Hin opinbera einsleitni

Þeir eru margir sem vilja að hið opinbera sé svo gott sem eini aðilinn sem býður upp á menntun og barnagæslu. Sömu aðilar hafa allskyns skoðanir á því hvernig hið opinbera á að haga slíkum rekstri - hvað eigi að kenna hverjum og hvenær og þess háttar.

Um leið dynja miklar kröfur á hið opinbera úr ýmsum áttum. Oft eru þær mótsagnakenndar. Hvað er þá til ráða?

Sumir foreldrar vilja að börn sín læri um Jesú en aðrir um Allah. Sumir vilja að börnin borði eingöngu grænmetisfæði en aðrir vilja reglulegar kjötmáltíðir. Síðan er auðvitað hægt að láta leikskólana tala um hjónabönd samkynhneigðra við 4 ára börn eða sleppa því.

Þegar fólk snýr sér frá opinberum stofnunum og í átt að hinum frjálsa markaði blasir hins vegar allt önnur heimsmynd við því. Hérna eru allir sáttir við að geta labbað á milli verslana í samkeppnisrekstri og valið á milli þess dýra og ódýra, þess fjöldaframleidda og þess einstaka, þess einslita og þess skrautlega. Krafan er sú að fjölbreyttum óskum allra eigi að vera hægt að mæta í samkeppnisumhverfi einkaaðila. Ef allar verslanir tækju upp á því að selja nákvæmlega sömu tegund af svörtum sokkum væri fljótlega byrjað að tala um samráð, einokun og einsleitni og telja slíkt auðvitað vera ólíðandi.

Með öðrum orðum: Við heimtum einsleitni og sömu ramma og menntun fyrir öll börn allra en fjölbreytni, úrval og mismunandi áherslur fyrir okkur sjálf.

Í lokaverkefnum háskólanna er talað um að hitt og þetta vanti upp í öllum leikskólum og grunnskólum landsins, og að hið opinbera ætti að innleiða nýjar reglur fyrir allar stofnanir sem geyma börn á daginn. 

Einsleitni er krafist. Háværasta krafan hverju sinni á að gilda fyrir alla og gilda ofar óskum foreldranna sjálfra.

Þetta gengur auðvitað ekki upp. 

Væri ekki nær að boða einkavæðingu barnageymslunnar og reyna svo sem foreldri að hafa áhrif á nákvæmlega þá stofnun eða fyrirtæki sem hefur börn manns sjálfs til umráða á daginn? Svona eins og við gerum í fataverslunum, til dæmis. 

Væri það ekki friðsamlegri lausn en hin mótsagnakennda flóðbylgja kröfugerða á hið opinbera?


mbl.is Fræða ætti börn um ólík fjölskylduform
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband