Skilaskylda á gjaldeyri - kanntu annan!

Lög eða réttara sagt reglur um skilaskyldu á gjaldeyri eru sennilega einhver minnst virtu opinberu fyrirmæli Íslandssögunnar.

Samkvæmt þeim á fólk sem á erlendan gjaldeyri að labba af fúsum og frjálsum vilja í næsta banka og skipta á honum og íslenskum krónum.

Það er eflaust leit að þeim sem hefur gert þetta ótilneyddur (t.d. af því tollurinn gómaði viðkomandi með þykkt seðlabúnt á leið til landsins). 

En þessi fyrirmæli leiða hugann að öðrum álíka vanvirtum fyrirmælum hins opinbera.

Ein snúa að áfengisneyslu ungmenna. Samkvæmt lögum má Íslendingur á aldrinum 18-19 ára ekki kaupa áfengi, fá það gefins, vera afhent það, ekki brugga það og almennt ekki komast yfir það. Hafi hann hins vegar af einhverjum ástæðum komist yfir áfengi má hann, sem sjálfráða einstaklingur, eiga það og neyta þess. Þessu má hlæja að.

Önnur vanvirt fyrirmæli snúa að öllu niðrandi tali um útlendinga, konur, þeldökka, múslíma, innflytjendur, gleraugnagláma, offitusjúklinga og hvaðeina. Þeir sem hafa uppi niðrandi tal um þessa hópa eru ýmist sóttir til saka - hafir þeir brotið einhver lög sem skerða tjáningarfrelsið - eða fá yfir sig vanlætisskammt. En hvað gerist þegar fólk fær ekki að tjá sig (af hvaða hvötum sem er)? Hverfur talið? Nei. Það færist bara. Menn byrja að tjá sig við aðra sem eru sama sinnis og án þess að nokkur sé til staðar til að rökræða við viðkomandi. Það sem byrjar sem saklaus athugasemd vindur upp á sig í skjóli frá almennri umræðu og breytist jafnvel í blússandi hatursumræðu sem brýst svo fram á yfirborðið á einhvern óvæntan og jafnvel óheppilegan hátt. Nær væri að leyfa öllum að tjá sig og bjóða til yfirvegaðrar rökræðu. En nei, fyrirmælin skulu standa og síðan krossleggja menn fingur og vona að þau dugi. Sem þau gera auðvitað ekki. 

Enn eitt dæmið um vanvirt fyrirmæli hins opinbera snúa að svartri atvinnustarfsemi. Nú eru skattar á laun, vinnu, þjónustu, innkaup og hvaðeina svo háir að eingöngu örfáir geta fjármagnað ýmsa vinnu löglega. Menn grípa því oftar en ekki til hinnar svokölluðu svörtu atvinnustarfsemi. Siggi frændi getur lagað vaskinn fyrir fimm þúsundkall. Binni félagi getur skipt um púströr. Lási lögga getur reddað þér sænsku munntóbaki sem tollurinn gerði upptækt hjá einhverjum unglingnum á leið til landsins. Það mætti jafnvel segja að án þessarar svörtu atvinnustarfsemi lægju bílar, hús og innbú mun víðar undir skemmdum en raunin er í dag. Hið svarta bætir upp fyrir skaðsemina af skattheimtunni á þá hvítu. Þetta kannast bókstaflega hver einasti Íslendingur við.

En já, skilaskylda á gjaldeyri verður nú rýmkuð. Kanntu annan!


mbl.is Dregið úr höftum á heimili og fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já  "skilaskylda á gjaldeyri verður nú rýmkuð."Geir þetta er liðið sem þú villt gefa bitasstæðu ríkisfyrirtækin.

Ég var fyrir mörgum árum á togara. Þar varð mér illilega á í messunni, hvað heldur þú að ég hafi af mér gert? Jú ég smyglaði til landsins heilu vídeótæki. Hugsaðu þér stórglæpur. Í kjölfarið var ég náttúrulega meðhöndlaður eins og stórglæpamaður. Leiddur fyrir fulltrúa Dómara og hvað eina. Ég slapp með himinháa sekt. Heldurðu að það renni einhverntíma upp sá dagur að það koist eitthvert vit í hausinn á þessum afglöpum?

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.8.2016 kl. 19:07

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Geir. Þetta er rétt lýsing á íslenska stjórnsýslukerfinu glæpsamlega og dómstólavarða. Hæstaréttarlögmenn á mafíudópslaunum sjá svo um að verja glæpakerfið, og stýra skítadreifingum í aukavinnu, á ýmsum áróðurssíðum og fjölmiðlum. Dómstólavarið bankahelvíti á jörðu, það.

Ég spyr nú bara: Hvaða höft er verið að tala um?

Hér hefur verið frelsi til að nota greiðslukort án nokkurra takmarana erlendis síðastliðin ár, og að hámarki 300.000 í peningum? Skilagjald? Hvað er nú það? Eitthvað hjá "SORPU" Íslands?

Hér er eitthvað svart umfjöllunarefni í gangi, sem krefst nánari skýringa. Alveg eins og grínfréttin um verðtryggingarlausnina? Ef mér hefur ekki misheyrst, þá talaði Bjarni bæði um veð og áframhaldandi okur á launa-óverðtryggðum 25 ára þrælahengingarkeðjum bankanna? Þar eru tvær kynslóðir í skotsigtinu, hjá dómstóla/lögmannavörðu og sýslumannsframkvæmdanna aftökusveitum bakanna, við næstu bankaárás. "Feitur samningur", fyrir einhverja?

Hvað þarf miklar hamfarir til að fólk vakni til einhverrar meðvitundar um djöfulgang valdatoppanna á Íslandi og víðar í veröldinni?

Guð almáttugur (hver/hvar sem það nú er) komi vitinu fyrir mannskepnuhjörðina heilaþvegnu og/eða kúguðu á þessari jarðarkringlu.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.8.2016 kl. 20:06

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Það eru margt meinfyndið í íslensku þjóðlífi eins og hjá Birtingi forðum. Ekki veit ég hve margir horfa á ÍNN. Í kvöld sat Benedikt Jóhannesson kenndur við Viðreisn fyrir svörum. Fyrirspyrjandinn var kjaftstopp hvað eftir annað og hef ég ekki séð Ingva Hrafn furðulostinn yfir tilsvörum Benedikts. Viðtalið snérist um margt það sem Geir hefur lagt áherslur á. Svona viðtal er ég vissum að myndi aldrei birtast á ríkismiðli.

Sigurður Antonsson, 16.8.2016 kl. 23:54

4 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ættlaði að skipta kr. 480 þúsund í dollara i Arion Banka í Leifstöð, 1. ágúst síðastliðin, var að flýja land, afgreiðslukonan taldi niður 30 seðla úr búntinu sem ég lét hana fá, svo sagði hún "þú getur bara skipt kr. 300 þúsund" og svo beið hún eftir að eg segði eitthvað. Þetta var orðin svolítið afkáruleg þögn af því að ég sagði ekkert og hún gerði ekkert, bara starði á mig, svo braut eg þögnina "hvað viltu að ég geri, kalla á lögregluna?" Þá var eins og konan vaknaði af dvala og ég fékk mína dollara og krónurnar sem að eg mátti ekki selja fyrir dollara.

Ættli að hún hafi búist við einhverjum skömmum og blótsyrðum frá mér? 

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 17.8.2016 kl. 06:03

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er mikilvægt að hafa eftirfarandi í huga:

- Á meðan almenningur umber að ríkisvaldið hafi mikil völd má almenningur búast við að fá yfir sig allskyns fyrirmæli sem ýmist virka sem farartálmar á daglegt líf eða eru svo lítils virt að það er eins og þau séu ekki til staðar.

- Það eru ekki hægrimenn sem eru að biðja um öll þessi völd halda ríkisvaldinu, a.m.k. ekki frjálshyggjumenn. Vinstrimenn vilja bæta í og auka völd ríkisins enn frekar. 

- Ríkiseinokun á einhverju kæfir alla tilraunastarfsemi einkaaðila sem vilja prófa aðrar leiðir. Þetta gildir um allt frá framleiðslu á sementi til löggæslu í íbúðarhverfum.

Geir Ágústsson, 17.8.2016 kl. 06:16

6 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Fólk vill hafa ríkiseinokun.  Vegna þess að þá heldur fólk að enginn sé betur settur en það sjálft.  Ég hef tekið eftir þessu í fari fólks, það vill ekki sjá að einhver hafi það betra.

Á sama tíma tekur það ekki eftir því að gaurarnir sem reka ríkið hafa það mjög gott á meðan.  Og það skiftir venjulegt fólk ekki máli, vegna þess að þeir menn eru ekki mennskir í þeirra augum, heldur einskonar guðlegar verur.

Sama fólk virðist mér líka trúa því að bókstafur laganna sé einhverskonar töfraformúla.  Þess vegna heyri ég ansi oft, frá fólki sem virðist við fyrstu sín vera *sentient creature:* "... en... það er ólöglegt."

Eins og ólögleiki geri eitthvaðómögulegt...

Fólk: Ekki hugsuðir.

Ásgrímur Hartmannsson, 17.8.2016 kl. 08:17

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Lög um skilaskildu á gjaldeyri, - meika samt alveg sens í þessu íslenska samhengi.  Fólk, svokölluð þjóðin, - vill hafa krónu!  Heimtar krónu.

Ok.  Vegna örmyntar sem krónan er og veikburða infrastrúktúr hér, fásinni og einsleitt efnahagsumhverfi etc, - þá er alveg krúsíalt að allir, ALLIR, standi saman um þennan krónuræfil.

Málið er að sjallar og aðrir eíturassar og ofurauðmenn gera það ekki og hafa aldrei gert.

Þeir sjanghæja öllu sínu á Afland, í skattaskjól.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.8.2016 kl. 13:02

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Skilaskylda á gjaldeyri ferðamanna er brandari.  Bönkum er bannað að taka á móti afgangsmyntinni sem ferðamenn halda eftir við heimkomu.  Bara seðla, takk!  Eins og 50 evrur í kopar sé minna virði en 50 evrur í seðlum!

Kolbrún Hilmars, 17.8.2016 kl. 16:48

9 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Maður kaupir dollar á 125 kall við brottför, en fær 118 kall, þegar honum er "skilað" við heimkomu. Alger brandari og þó? Nei frekar grátleg þvæla, sem erfitt er að hlægja að. Þessi nýja "losun hafta" kemur almenningi ekkert við, enda ekki ætluð okkur aulunum, frekar en að nýju hugmyndirnar um að auðvelda ungu fölki kaup á sinni fyrstu íbúð. Algert djöfulsins rugl, allt saman.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 17.8.2016 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband