Sunnudagur, 21. febrúar 2016
Gefst hið opinbera bara ekki upp á þessu?
Hið opinbera ætti að líta í eigin barm og lýsa því yfir að það sé búið að gefast upp á því að reyna stjórna umferð og leggja vegi og stíga sem gagn er að. Vegakerfið verði selt og skattar vegna þess lagðir af.
Þetta væri snyrtileg lausn og myndi rýmka töluvert til í dagatali stjórnmálamanna.
Ríkisvaldið ákvað á sínum tíma að það þyrfti ekki að standa í rekstri símafyrirtækja. Þar var opnað á frjálsan markað og skattfé var ekki lengur eytt í lagningu samskiptaloftneta og landlína. Flestir kannast við afleiðingarnar: Einkaaðilar spruttu upp, verðlag lækkaði, úrval jóks og verðlag fór að endurspegla kostnað og samkeppnisumhverfi.
Innviðir eins og vegalagning eru að mörgu leyti miklu einfaldari rekstur og framkvæmd en sífelld endurnýjun á símaþjónustu og gagnaflutningum. Hérna þarf ekkert ríkisvald. Ekki er heldur um að ræða miklar tæknilegar hindranir. Ef sími getur skynjað tilvist fjölda tengimöguleika og valið þann rétta en til vara einhvern annan gegn hærra gjaldi þá geta litlir skynjarar í bílum tryggt samskipti vegaeigenda og ökumanna snuðrulaust. Tollahlið yrðu sjaldséð sjón. Skattar snarlækka á bíla og bensín og fé leitar til þeirra sem leggja hagkvæmustu vegina og verðleggja rétt eftir tíma sólarhrings, þyngd ökutækja og almennu viðhaldi og aðgengi.
Kæra ríkisvald, slepptu vegakerfinu úr snöru þinni!
Peningar í umferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er síðuhafi ekki að grínast? Að segja það að verðlagning símfyrirtækja hafi lækkað, þegar 3 aðilar troðast inn á markað sem er kannski ekki fyrir fleiri notendur en 6.000 - 8.000 yfir helgar. Að það sé arðbært að vera með 3 fyrirtæki á svo smáum markaði hlýtur að endurspeglast í allt of háu verði. Síðan er hver aðilinn á fætur öðrum að leggja ljósleiðara með þvílíkum kostnaði að á endanum þarf ríkið að sjá um að gera það.Þvílíkur sparnaður
thin (IP-tala skráð) 21.2.2016 kl. 17:03
thin,
Fjarskiptaþjónusta á Íslandi er blússandi samkeppnisrekstur sem er raunar magnað miðað við hvað landið er dreifbýlt og skattar háir. Þú hefur svo e.t.v. í huga að til Íslands koma líka um milljón ferðamenn á ári og að á Íslandi eru rekin gagnaver fyrir erlend fyrirtæki sem leggja eitthvað til líka. Annars er vel gert að geta kastað út tölu um réttan fjölda fyrirtækja. Loks má geta að það er ekki bæði hægt að vilja samkeppni og að fyrirtækin séu fá. Hérna eru talsmenn ríkiseinokunar á hinu og þessu sennilega þeir sem tala í mestum öfugmælum.
Geir Ágústsson, 21.2.2016 kl. 18:48
Sæll Geir og takk fyrir þetta.
Fyrir það fyrsta þá byð ég þig um að vera ekki að draga gagnaverin inn í þetta mál því að þeir koma ekki nálægt uppbyggingu á síma- eða fjarskiptamarkaðnum að neinu leyti.
Þú getur bent á erlenda ferðamenn, sem skriðu í fyrsta skiptið yfir eina milljón á síðasta ári, og sagt að það sé verið að byggja upp fjarskiptakerfið vegna þeirra. En trúðu mér að fjarskiptafyrirtækin fóru ekki á þennan markað á sínum tíma til að græða á túristum.
"Annars er vel gert að geta kastað út tölu um réttan fjölda fyrirtækja" ég skil ekki hvað þú ert að fara þú mættir gjarnan útskýra þetta.
Þar sem þú segir að ekki sé hægt að hafa fá fyrirtæki og samkeppni þá má það vera enda held ég að það sjáist núna þar sem sum farsímafyrirtæki eru ekki allsstaðar á landinu þar sem þeir sjá ekki hag í því.
Að endingu verður þú að útskýra síðustu setninguna um talsmenn ríkieinokunar, hvað ertu að meina?
thin (IP-tala skráð) 21.2.2016 kl. 19:13
Sæll/sæl thin,
Ég held, að þínu ráði, gagnaverunum utan við þessa umræðu. Ég hafði bara hugmynd um að þau legðu a.m.k. til fé í gagnaflutninga til og frá landinu sem gæti þá stutt við aukna flutningsgetu og þar með lægra verð á megabætið til þeirra sjálfra og annarra. Það er kannski önnur saga.
Fjarskiptafyrirtækin höfðu e.t.v. ekki aukinn fjölda ferðamanna í sigtinu fyrir örfáum árum en þau hljóta að njóta góðs af þeim (eins og svo margir aðrir sem upplifa gósentíð vegna ferðamannanna). Á Leifsstöð blasa a.m.k. við stórar auglýsingar sem hvetja ferðamenn til að kaupa sér rándýr íslensk frelsiskort til að fá aðgang að 3G/4G netsambandi víða á Íslandi.
Er það gagnrýnivert að sum fjarskiptafyrirtæki einbeita sér að sumum svæðum frekar en öðrum? Nú man ég vel hvernig Tal byrjaði á sínum tíma, sem fyrsti samkeppnisaðili Símans um farsímaviðskiptavini: Eingöngu í Reykjavík. Það tók mörg ár að breiða reksturinn um allt land, skiljanlega. Gangi það hins vegar vel þá mun þjónustan breiðast út.
Varðandi ríkiseinokun: Nú bendi ég á að þar sem áður var ríkiseinokun á Íslandi (rekstur fjarskiptafyrirtækja) en er núna blómstrandi markaður þar sem keppst er um neytendur og notendur. Ég tel þann lærdóm vera beint heimfæranlegan á vegakerfið en sé að þeir sem almennt eru hlynntur ríkiseinokun vilja hér viðhalda henni af einhverjum ástæðum sem ég sakna þess að heyra.
Geir Ágústsson, 22.2.2016 kl. 06:20
Sæll aftur Geir og þakka þér.
Ég held að menn einfaldlega gleymi því að við búum í 330.000 manna þjóðfélagi en ekki í 3.300.000 manna þjóðfélagi. Ríkið byggði hér upp fjarskiptanet á sínum tíma og hélt því vel við, og var Póstur og Sími mjög framarlega á sínum tíms með uppfærslur á tækjabúnaði og nýjungar. Uppbygging í sveitum landsins kostaði mikinn pening og er það á hreinu að einkafyrirtæki í dag myndu ekki detta það í hug að fara út í slíka vitleysu þar sem þeir fengju það aldrei tilbaka. En þá geta menn komið og sagt ja við látum Ríkið bara sjá um þennan hluta sem er óhagstæður samkeppnislega. Í mínum huga er þetta annaðhveort eða, þ.e allt í samkeppni eða ekkert í samkeppni. Miðað við s.l. 20 ár sem samkeppni hefur verið hér á markaðnum er ég fullviss um að við erum að greiða 20-30% hærra verð fyrir alla fjarskiptaþjónustu en gætum verið að greiða hefði þessi þjónusta verið á einni Rikishendi.
Bara til að gefa þér smádæmi: Póstur og Sími lagði ljósleiðarastreng kringum landið, síðan eru fyrirtæki búin að leggja ljósleiðarastreng yfir hálendið og önnur einkafyrirtæki að leggja hér og þar. Það virðist ekki hafa verið mörkuð nein stefna og hvað heldur þú að þessi vitleysa sé buin að kosta. Mundu við erum bara 330.000 hræður hér á landi. Ef þetta hefði verið á einni hendi þá hefði verið farið í þetta skynsamlegra og ljósleiðarastrengirnir verið betur nýttir en þeir eru í dag. Bara þetta bendir til hversu arfavitlaus hugmynd þetta er.
Þar sem þú spyrtir vegasamgöngur við fjarskiptakerfið þá á ég til með að benda þér á þessa frábæru einkafarmkvæmd með Vaðlaheiðagöngin, hver skyldi þurfa að greiða þann reikning á endanum? Til að gæta sanngirnis þá má ég til með að hrósa þeirri frábæru einkframkvæmd sem Hvalfjarðargöngin voru. En ég er hræddur um að menn hafi misst sig eitthvað í reikningnum með Vaðlaheiðagöngin.
thin (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 09:27
thin,
Þú ferð mörgum fögrum orðum um ríkiseinokunina og gott og vel, þú ert ekki einn/ein á báti.
Ég hef nú samt ekki séð neinn tala um ágæti Pósts og Síma og ríkiseinokunar á fjarskiptum mjög lengi og eiginlega er kjaftstopp af undrun í ljósi þess hvað einkaaðilar hafa verið framsæknir hérna.
Gleymdu því ekki að Vaðaheiðargöng eru opinber framkvæmd þótt tapreksturinn eigi tímabundið að fela hjá einkafyrirtæki. Svokallað kjördæmapot. Til gamans get ég hvatt þig til að taka þessari áskorun:
http://andriki.is/post/12835885172
Geir Ágústsson, 22.2.2016 kl. 09:55
Takk fyrir þetta Geir.
Ég veit ekki alveg í hvaða veruleika þú lifir talandi svona um samkeppnina eins og þú gerir. Þér virðist það vera í góðu lagi að við séum að borga allt of mikið fyrir einhverja þjónustu í nafni samkeppni. Komdu nú með haldbær rök fyrir því sem þú ert að segja ekki "verðlag lækkaði, úrval jókst, einkaaðilar hafa verið framsæknir hérna". Finnst þér semsagt í lagi, í nafni samkeppninar, að leggja 2 ljósleiðarastrengi til Vestmannaeyja þar sem annar þeirra er svo til ónýttur?
Finnst þér í lagi, í nafni samkeppninar, að setja upp 2 fjarskiptamöstur 2 fjarskiptahús, í nafni samkeppninar, á sama stað til að ná yfir eitthvað svæði?
Það er í góðu lagi að vera með samkeppni t.d. matsölustaðir o.sv.frv. en þegar menn missa sig svona gjörsamlega eins og að tala um samkeppni á fjarskiptamarkaðnum hér á landi og tala um að allt hafi lækkað í verði þá einfaldlega eru menn ekki jarðtengdir eða eru að reyna að ljúga að fólki. Ef hægt er að sýna fram á og sanna að þetta sé svona rosalega arbært fyrir neytendur sýnið mér það þá.
thin (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 10:24
thin,
Af hverju gerir þú hérna upp á milli þéttleika matsölustaða á ákveðnu stæði og fjarlægð milli fjarskiptamastra?
Fyrir utan að hérna eru einkaaðilar að hætta eigin fé en ekki þínu og bítast um viðskipti þín í leiðinni.
Ég finn ekki í fljótu bragði neinar vísitölur fjarskiptakostnaðar svo í fjarveru tölfræði af þinni hálfu þá verðum víst að halda umræðunni við grundvallaratriði: Á að heimila samkeppnina eða banna hana.
Geir Ágústsson, 22.2.2016 kl. 12:39
Sæll Geir.
Af hverju gerir þú það mér upp að ég sé að tala um matsölustaði á ákveðnu stæði (hvað sem það þýðir nú)? Og hvað hefur það nú með fjarlægð milla fjarskiptamastra að gera?
Þegar menn fara að tala um einhver svona mál án þess að hafa neitt í höndunum, nema trú fyrir því að samkeppni á almennum markaði sé alltaf það besta, ættu þeir frekar að þegja heldur en að ausa fáfæði um þessi mál út á netið. Þú getur ekki fært nein rök fyrir þessari kenningu þinni nema að tala og tala og ég held að þú hafir ekki einu sinni vit á því um hvað þú ert að fjalla þegar þú ert að tala um fjarskiptamarkaðinn.
Nú þegar er komið í ljós þvílík vitleysa salan á Pósti og Síma var, ekki síst að hafa allavegana ekki tekið grunnnetið frá og haldið því innan Ríkisins en misvitrir stjórnmálamenn sem ekki hlusta á rök eða neitt óðu fram eins og blindir hundar og seldu og sögðu að ekki væri hægt að taka grunnnetið frá. Það fyrsta sem nýir eigendur gerðu var að taka grunnnetið undan og búa til annað fyritæki sem heldur utan um það. Að framansögðu getur þú ímyndað þér hvað ég myndi vilja gera.
Mér sýnist að í það minnsta í þessu máli þá séum við ekki sammála um hvora leiðina eigi að fara, en takk fyrir.
thin (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 13:09
thin,
Það er naumast minn skortur á tölfræði er miklu alvarlegri en þinn skortur á tölfræði! En gott og vel, eigðu góðar stundir.
Geir Ágústsson, 23.2.2016 kl. 05:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.