því að kvótakerfið var tekið upp, hefur enginn starfandi sjómaður þorað að tjá sig um það opinberlega. Ég hitti yfirstýrimann um daginn sem ég kynntist lítillega fyrir 35 árum. Þegar hann áttaði sig á því hver ég var, þá setti hann rennilás fyrir munninn með táknmáli. Því ef þeir segja eitthvað eru þeir umsvifalaust reknir. Mér sýnist þetta bara vera spurning um hvenær útgerðin gengur of langt gagnvart sjómönnum en þegar það gerist, labba sjómenn í land. En þangaðtil láta þeir sig hafa þetta.

En varðandi afskriftirnar hjá útgerðinni. þá eru það miklar að Icesave fölnar í samanburðinum. Ég gæti nefnt einsök dæmi, en mér finnst það ekki við hæfi.

Ég veit líka að það sem ég er búinn að skrifa á moggablogginu, um útgerðina gerir það að verkum að ég fæ aldrei aftur pláss á Íslandi. En á móti kemur að ég er búinn að fá miklu meira en nóg. Þar fyrir utan hef ég verið Skipstjói í þremur öðrum löndum, þannig að ég er ekkert háður L.Í.Ú.

En í grófum dráttum er útgerðin rekin þannig að almenningur og sjómenn bera kostnaðinn en útgerðargreifarnir hirða hagnaðinn.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.11.2016 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband