Þriðjudagur, 6. september 2016
Falla heimsins gæði ókeypis á yfirvöld?
Ekki skilja allir hvernig lækkandi eða staðnaðar skattprósentur og jafnvel afnám skatta getur leitt til þess að skattheimta ríkisvaldsins eykst.
Ástæðan er samt einföld í eðli sínu: Þegar yfirvöld stöðva ágang sinn á verðmæti annarra skapast fleiri verðmæti en áður og lægri skattprósentur geta þannig skilað hærri fjárhæðum. Sneiðin sem er tekin minnkar hlutfallslega en kakan er orðin stærri og því meira í hverri sneið en áður.
Nú ætla ég ekki að hrósa ríkisstjórninni alltof mikið fyrir að hafa verið dugleg að lækka skatta. Þar má ganga miklu, miklu lengra og það án þess að neinar breytingar séu gerðar á rekstrarfyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og menntamála svo eitthvað sé nefnt.
Yfirvöld hafa þó náð að knýja fram afnám vörugjalda og stefna á afnám tolla (af öllu öðru en matvælum að vísu, en það er a.m.k. góð byrjun).
Yfirvöld hafa líka unnið eftir fyrirsjáanlegri verkáætlun. Það minnkar óvissu og um leið tiltrú fjárfesta á að fjármunir þeirra verði ekki gerðir upptækir með einum eða öðrum hætti.
Það má því eiginlega segja að stjórnvöld sem aðhafast lítið séu skárri en þau sem aðhafast mikið. Betra er sofandi ríkisvald en ríkisvald með mörg járn í eldinum.
Sumir halda að sú efnahagsuppsveifla sem er í gangi á Íslandi hafi fallið af himnum ofan með ferðamannastraumnum og fiskveiðum. Þeir um það. Ég mæli samt með því að þeir sem trúa á himnesk inngrip í líf mannanna snúi sér frekar að trúarbrögðunum og láti hagfræðina eiga sig.
Tekjur ríkissjóðs jukust milli ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.