Íslenskir háskólar og norrænir

Háskóli Íslands kvartar reglulega yfir fjárskorti. Um leið vill hann kenna öll möguleg fög sem skila litlum sem engum ávinningi til nemenda umfram það að lesa góða bók heima hjá sér. Hann vill vera í fremstu röð. Í raun setur hann sér óraunhæf og rándýr markmið og eyðir hverri krónu og kvartar svo yfir fjárskorti.

En gott og vel, svona flest ríkisfyrirtæki sér líka.

Það er ákveðinn grundvallarmunur á íslensku háskólanámi og því sem ég kynntist í Danmörku á sínum tíma. Í verkfræðinámi mínu á Íslandi var áherslan mikil á sjálfsnám. Nemendur fengu kynningu á námsefninu í fyrirlestrum og fengu svo skilaverkefni. Lítil aðstoð var í boði til að leysa þau skilaverkefni önnur en að spurja samnemendur. Oft voru þetta strembin verkefni sem kröfðust þess að maður lærði á ný forrit, t.d. með notkun netsins og með því að spurja nemendur á svæðinu. Þetta var erfitt en lærdómsríkt ferli.

Í Danmörku er reynt að verja nemendur fyrir sjálfsnámi. Kennsla og verkefnavinna fer fram á skrifstofutíma undir handleiðslu kennara eða með aðstoð aðstoðarkennara. Þegar vafamál kom upp var hægt að rétta upp hendi og hjálpin kom svífandi að. Að skóladegi loknum var allri vinnu lokið og hægt að fara í frí til næsta dags.

Vissulega er ég að einfalda aðeins fyrirkomulagið í báðum tilvikum en yfir það heila var þetta mín upplifun.

En hvort ætli sé nú betra? Um það er erfitt að dæma. Báðar leiðir hafa kosti og galla. Sú íslenska hvetur til sjálfsbjargarviðleitni og sjálfshjálpar en um leið takmarkar hún magnið af námsefni sem er hægt að hlaða á nemendur. Sú danska styður við hópavinnu undir leiðsögn og gerir sennilega mögulegt að kenna meira efni en sjálfsbjargarviðleitnin af ekki styrkt. 

Svo má vel hugsa sér að íslenska leiðin sé ódýrari fyrir skattgreiðendur því minni mannafla þarf til að standa að náminu. 

Eitt er samt víst: Íslensk verkfræðimenntun hefur dugað mér ágætlega í Danmörku og dönsk verkfræðimenntun er eflaust ljómandi góð fyrir íslenskan atvinnumarkað. 

Og nei, Háskóli Íslands þarf ekki tvöföld núverandi fjárframlög til að sinna háskólanámi sem stenst norrænar kröfur. 


mbl.is „Hálfdrættingar á við Norðurlöndin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Þessi söngur rektoranna er orðinn eins árviss og farfuglarnir. Maður brosir orðið bara að þessu :-)

Allar einingar hins opinbera vantar fjármuni. 

Helgi (IP-tala skráð) 16.10.2016 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband