Föstudagur, 29. janúar 2016
Fríhafnir eru tákngervingur of hárra skatta og mismununar
Þar sem fríhafnir veita viðskiptavinum mikinn ávinning miðað við að versla úti í bæ eru þær tákngervingur mismununar og þess að skattar eru of háir í viðkomandi landi.
Nú get ég - ótrúlegt en satt - tekið Danmörku sem dæmi um andstæðu við Ísland þegar lítur að þessu. Áfengi og sælgæti er ekki ódýrara í dönskum fríhöfnum en utan þeirra. Stundum er það jafnvel töluvert dýrara. Það sem munar helst um er tóbakið og e.t.v. eitthvað af snyrtivörunum. Danir versla lítið í fríhöfnum Danmerkur. Hér eru skattar háir, en svipað háir innan og utan flugvallanna.
(Það sem vörurnar á flugvöllunum hafa e.t.v. umfram þær utan flugvallanna eru umbúðirnar og magnið í þeim, t.d. lítersflöskurnar af sterkum vodka sem eru sjaldséðar utan flugvallanna.)
Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Íslendingar á leið inn í landið eru jafnan klyfjaðir með áfengi og sígarettum enda að spara stórar fúlgur miðað við að kaupa sömu vörur utan flugvallarins. Innan flugvallarins eru gleraugna- og lopapeysusalar í beinni og ósanngjarnri samkeppni við aðila utan flugvallarins.
Svona má líka þekkja Norðmenn á dönskum flugvöllum. Það eru þeir með troðfullu innkaupapokana af áfengi og tóbaki.
Auðvitað er alveg sjálfsagt að ferðalangar geti verslað eins og aðrir. Það er hins vegar ósanngjarnt að þotuliðið - oft vel stætt fólk að ferðast á kostnað annarra - sitji eitt að ódýrum vodka og hóflega verðlögðum Marlboro-sígarettum á meðan láglaunafólkið sem getur lítið ferðast þarf að borga ofan í ríkishítina.
Einkarekstur fríhafnar skynsamlegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.