Þriðjudagur, 5. apríl 2016
Kosningar og hvað svo?
Segjum sem svo að æstustu mótmælendur fái sínu framgengt og framkvæmdavaldið boðar til nýrra kosninga. Hvað þá?
Líklega vinna Píratar stórsigur og geta í sameiningu við vinstri örflokkana myndað ríkisstjórn.
Þingmenn Pírata verða sundurleit hjörð. Sumir gætu nálgast það að kallast frjálshyggjumenn á meðan aðrir eru nálægt því að vera hreinir kommúnistar. Svona hópur er eflaust gott hráefni í líflegar umræður á kaffihúsum en fyrir hverju ætlar hann að berjast á þingi?
Vinstri örflokkarnir munu bjóða upp á sama tevatnið og fráfarandi ríkisstjórn: Skattahækkanir, viðskiptahindranir og sértækar ríkisaðgerðir sem fá landbúnaðarkerfi Framsóknarflokksins til að fölna í samanburðinum.
Skuldasöfnun ríkisins mun hefjast á ný á fljúgandi ferð. Gæluverkefni verða sett í forgang.
Hljómar þetta eins og hræðsluáróður? Það er ekki ætlunin. Ætlunin er eingöngu að höfða til skammtímaminnis kjósenda og vona að þar sitji eitthvað eftir frá tíð fráfarandi ríkisstjórnar.
Þeir eru til sem lifa eingöngu fyrir næstu byltingu. Á að gefa þeim orðið núna?
Boðað til mótmæla í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Verði kosningar og nýr meirihluti setji lög sem banna viðskipti við og í gegnum skattaskjól þá er allt þetta brölt vel þess virði.
Toni (IP-tala skráð) 5.4.2016 kl. 07:26
Stjórn ríkisins snýst 0.00009% um viðskipti í "skattaskjólum."
Hvað ætla Píratar að gera þegar það er búið? Vera á netinu?
Kalli (IP-tala skráð) 5.4.2016 kl. 07:43
Skattaskjólin eru ekki vandamál heldur skattarnir sem féð er að leita skjóls frá.
Þar með er ekki sagt að menn eigi eða megi brjóta lög, t.d. íslensk lög sem heimila viðskipti við skattaskjól að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (t.d. að menn geti safnað í sjóði erlendis en borga svo tekjuskatt þegar til útgreiðslu kemur, og við það er ekkert athugavert). Þar með er heldur ekki sagt að menn eigi að fara í felur með slík viðskipti, t.d. stjórnmálamenn sem eiga að hafa vit á því að upplýsa um athyglisverð (en lögleg) hagsmunatengsl sín og umsýslu svo slíkt flækist ekki fyrir þeim í starfi eða sé jafnvel í trássi við stjórsýslulög (sem er væntanlega undir saksóknara að ákæra, sé það staðan).
En kosningar og hvað svo? Það er spurningin sem ætti að leita á sem flesta.
Geir Ágústsson, 5.4.2016 kl. 07:50
Mikið af því fólki sem setið hefur á þingi nú þegar sótti engin námskeið í rekstri þjóðar. Það fólk sem tekur við störfum fyrir hönd þjóðarinnar finnur sinn veg, sama hvort það "sé á netinu" eða hafi rekið leikhús.
Ég myndi treysta ykkur Kalla alveg jafn vel og hverjum öðrum, svo hví ekki Pírötum? Ég sé allavega engin rök sem mæla gegn því. Og þá á ég við alvöru rök, sem eru ekki bundin fordómum eða ótta.
Jón (IP-tala skráð) 5.4.2016 kl. 08:26
Jón,
Mér finnst líka spennandi að taka þátt í happdrættum og að vissu leyti eru allir stjórnmálaflokkar það.
En tökum nú dæmi úr þeirra eigin stefnuskrá:
"Píratar vilja stytta vinnuvikuna, það er ósanngjarnt að íslendingar fái allt að helmingi lægri laun en nágrannalönd okkar en þurfi að vinna jafn mikið eða jafnvel meira."
Hér kemur sama hagfræðilega meinloka fyrir og í mörgum stefnuskrám vinstriflokkanna. Vinnuvikuna má ekki stytta bara si svona nema að eitt af eftirfarandi gerist:
- Fjárfesting í aukin þannig að verðmætasköpun fólks eykst (grafa tekur við að skóflu, tölvan við af reiknivélinni osfrv.): Hérna þarf hagstæð rekstrarskilyrði, hóflega skattheimtu og TÍMA.
- Laun lækka: Færri tímar => minni verðmætasköpun
- Þeir sem framleiða minnst verðmæti með vinnu sinni fá uppsagnarbréf
Síðan er það þessi hér:
"Internetið er grunnþáttur hagvaxtar"
Úff, segi ég bara.
Og síðan er það mannskapurinn. Hvað ætla Helgi Hrafn og Smári McCarthy að sammælast um? Þeir eru jafnólíkir að mínu mati og Sigríður Andersen og Katrín Jakobsdóttir - að mörgu leyti hugmyndafræðilega andstæðir pólar.
En hver veit - kannski slysast Píratar til að sópa mörgum af frjálshyggjusinnaðri meðlimum sínum á kjörskrá og hreinlega gera þingið hægrisinnaðra en nokkur annar flokkur. Þá yrði veisla!
Geir Ágústsson, 5.4.2016 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.