Miðvikudagur, 2. mars 2016
Að sjálfsögðu
Það er gott að einhverjir vinstrimenn á Alþingi líta ekki á það sem eina hlutverk sitt að fá sem mestan tíma í ræðustól.
Auðvitað á Ísland að stunda frjáls viðskipti við Japan og við heiminn ef því er að skipta.
Til þess þarf samt ekki neina sérstaka samninga sem vefja viðskipti inn í allskonar skilyrði og undanþágur frá þeim. Alþingi getur einfaldlega ákveðið að afnema alla tolla og allar hömlur á frjáls viðskipti við allan heiminn - á morgun!
Þetta myndi þýða að í einhverjum tilvikum kæmu vörur frá einhverju landinu ótollaðar inn til Íslands á meðan íslenskar vörur lenda í háum tollum þegar þær fara í hina áttina. Það er samt engin ástæða til að tolla eitthvað. Þótt nágranninn grýti höfnina sína er engin ástæða fyrir okkur að grýta okkar.
Frjáls verslun er réttlætismál en ekki spurning um krónur sem lenda í höndum stjórnmálamanna.
Sammála um fríverslun við Japan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að afnema tolla einhliða er heimska. Við það versnar samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja og tekjur ríkissjóðs minnka. Kaupmenn eru þeir einu sem hagnast því að þeir geta hækkað álagninguna.
Íslendingar eru ekki tilbúnir til að veikja enn frekar innviðina með því að minnka tekjur ríkissjóðs og draga úr samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja.
Afnám tolla frá ákveðnum löndum er því aðeins réttlætanlegt að afnám tolla á vörum frá Íslandi til sömu landa komi samtímis eða fylgi í kjölfarið. Þetta sjá aðrar þjóðir.
Ásmundur (IP-tala skráð) 2.3.2016 kl. 21:51
Ásmundur,
Þér hefur ekki dottið í hug sá möguleiki að tollavernd (jafnvel samhliða ýmsum öðrum sértækum ríkisaðgerðum til verndar ákveðnum faggreinum) sé til langtíma að stuðla að óhagkvæmni og stöðnun og beina orku fólks frá einhverju verðmætaskapandi og til einhvers sem sóar tíma og fé þess og annarra?
Ég þyrfti við tækifæri að grafa upp góða grein um hvernig Nýja-Sjáland afnám alla landbúnaðarstyrki og tollavernd á innan við 5 árum (í stjórnartíð vinstrimanna, vel á minnst) og uppskar samkeppnishæfan landbúnað sem keppir af fullum þrótti við blússandi niðurgreiðslu landbúnaðar í flestum öðrum þróuðum ríkjum.
Geir Ágústsson, 3.3.2016 kl. 07:56
Geir, innflutningstollar sem lagðir eru á innflutning frá löndum sem innheimta tolla á innflutning frá Íslendi eiga ekkert skylt við verndartolla eins og íslenskur landbúnaður býr við.
Í fyrra tilvikinu búa málsaðilar við sömu kjör en í hinu seinna hagnast bændur og þjóðir, sem niðurgreiddar íslenskar landbúnaðarvörur eru fluttar til, óeðlilega á kostnað íslensks almennings.
Ef innflutningstollar hér eru afnumdir án þess að tollar á innflutning frá Íslandi til sömu landa séu afnumdir mun almenningur tapa í formi tapaðra tekna ríkissjóðs og verri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem leiðir til minni atvinnu og galdeyristaps.
Ásmundur (IP-tala skráð) 3.3.2016 kl. 22:19
Ásmundur,
Sem betur fer eru hagfræðikenningar sem þessar frekar að hörfa en styrkjast.
Geir Ágústsson, 4.3.2016 kl. 04:42
Svona augljóst samband á milli orsaka og afleiðinga verðskulda tæplega að kallast hagfræðikenningar enda þarf aðeins almenna ályktunarhæfni til að sjá það.
Er það ekki augljóst að verðlækkun á erlendum vörum vegna tollalækkunar leiðir til að sambærileg innlend framleiðsla að öðru jöfnu minnkar vegna verri samkeppnisstöðu?
Er það ekki augljóst að einhliða niðurfelling tolla leiðir að öðru jöfnu til lægri tekna ríkissjóðs? Það þýðir að annaðhvort þarf að hækka skatta eða veikja enn frekar innviðina.
Er það ekki augljóst að gjaldeyrisjöfnuðurinn veður óhagstæðari þegar innfluttar vörur lækka í verði en ekki innlendar sem geta jafnvel þurft að hækka?
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.3.2016 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.